Fermingin er falleg samleið

Fermingin á sér djúpar rætur í íslensku samfélagi. Á Vísindavef Háskóla Íslands má finna upplýsingar um uppruna fermingarinnar og þar stendur m.a. „Fermingin er eins konar ungmennavígsla og sem slík er hún sennilega jafn gömul mannlegu samfélagi.“  Það má segja að fermingarfræðslan og fermingin sé falleg samleið heimila og kirkju þegar börnin okkar fara frá barnæsku yfir á unglingsárin.  Það er oft svolítið flókinn tími og gott að staldra við og skoða mikilvæga vegvísa sem byggja á 1000 ára trúarmenningu. 

Sr Jóna Hrönn á fermingardaginn sinn


Fermingin er í raun síðbúin skírnarfræðsla vegna þess að ungabörn eru skírð að ósk foreldra svo kirkjan ber ábyrgð á að bjóða þeim fræðslu og samleið þegar þau ná vissum aldri og þroska. Það er svo margt í boðskap Krists sem valdeflir og skapar fallega sjálfsmynd.  Gullna reglan, sagan um miskunnsama samverjann, sagan um týnda soninn og margar fleiri sögur úr biblíunni eru sögur sem kynslóðir íslendinga hafa lært og tileinkað sér til eftirbreytni. Þessar sögur og margar fleiri notum við í kirkjunni til að undirbúa fermingarbörnin undir það mikilvægasta í lífinu sem eru mannleg samskipti og sjálfsþekking – af því að sjálfsþekking og hæfni í samskiptum við annað fólk er leiðin til farsældar og hamingju, fyrir utan að sjálfsþekking skapar líka fallega sjálfsmynd.  Og svo kennum við þeim að biðja bænir vegna þess að bænin fær okkur til að beina huganum að því sem mestu máli skiptir í lífinu sem er heilsan okkar, fólkið okkar, landið okkar og heimurinn okkar.  Það er oft sagt að bænin breyti ekki Guði en hún breytir alveg örugglega þeim sem biður.

Sr Henning á sínum fermingardegi

Um þessar mundir eru á þriðja hundrað ungmenni í Garðabæ að velta fyrir sér hvort þau eigi að fermast vorið 2022.  Við höfum notið þeirrar gleði að langflest þeirra kjósa að fermast  enda er vandfundið það bæjarfélag á Íslandi sem státar af hærra hlutfalli íbúa sem eru í Þjóðkirkjunni.  En það er mikilvægt að taka umræðuna heima og velta því fyrir sér hvaða væntingar eru til þessarar samleiðar hjá unglingunum okkar.  Sum þeirra koma og segjast ekki eiga sterka trú og þá er hægt að horfa á samleiðina sem leit andlegra gæða og það hefur líka gerst að unglingar hafa tekið alla fermingarfræðsluna en ekki fermst, af því að fræðslan var stóra málið. Við höfum líka haft í fermingarfræðslunni ungmenni af öðrum trúarbrögðum sem hafa notið samfélagsins.  Í Vídalínskirkju leggjum við metnað okkar í að fræða börnin um aðalatriði lífsins  og leggjum áherslu á að nálgast einstaklingana á þeirra forsendum.  Við viljum leggja okkur fram um að gera fermingarfræðsluna lifandi, þótt oft séu alvörumál til umræðu– og hápunktur hvers árs er án efa ferð í Vatnaskóg.

Sunnudaginn 2. maí hefjast fermingarstörfin formlega í Garðasókn með því að við bjóðum fermingarbörnum og aðstandendum þeirra til guðsþjónustu kl.11:00 sem verður streymt beint frá Vídalínskirkju á fésbókarsíðu kirkjunnar, þar sem aðeins 30 manns mega koma saman vegna samkomutakmarkana. Stundin er sniðin að því að bjóða ykkur sérstaklega velkomin inn í þessa fallegu samleið sem fermingarveturinn er í lífi fjölskyldunnar. 

Strax að lokinni guðsþjónustunni er stuttur fundur á netinu þar sem skráning á fermingardaganna er kynnt og farið yfir helstu tímasetningar á haustönninni, eins og fermingarferðalög í Vatnaskóg og fermingartíma, þá er hægt að loknum fundinum að koma með spurningar á fésbókinni sem við myndum þá svara strax – eða þá að senda okkur póst á [email protected] eða [email protected] sem yrði svarað eftir helgina. Það er hægt að sjá hvaða fermingardagar eru í boði inn á gardasokn.is.  Við hlökkum til að eiga þessa stund með ykkur.

Með blessunaróskum
sr. Jóna Hrönn Bolladóttir og  sr. Henning Emil Magnússon

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar