Tveir Garðbæingar taka þátt í sýningunni Langelstur að eilífu

Nú er farið að fækka sýningunum á fjölskyldusöngleiknum Langelstur að eilífu sem sýndur er í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði, en í sýningunni koma tveir Garðbæingar við sögu, Nína Sólrún Tamimi, sem er nú átta ára en var sjö ára þegar sýningar hófust, en hún stundar nám í Sjálandsskóla og leikkonan og skemmtikrafturinn Júlíana Sara Gunnarsdóttir, sem flutti í Garðabæ 2019.
 
Sýningin hefur slegið í gegn, en hún er byggð á verðlaunabókum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur um vinina Eyju og Rögnvald sem verða bestu vinir þrátt fyrir 90 ára aldursmun. Verkið fjallar á einlægan hátt um vináttuna, lífið og dauðann en sýningin er full af gleði, söng, hlýju og hjartnæmum boðskap. 
 
Með hlutverk Rögnvaldar fer enginn annar en stórleikarinn Sigurður Sigurjónsson en Nína Sólrún leikur Eyju, bestu vinkonu hans. Júlíana Sara fer svo með hin ýmsu hlutverk í sýningunni, en hún leikur m.a. móður Eyju
 
Hvernig kom það til að Júlíana Sara og Nína Sólrún ákváðu að fara í áheyrnarprufu fyrir leikritið?
,,Mamma ætlaði að panta miða á Bíddu bara sýninguna í Gaflaraleikhúsinu, sá auglýsinguna fyrir áheyrnarprufurnar á Langelstur að eilífu og skráði mig. Svo ég hafði ekkert með það að gera,“ segir Nína Sólrún og Júlíana tekur við: ,,Björk Jakobsdóttir leikstjóri, hringdi í mig ári áður en æfingaferli hófst og viðraði þessa hugmynd við mig. Ég man ég varð strax spennt fyrir þessu. Sumarið eftir kom síðan staðfestingin á því að þetta leikrit yrði sett upp en þá hringdi hún í mig og spurði mig hvort ég væri ekki ennþá til. Ég var ekki lengi að segja já, stökk á tækifærið þar sem ég hafði minna verið í leikhúsi og ekki áður verið í barnasýningu. Fannst þetta kjörið tækifæri til að víkka búbbluna mína og heldur betur ánægð með þá ákvörðun í dag. Ekkert smá skemmtilegur hópur af lista krökkum/fólki sem ég hef lært heilmikið af.“

Nina Sólrún með Sigga Sigurjóns

En hvaðan kemur leiklistaráhuginn hjá Nínu og Júlíönu? ,,Ég veit það ekki alveg. Ég fór á einnar viku leiklistarnámskeið í Hofstaðaskóla sumarið á undan og fannst mjög gaman. Var samt ekkert að spá í að fara að leika í alvöru leikriti en svo fannst mér mjög skemmtilegt í áheyrnarprufunum og þegar ég fékk hlutverk Eyju varð ég mjög spennt. Ég elska Langelstur- sögurnar og því fannst mér frábært að fá að leika í leikriti sem byggist á þeim,“ segir Nína.

Mér finnst þetta allt svo miklir töfrar

Júlíana segir að hún muni í rauninni ekki eftir öðru en að hafa viljað verða leikkona. ,,Eftir að ég sá Litlu Hryllingsbúðina í Borgarleikhúsinu ’98-’99 að þá heillaðist ég alveg upp úr skónum, ásamt því að horfa á Bodyguard með Whitney Houston óþarflega oft á þessum tíma. Mér fannst þetta allt svo miklir töfrar. Sama hvort það var á sviði eða í bíó. Ímyndunaraflið hefur alltaf verið sterkt sem þýddi það bara að það var alltaf tiltölulega auðvelt að ímynda sér hvað það það væri nú dásamlegt að standa upp á sviði eða leika í bíómynd. Sem krakki, lék ég senur úr leikritum og bíómyndum í herberginu mínu en mér hefur sem sagt alltaf fundist þetta svo töfrandi leið til að segja sögur,“ segir Júlíana.

Júlíana í hlutverki mömmu Eyju ásamt Eyju sem Nína Sólrún leikur.

Heldur í litla töfrabarnið

Júlíana, þú hefur leikið í mörg ár og tekið þátt í mörgum leiksýningum og sjónvarpsséríum. Hvað er svona áhugavert að vera leikari og er þetta skemmtilegt? ,,Ég væri náttúrulega aldrei í þessu ef það væri ekki gaman. Ég ákvað mjög ung að ég skyldi vinna við eitthvað sem myndi veita mér ánægju en þessi vinna veitir mér það svo sannarlega. Ætli ég heillist ekki mest af því að fá að gleyma mér í smá stund í “öðrum heimum”. Fá að segja sögur á þennan “töfrandi” hátt, eins og ég talaði um áðan. 
Í þessu starfi ertu líka alltaf að víkka þæginbúbbluna þína og persónulega auðveldar það mér að lifa lífinu lifandi, halda í litla töfrabarnið mitt.“

Heilluð af þessum hæfileikasprengjum

Og hefur verið gaman að taka þátt í söngleiknum Lang lstur að eilífu? ,,Það hefur verið virkilega gaman. Að fá að vinna með svona miklu hæfileikafólki, krökkum jafnt sem fullorðnum hefur verið gífurlega lærdómsríkt,“ segir Júlíana og heldru áfram: ,,Með hverju verkefni lærir maður eitthvað nýtt og ég gerði það svo sannarlega í þessu verkefni. Þetta var krefjandi æfingaferli þar sem Covid kom sterkt inn í ferlið en ég held að það hafi bara gert okkur öll nánari. Ég verð líka að minnast á það hvað ég var heilluð af þessum hæfileikasprengjum sem þessir krakkar eru, þvílíkir hæfileikar og þvílíkt hugrekki, ég dáist að þeim.“

Eyja með mömmu og pabba

Getur stundum verið erfitt

En hvernig er það fyrir þig Nína, átta ára stelpu að taka þátt í svona leikriti meðfram skóla og öðrum tómstundum – ekkert erfitt? ,,Það getur stundum verið erfitt. Stundum var ég mjög þreytt þegar ég kom heim eftir leiklistaræfingar sem voru oft mjög langar. En þetta hefur verið miklu auðveldara eftir að við hættum að æfa og byrjuðum að sýna.“
 
Og hvernig er svo að leika Eyju og hvernig stelpa er hún? ,,Það er skemmtilegt. Eyja er fjörug, tilfinninganæm og hjálpsöm. Hún er hugmyndarík og hugrökk,“ segir Nína.

Ég er dugleg að lesa eins og Eyja

Og ertu eitthvað lík henni? ,,Já, að sumu leyti. Ég er dugleg að lesa eins og hún. Ég er líka hugmyndarík. Ég er líka tilfinninganæm og hef samkennd með öðrum eins og hún.“

Frumsýning á Venjulegu fólki í lok október

Nú er sýningum farið að fækka. Hvað tekur svo við hjá þér Júlíana eftir að sýningunum lýkur? ,,Já það er heldur betur nóg framundan. Við erum að frumsýna 5. seríu af Venjulegu Fólki núna í lok október, ásamt því að vera að fara í tökur fyrir Christmas special Venjulegs Fólks. Þannig það er alltaf nóg að gera, sem höfundur og leikkona. Svo eru alltaf skemmtileg og fjölbreytt verkefni samhliða því. Fjölbreytnin finnst mér svo mikilvæg en það er stór partur af því að finnast alltaf gaman í vinnunni.
 
En hvað með þig Nína, finnst þér gaman að leika, syngja og dansa. Langar þig að halda áfram að leika og stefnir þú kannski á að verða leikari þegar þú verður stór? ,,Mér finnst þetta allt rosalega skemmtilegt. Já og ég myndi endilega vilja leika meira. En ég veit ekki alveg hvað ég vil verða þegar ég verð stór, kannski söngkona eða leikkona.“
 
Nú eruð þið að leika og sýna í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Vilduð þið að það væri einhver svona aðstaða í Garðabæ? ,,Já, endilega. Ég held að fleiri Garðbæingar myndu fara í leikhús ef það væri að finna í bænum. Og það væru örugglega fleiri tækifæri fyrir fullorðna og börn í Garðabæ til að leika ef hér væri leikhús,“ segir Nína.

Nina Sólrún (efst) og Siggi Sigurjóns ásamt fleiri krökkum í sýningunni.

Áfram með þessa hugmynd, Garðabæjarleikhúsið.

Og þið hvetjið alla Garðbæinga til að koma og sjá Langelstur að eilífu áður en yfir lýkur? ,,Já, svo sannarlega. Þetta er sorgleg, fyndin og skemmtileg sýning. Hún getur hjálpað fólki að skilja að allt getur gerst fyrir tilviljun, líka góðir hlutir eins og að Rögnvaldur og Eyja urðu vinir. Og allir sem ég hef talað við sem hafa séð sýninguna segja að hún sé rosalega skemmtileg,“ segir Nína og Júlíana bætir við: ,,Svo sannarlega. Það mætti heldur betur stækka leiklistar umhverfi sjálfstæðu senunnar. Það eru alltof fá húsnæði til að setja upp sýningar á höfuðborgarsvæðinu en aðstaðan í Gaflaraleikhúsinu er algjörlega frábær, enda frábært fólk sem hefur komið því svona skemmtilega upp á síðustu árum. Þannig áfram með þessa hugmynd, Garðabæjarleikhúsið,“ segir Júlana að lokum.

Næstu sýningarsem auglýstar hafa verið í sölu verða 16. og 30. október kl. 13. og 16, en líklegt er að sýnt verði eitthvað fram í nóvember. Nú er bara um að gera að skella sér á sýninguna með þeim Nínu Sólrúnu og Júlíönu Söru áður en það verður of seint. Hægt er að kaupa miða á tix.is
 
Þess má geta að Gaflaraleikhúsið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á kennslu í leiklist fyrir börn og ungmenni og var boðið upp á opnar áheyrnarprufur haustið 2021 fyrir Langelstur að eilífu. Mörg hundruð börn mættu í prufur svo það er greinilegt að Nína Sólrún hefur mikla hæfileika er kemur að leiklistinni.

Tónlistina úr leikritinu, sem er eftir Mána Svavarsson, er nú að finna á Spotify.

Á fleygiferð á spítalanum

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar