Tímabil breytinga þar sem reynir mjög á leikskólakerfið

Það er mikið að gerast í leikskólamálum í Garðabæ þessa stundina, en starfsumhverfi starfsfólk og barna er að taka breytingum og þá stendur yfir innritun barna á vorönn og þar munar mikið um nýjan leikskóla, Urriðaból við Holtsveg í Urriðaholti, sem var opnaður á morgun, 1. mars.

Stærsta innritun ársins í byrjun apríl

Í byrjun apríl er svo komið að stærstu innritun ársins. Þar mun þeim börnum, sem fædd eru á fyrri hluta árs 2023 og verða ekki þegar komin með pláss, fá úthlutað leikskólaplássi fyrir næsta skólaár. Garðapósturinn fékk þó heyrnir af því að það væru ekki öll börn komin með leikskólapláss sem væru fædd árið 2022.

Leitt að það hafi orðið misskilningur

Garðapósturinn heyrði í Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur, samskiptastjóra Garðabæjar og spurði hvort það væri rétt og hvernig stæði á því, nú þegar á að úthluta öllum börnum sem eru fædd á fyrri hluta árs 2023 og eru ekki nú þegar komin með leikskólapláss, leikskólaplássi í byrjun apríl? ,,Mönnun leikskóla hefur reynst okkur, líkt og öðrum sveitarfélögum, krefjandi verkefni. Í vetur hefur af þessum ástæðum gengið verr að innrita börn en vonir stóðu til í haust. Staðan í dag er sú að við eigum ríflega 80 leikskólapláss sem ekki eru nýtt vegna manneklu en það horfir til betri vegar. Börn fá boð um leik-skólavist eftir aldri og því miður vorum við ekki nægilega skýr með það í síðustu viku á þessum vettvangi. Það þýðir að þau börn sem fædd eru 2022 og hafa ekki fengið leikskólapláss fá að sjálfsögðu innritun á undan þeim sem yngri eru – þau ganga fyrir og það er leitt að um það hafi orðið misskilningur,” segir Ásta Sigrún og heldur áfram: ,,Svo munum við koma að börnum fæddum 2023 og er gert ráð fyrir að sú úthlutun fari fram í apríl og börnin hefji dvöl í haust eða fyrr.”

Skrá lögheimili barna sinna hjá ömmu og afa eða ættingjum í Garðabæ til að fá inn á leikskóla í Garðabæ?

Nú hafa einnig nokkrir foreldrar leikskólabarna í Garðabæ vakið athygli á því á síðustu vikum og mánuðum að svo virðist sem foreldrar barna í nágrannasveitarfélögum séu að færa lögheimili barna sinni til ömmu og afa sem búa í Garðabæ eða jafnvel að annað foreldrið skrái lögheimilið sitt hjá ættingjum og vinum í Garðabæ ásamt barni, til að komast með það fyrr inn á leikskóla, því Garðabær virðist vera standa sig betur í þessum málum en nágrannasveitarfélögin, en þetta er náttúrulega á kostnað barna sem eru uppalin og búsett í Garðabæ.

Hefur Garðabær fengið þessar ábendingar til sín og er hægt að bregðast við þeim með einhverjum hætti? Þetta hlýtur að vera ólíðandi fyrir bæjaryfirvöld í Garðabæ og foreldra barna sem komast þá seinna með börnin sín inn á leikskóla með tilheyrandi vandræðum? ,,Við höfum orðið vör við þessa umræðu en höfum ekki staðfest dæmi um það. Leikskólanefnd er að vinna að breytingum á innritunarreglum um leikskóla og þar er tekið fram að bæði lögheimili og búseta verði að vera í Garðabæ til að fá leikskólapláss. Þessari breytingu er ætlað að skýra línurnar hvað þetta varðar. Það er rétt að fram komi að fólk greiðir útsvar til sveitarfélaga þar sem það á lögheimili.”

,,Leikskólanefnd er að vinna að breytingum á innritunarreglum um leikskóla og þar er tekið fram að bæði lögheimili og búseta verði að vera í Garðabæ til að fá leikskólapláss,“ segir Ásta Sigrún.

80 pláss laus á leikskólum Garðabæjar

Það hefur líka verið rætt um mönnunarvanda í leikskólum almennt um allt land. Hvernig er staðan í Garðabæ, nú er að opna nýr og glæsilegur sex deilda leikskóli við Holtsveg í Urriðaholti þar sem hægt er að taka á móti 120 börnum. Er búið að fullmanna leikskólann og hvað eru í raun mörg laus leikskólapláss í Garðabæ sem ekki er hægt að manna vegna vöntunar á starfsfólki? ,,Á föstudag opnar Urriðaból við Holtsveg dyr sínar fyrir leikskólabörnum, en fyrstu tvær deildirnar hefja þá störf. Skólar ehf reka leikskólann og verður Urriðaból við Kauptún systurleikskóli hans. Ráðningar hafa gengið vel og mun þriðja deildin taka til starfa fljótlega,” segir Ásta Sigrún og heldur áfram: ,,Í Garðabæ eru um 80 pláss á leikskólum laus. Börnin eru á öllum leikskólaaldri, en tekið er inn eftir kennitölum og samkvæmt lausum plássum á deildum sem eru aldurstengdar. Hingað flytja börn vikulega og önnur flytja í burtu og því er listinn síkvikur og staðan breytist hratt.”

Viðbótarátak hefst í dag til að ráða í lausar stöður

,,Við auglýsum allar stöður sem eru lausar við leikskólana, en í dag hefjum við að auki sérstakt viðbótarátak og hvetjum fólk til að kynna sér störf í leikskólum Garðabæjar, sem eru fjölbreytt og vinnuumhverfið fag-legt og gott. Þetta eru mikilvæg störf, enda erum við að leita að fagfólki til að byggja upp næstu kynslóð.
Við erum meðal annars að bjóða upp á forgang á leikskólapláss fyrir starfsfólk leikskóla, afslátt af leikskólagjöldum, styrki til að mennta sig í leikskólafræðum og ýmislegt fleira. Við kappkostum að skapa vinnustaði þar sem einstaklingshugmyndir fá að njóta sín og allir starfsmenn hafa raunveruleg áhrif. Við viljum gera fólki kleift að nýta krafta sína til að vaxa í starfi, hvar sem styrkleikarnir liggja.”

Breytingar sem eiga að auka stöðugleika í leikskólastarfinu

Getur Garðabær brugðist við þessu með einhverjum öðrum hætti? ,,Í haust var ákveðið að gera talsverðar breytingar á starfsumhverfi leikskóla sem felst meðal annars í því að stytta opnunartíma, bæta sveigjanleika á vistunartíma og koma til móts við starfsfólk með bættum vinnutíma, aðstæðum og ákveðnum fríðindum. Þessar breytingar eiga að auka stöðugleika í leikskólastarfinu og því stefnum við á að bjóða börnum sem eru fædd á fyrri hluta árs 2023 leikskólapláss frá hausti eins og venjan er. Sú úthlutun fer fram nú í apríl.”

Gera leikskóla að enn meira aðlaðandi vinnustöðum og bæta umhverfi barnanna sem þar dvelja

En að flestu leiti er bjart yfir þegar kemur að leikskólamálum í Garðabæ og með opnun Urriðabóls við Holtsveg? ,,Við, og samfélagið allt, erum að ganga í gegnum tímabil breytinga þar sem reynir mjög á leikskólakerfið, en við erum að bregðast við því með því að styrkja fagfólkið okkar, gera leikskóla að enn meira aðlaðandi vinnustöðum og bæta umhverfi barnanna sem þar dvelja,” segir Ásta Sigrún og bætir við að lokum: ,,Við erum og höfum verið svo gæfusöm að reka öfluga leikskóla með fagfólki og geta veitt barnafjölskyldum mikla og góða þjónustu. Við stefnum alltaf að því að veita leikskólapláss snemma og viljum að íbúar Garðabæjar geti gengið að þeim með öruggum hætti.”

Forsíðumynd: Í gær var formleg opnun leikskólans við Urriðaból og leikskólabörn á Urriðabóli 2 tóku lagið fyrir viðstanda, en í morgun, föstudag, opnaði leikskólinn Urriðaból við Holtsveg í Urriðaholti dyr sínar fyrir leikskólabörnum, en fyrstu tvær deildirnar hefja þá störf.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar