Til hamingju með þjóðhátíðardaginn Garðbæingar

Kæru vinir, til hamingju með þjóðhátíðardaginn. Vonandi tekur hann á móti okkur bjartur og fallegur. Dagskráin í Garðabæ er spennandi eins og alltaf. Ég er sannfærður um að það er eitthvað fyrir okkur öll á boðstólunum, enda höfum við átt svo frábærar stundir saman undanfarið, meðal annars á barnamenningarhátíð og í Jazzþorpinu. 

Ég hef undanfarna daga og mánuði velt mikið fyrir mér þjónustu bæjarins og hvernig hún snýr að íbúum á mismunandi ævistigum. Ég er auðvitað enn afar kátur með mjög mikla ánægju íbúa samkvæmt nýlegri þjónustukönnun. En á sama tíma hef ég einnig verið að velta því fyrir mér hvernig við getum gert enn betur fyrir íbúa.  

Mér finnst Garðabær vera afskaplega gott og fjölbreytt samfélag. Þó að krefjandi verkefni hafi verið mörg upp á síðkastið, eins og fylgir í vaxandi og lifandi samfélagi, ætla ég ekki að staldra of lengi við það heldur langar mig að veita ykkur innsýn í uppbyggingarstarfið okkar. Dagbók bæjarstjóra getur nefnilega verið ansi fjölbreytt. Síðustu daga hef ég meðal annars heimsótt grunnskólana okkar, rætt uppbyggingu nýrra hverfa í bænum og hvernig íbúasamsetningin verður, hugað að því hversu hratt við komum okkar yngstu íbúum í leikskóla, staðfest stofnun á nýrri leikskóladeild fyrir fimm ára í Sjálandsskóla, ávarpað hlaupara og hlaupið í Stjörnuhlaupi, útnefnt bæjarlistamann og svo auðvitað: hugað að þjónustu við fólk á besta aldri.

Undanfarnar vikur hafa verið miklar framkvæmdir í Jónshúsi. Þær hófust fyrr en áætlað var vegna leka, en ljóst er að þær munu geta gjörbreytt starfinu og lyft andanum í húsinu enn hærra. Þetta mun skipta miklu fyrir félagsstarf eldri borgara hér í bænum og við höfum þegar gert ráð fyrir auknu rými fyrir félagsstarf eldri borgara í þeirri miklu uppbyggingu sem er í gangi á Álftanesi. Þar er mikil uppbygging í gangi og við gerum ráð fyrir fjölbreyttum hópi íbúa sem vill búa við þau lífsgæði að upplifa „sveit í borg.“ Meira um það á samráðsfundum með íbúum síðar á árinu. Við funduðum með heilbrigðisráðherra sem tók vel í hugmyndir okkar og Hrafnistu um að fjölga dagdvalarrýmum á Ísafold úr 20 í 30. Mér finnst við þurfa að stíga þessu mikilvægu skref hratt og vel og vona að við getum brátt upplýst um frekari framvindu. 

Undanfarið höfum við einnig hugað að Garðatorgi og lagt mikið í að gera miðbæinn okkar aðgengilegan með fjölbreyttri þjónustu. Mig langar að þakka verslunareigendum og íbúum á svæðinu fyrir frábær samskipti og samstarf. Við skulum líka þakka Römpum upp Ísland fyrir vinnu þeirra hér á torginu og annars staðar í bænum. Garðabær á að vera aðgengilegur og í því skyni minni ég á fallegar gönguleiðir um bæinn og í náttúrunni. Svo þreytist ég ekki á að minna barnafólk á okkar frábæru leikvelli sem við erum alltaf að endurgera og lagfæra- þeir eru auðvitað tilvalin dægradvöl í sumarfríinu.

Þjónustumiðstöðin leggur sitt af mörkum við að færa bæinn í þjóðhátíðarbúning, en það hefur líka mætt mikið á henni við að færa okkur nýtt flokkunarkerfi. Nýja tunnan mætti heim til mín í þessari viku og við fjölskyldan látum ekki okkar eftir liggja! 

Já, og vel á minnst! Nú hlýtur sumarið að fara að láta sjá sig.

Kæru vinir, gleðilega þjóðhátíð. 
Almar bæjarstjóri

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar