Fulltrúar Viðreisnar í Garðabæ tilkynntu á aðalfundi Garðabæjarlistans 13. desember sl. að flokkurinn ætlaði að kljúfa sig frá Garðabæjarlistanum og fara fram með eigin lista í sveitarstjórnarkosningunum í maí 2022, en Garðabæjarlistinn var stofnaður í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2018 með aðkomu félagsmanna úr Bjartri framtíð, Pírötum, Samfylkingunni, Viðreisn, Vinstri grænum og óháðum.
Vill ekki segja að þetta séu vonbrigði
Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi skipar annað sæti á lista Garðabæjarlistans og Garðapósturinn spurði hann hvort það séu vonbrigði að Viðreisn hafi sagt skilið við Garðabæjarlistann? ,,Vil ekki segja að þetta séu vonbrigði, ég tel að þessi breyting opni á ný tækifæri fyrir okkur í Garðabæjarlistanum. Við erum með öflugt bakland af fólki sem ætlar sér að bjóða fram flottan, jákvæðan og fjölbreyttan lista í vor. Það er vissulega leiðinlegt að sjá á eftir góðu og duglegu fólki og óska ég þeim alls hins besta,” segir Ingvar.
Þetta var alfarið ákvörðun þeirra
Var eitthvað ósætti í samstarfinu innan Garðabæjarlistans sem varð til þess að Viðreisn ákvað að segja skilið við Garðabæjarlistann? ,,Nei samstarfið hefur gengið ótrúlega vel og í raun framar vonum að mínu mati. Í Garðabæjarlistanum er fjölbreyttur hópur af fólki sem hefur náð mjög vel saman um misjöfn málefni. Þetta var alfarið ákvörðun þeirra og vona ég að það skili þeim áfram þangað sem þau ætla sér.”
Veikir þetta ekki Garðabæjarlistann að missa oddvita flokksins auk þess sem rætt er um að Harpa Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi, sem skipaði þriðja sæti á lista flokksins í kosningunum 2018 ætli að fylgja Söru Dögg eftir og yfirgefa Garðabæjarlistann? ,,Það heggur vissulega skarð í okkar raðir en við erum með fullt af mjög hæfu fólki innan okkar vébanda sem mun stíga upp og taka við. Eins og kom fram áður að þá opnar þetta ný tækifæri fyrir Garða-bæjarlistann og veit ég að okkar fólk er mjög spennt fyrir framhaldinu.”
Stefnir á að leiða Garðabæjarlistanna
Hvað með þig sjálfan. Þú skipaðir 2. sæti á lista flokksins í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Ertu til-búinn að taka við keflinu og leiða lista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022? ,,Ég stefni á að leiða Garðabæjarlistann í kosningum í maí og vona að ég fái stuðning til þess. Við höfum sýnt að við getum haft góð áhrif í bæjarstjórn. Höfum barist fyrir mörgum málum og haft aðhald með meirihlutanum. Við viljum halda áfram að vinna að okkar málum á þeim nótum sem við höfum verið þ.e.a.s. jákvæð en ákveðin þegar þess þarf.”
Nú var mikið af óháðum með ykkur, hvernig er með framhaldið hjá þeim? ,,Já, starfið hjá okkur er opið öllum og allir sem eru óháðir á lista hjá okkur ætla að halda áfram að starfa innan Garðabæjarlistans. Við erum að sjálfsögðu mjög sterkt afl þegar að kemur að fólkinu sem er innan okkar vébanda.”
Og Garðabæjarlistinn ætlar að halda ótrauður áfram og bjóða fram öflugan lista í kosningunum í maí? ,,Garðabæjarlistinn mun bjóða fram öflugan lista í vor. Ætlum okkur að hafa þetta skemmtilega og jákvæða kosningarbaráttu og hlökkum til að takast á við verkefnið.”
Það er margt sem brennur á okkur
Og hvaða málefni verða helst á döfinni fyrir kosningarnar í maí? ,,Við eigum eftir að klára að móta okkar helstu áherslur fyrir kosningarnar í vor en það er margt sem brennur á okkur. Sem dæmi má nefna að við viljum lækka gjöld og álögur á barnafjölskyldur, í dag eru þau með því hæsta sem gerist á byggðu bóli.
Koma á systkina- og fjölgreinaafslátt sem við höfum barist fyrir undanfarin ár. Tryggja að uppbygging leikskóla sé í takt við íbúaþróun. Við viljum valdefla íbúa og auka gagnsæi, það hefur skort á að íbúar hafi upplýsingar um framkvæmdir og skipulag í sínu nærumhverfi. Málefni eldri borgara, hlúa að umhverfinu, tryggja að almenningssamgöngur séu valmöguleiki fyrir alla og margt fleira. Umfram allt viljum við vinna að góðum málum sem bæta hag allra bæjarbúa. Ég hvet alla sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu með okkur að vera í sambandi,” segir Ingvar.