Þessi leikskóli er mjög nálægt hjartanu segir Hulda Jónsdóttir arkitekt sem hannaði og teiknaði leikskólann Urriðaból í Urriðaholti

Urriðaból, nýr, hlýr og einstaklega fallegur leikskóli við Holtsveg í Urriðaholti, var formlega vígður fimmtudag-inn 28. febrúar sl., en starfsemi hófst í skólanum í morgun, er tvær deildir af sex voru opnaðar og reiknað er með að þriðja deildin verði opnuð núna með vorinu. Heildarstærð skólans er um 1.400 femetrar og tekur hann 120 börn frá 1 árs aldri.

Árið 2021 var haldin hönnunarsamkeppni um byggingu leikskólans og vinningstillöguna áttu Hulda Jónsdóttir arkitekt á HJARK, sastudio og exa nordic verkfræðistofa. Það voru síðan þau Almar Guðmundsson bæjarstjóri í Garðabæ, Hulda og Sólveig Sigurþórsdóttir fjármálastjóri Þarfaþings ehf, sem tóku fyrstu skóflustunguna 8. september 2022, en Þarfaþing ehf var aðalverktaki og sá um uppbyggingu leikskólans.

Leikskólinn þykir afskaplega vel hannaður og það er sjaldan sem svona fallegur leikskóli er byggður enda metnaðurinn mikill hjá hönnuðum leikskólans. Þá er leikskólinn fyrsti Svansvottaði skóli landsins.

Heildstæður og heilbrigður leikskóli

Garðapósturinn heyrði hljóðið í Huldu Jónsdóttur arkitekt á HJARK og spurði hana m.a. hvort hún væri ekki ánægð og hreinlega stolt með hvernig til tókst? ,,Jú að sjálfsögðu er ég það, ekki annað hægt. Samstarfið með Garðabæ hefur verið frábært og við fundum fyrir miklu trausti frá bæjaryfirvöldum. Í hönn- unarferlinu fengum við að vinna tillöguna okkar áfram í samvinnu við notendur og börnin fengu að taka þátt og koma með hugmyndir sem var hlustað á eins og t.d. með indjánatjaldið á lóðinni og fleira. Haldið var í hönnunina og hugmyndafræðina sem lagt var upp með í hönnunarsamkeppninni, sem var að byggja heildstæðan og heilbrigðan leikskóla þar sem helsta áherslan var að hanna gott umhverfi fyrir börnin og búa til gott vinnuumhverfi fyrir starfsfólk skólans þar sem öllum líður vel. Þá gekk samstarfið við verktakann, Þarfaþing mjög vel svo úr varð gott verk,” segir hún.

Hulda ásamt sonum sínum Jóni Aroni 7 ára og Leó Kári 5 ára, en Hulda á þrjá syni. Á myndina vantar Markús Örn sem er 12 ára

Öll leikskólabörn hafa sama aðgengi út á lóð óháð hreyfigetu

Þið á Hjark, sastudio og exa nordic unnuð hönnunarsamkeppnina sem var haldin, en á hvaða hugmyndum byggðist vinningstillagan, voruð þið með skýra sýn hvernig leikskóla þið vilduð sjá í Urriðaholti og eru einhverjar nýjungar? ,,Já, frá upphafi var áhersla á að vera með umhverfisvænan leikskóla fyrir börnin og það var mikilvægt fyrir okkur að skapa gott aðgengi fyrir alla. Leikskólinn er á brattri lóð og hugmyndin var að lækka aðkomuna svo hægt væri að ganga inn á neðri hæð skólans og hafa allar deildir leikskólans á einni hæð. Með því hafa öll leikskólabörnin sama aðgengi að skólanum með beint aðgengi út á lóð óháð hreyfigetu. Byggingin stallast upp til norðurs og fylgir það einnig aldri barnanna, s.s. yngstu börnin eru í lægsta hlutanum syðst á lóðinni og börnin flytjast svo með byggingunni í hærra og hærri einingu eftir því sem þau eldast,” segir hún og heldur áfram: ,,Önnur ástæða þess að lækka meginbyggingu skólanns var sú að leiksvæðið væri í sem minnstum halla, en það er alltaf erfitt að fá góða nýtingu á lóðin ef hún er í miklum halla. Svo aðkoma var lækkuð og lóð neðst var hækkuð. Úr varð stór og góð leikskólalóð sem nýtist vel í leik fyrir allan aldur.”

Fyrsti Svansvottaði leikskóli landsins

,,Þá var byggingin einnig lækkuð svo að sem fæstir íbúar misstu útsýnið sitt, en þetta er alltaf flókið í svona nýjum hverfum. Við settum því eins fáa fermetra og hægt var á efri hæð hússins, sem er í raun í línu við Holtsveg, en þar fær starfsfólkið að slíta sig frá amstri dagsins, njóta góðrar aðstöðu og stórra suður svala þegar tekin er pása eða verið að undirbúa næstu daga. Starfsfólkið er samt í beinni tengingu við starfsemina niðri. Þá er leikskólinn fyrsti Svansvottaði leikskólinn á Íslandi, sem var markmið Garðabæjar frá upphafi og hönnun okkar miðaði að því. Við erum því ákaflega stolt að geta boðið börnunum upp á heilbrigðan leikskóla.”

Fengu fullt traust frá Garðabæ

En þegar að framkvæmdum kom, fenguð þið þá nokkuð frjálsar hendur frá Garðabæ, gátuð haldið öllum þeim einkennum sem voru í vinningstillögunni eða jafnvel bætt við eftir þörfum, því hönnun leikskólans að innan sem utan er mjög falleg og sjálfsagt hefði verið hægt að fara ódýrari leiðir? ,,Já, við fengum traust frá Garðabæ og bættum ekki miklu við út frá vinningstillögunni, en við skárum svolítið niður eins og t.d. á leikskólalóðinni. Ég þurfti aðeins að berjast fyrir því að halda Urriðanum, en við fengum samt að halda í mjög flott leiksvæði enda er þetta ekki bara leikskólalóð fyrir Urriðaból heldur leiksvæði fyrir allt hverfið eftir skóla og um helgar,” segir hún, brosir og heldur áfram: ,,Annars er flest innandyra óbreytt samkvæmt tillögunni. Við vorum ekki mikið að skera niður, en heldur ekki að bæta við. Við héldum í vinningstillöguna og vorum skynsöm og praktísk í vali. Það er ekki skynsamlegt að spara ef gæðin verða mikið síðri, en oft er þetta ekki endilega dýrara þó þar sé t.d. fallegur litur. Þetta er meira spurning um rétt lita- og efnisval, viðhald og endingu.”

Lóðin var erfið en er vel nýtt

Og eins og við höfum komið inn á þá er ekki á hverjum degi sem lóð er úthlutað fyrir leikskóla á svona fallegum stað, með miklu útsýni og rými? ,,Nei það er rétt, við erum mjög heppin með lóðina og þess vegna ennþá meiri ástæða til að gera fallegan leikskóla. Lóðin var erfið en okkur tókst að nýta hana vel þar sem hallinn er minnkaður með því að lækka gólfkóða hússins eins og hægt var og hækka lóðina við endann. Þannig nýtist þessi fallega lóð eins vel og hægt er.”

Stór sérhannaður Urriði á leikskólalóðinni

Og leikskólalóðin er einstaklega skemmtilegt með fjölbreyttum leiktækjum og svæðum? ,,Já, við vorum með mikinn metnað varðandi lóðina, þurftum þó að skera niður eins og ég nefndi að áðan, en það tókst að halda í helstu atriðin sem gera lóðina að því sem hún er í dag. Til dæmis er lóðin öll þemaskipt og má sjá þemað aðallega í lit á gúmmíþökunum á jörðinni og einnig í vali á leiktækjum. Meðfram lóðinni er skógurinn, mikið um gróður og timburdrumba. Svæði yngstu barnanna er eldfjalla svæðið þar sem við mótuðum hóla og hæðir með appelsínugulu og rauðu. Þar við hliðina eru ísjakar í vatninu, en þar eru hvítir hólar sem eiga að mynda ísjaka. Svo er tunglið þar sem trampólínin eru í hring, það eru gígar á tunglinu og hólar á milli. Þá er himingeimurinn nyrst á lóðinni þar sem sólkerfið er í gúmmíkúlum sem hægt er að hoppa á milli og nota í kennslu og leik. Urriðinn á lóðinni kom upp sem hugmynd þar sem okkur langaði að tengja lóðina við hverfið. Ákveðið var að nota fyrirtæki sem sérsmíðar leiktæki, en þau hafa gert lax áður svo við höfðum samband við þau og hönnuðum saman Urriða, sem er á leikskólalóðinni.”

Allur gangurinn er ekki gangur í raun

En hvað mundir þú segja að væri svona helstu einkenni leikskólans? ,,Ég myndi segja að það væru fjölbreytt notkun rýma. Til dæmis er hægt að opna á milli deilda og þannig auðvelda sameiningu, einnig er gangurinn allur ekki gangur í raun þar sem mörg rými opnast út frá honum, bókasafnið, fjölnotasalurinn og svo lestrarvasar á gangi bjóða upp á nýtingu á þessum rýmum. Mikilvægt er að allir fermetrar skólans sé hægt að nýta vel í leik og starfi og við vildum minnka ganga að fremsta megni. Svo er flæði og sveigjanleiki milli rýma eitt af einkennum leikskólans,” segir hún og bætir við: ,,Þá er einnig frábær aðstaða fyrir starfsfólkið. Eins og ég kann- ast við í móðurhlutverkinu þá erum við alltaf besta útgáfan af sjálfum okkar þegar okkur líður vel. Það er því svo mikilvægt að starfsfólkinu líði vel í vinnunni. Einnig lögðum við mikla áherslu á hljóðvist, ein-mitt til að öllum líði vel í sínum rýmunum.”

Nýjung í götumyndina og fellur að litum náttúrunnar

En er eitthvað í þessum nýja leikskóla sem er í uppáhaldi hjá Huldu? ,,Já, klæðningin að utan kom mér skemmtilega á óvart. Þegar ég valdi litinn þá var hann ljósbrúnn í jarðtónum. Ég fór með prufuna í sólina og fannst hann glitra fallega. Þegar klæðningin kom á var ég mjög ánægð með litinn, hann er fallega brúnn í skugga en í dagsbirtu og sól glitrar byggingin og lýsir upp skammdegið. Þetta brýtur upp og kemur með nýjung í götumyndina, en fellur samt svo vel að litum náttúrunnar. Innanhúss er ég sérstaklega ánægð með bókasafnið og gróðurhúsið. Þetta eru nýjungar í leikskólum og ég vona að þetta komi til með að vera mikið notað. Það er mikilvægt fyrir börnin að hafa fjölbreytt rými innanhúss til að breyta um umhverfi á daginn. Börnin okkar eru jú í byggingunni allan daginn.”

Í heildina gekk verkið mjög vel

Eins og áður hefur komið fram er hönnun leikskólans og byggingin einstaklega falleg, en var hún flókin í framkvæmd, bæði fyrir arkitekta og verktaka sem komu að verkinu? ,,Ég held að hún hafi ekki verið neitt sérstaklega flókin í framkvæmd. Auðvitað koma alltaf upp flækjustig sem þarf að leysa eins og með allar byggingaframkvæmdir en í heildina gekk verkið mjög vel. Byggingin er gerð úr KLT (Krosslímdum timbureiningum) sem komu á verkstað sem púsluspil og sett saman á staðnum. Bogarnir voru verkefni sem framleiðendur eininganna tækluðu vel. Þetta var í fyrsta skipti sem þeir gera bogadregnar einingar, en það tókst mjög vel og við erum öll mjög stolt af afrakstrinum. Klæðningin og gluggar og hurðar, allt er þetta mjög hefðbundin efni og notkunin einföld. Það sem gerir þetta sérstakt er einna helst arkitektúrinn og litavalið frekar en mjög flóknar byggingaraðferðir. Gott samstarf hönnuða, Garðabæjar og verktakans gerði það að verkum að verkið tókst vel og á ótrúlega stuttum tíma miðað við mjög erfiðan vetur og tafir í upphafi verks.”

F.v. Baldur Sigurðsson, verkefnastjóri hjá JT verk, sem tók að sér verkefnastjórnunina fyrir hönd Þarfaþings, Sólveig Sigurþórsdóttir og Eggert Jónsson, eigendur Þarfaþings, Jónas Halldórsson, eigandi JT verks, Hulda Jónsdóttir, aðalhönnuður, hönnunarstjóri og eigandi HJARK, Guðbjörg Brá Gísladóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Garðabæjar, Almar Guðmundsson, bæjarstjóri, Egill Daði Gíslason, deildastjóri umhverfis og framkvæmda og Hjörtur Guðjónsson, hjá Strendingi verkfræðistofu og eftirlitsmaður fyrir hönd Garðabæjar þegar leikskólinn var formlega vígður 28. febrúar sl.

Þessi leikskóli er mjög nálægt hjartanu

Og þú lagðir mikinn metnað í þennan skóla, enda þarftu sem Garðbæingur og íbúi í Urriðaholti að keyra framhjá leikskólanum daglega auk þess sem þú ert með arikitektastofuna þína í Urriðaholti segir blaðamaður í léttum tóni og Hulda hlær? ,,Já, það er rétt, en það eru margir sem komu að þessu verki sem búa í Garðabæ og jafnvel í Urriðaholti, svo það voru allir með það markmið að klára þetta hratt og vel enda allir meðvitaðir um að það var vöntun leikskólaplássi í hverfinu. Á hönnunartímanum var ég mjög meðvituð um umhverfið og metnaðinn sem hefur verið lagður í hverfið enda keyri ég um hverfið á hverjum degi. Það hjálpaði því klárlega til í hönnun og framkvæmd að þekkja svæðið svona vel. Að sjálfsögðu legg ég og stofan mín mikinn metnað í öll okkar verkefni, en þessi leikskóli var og er mjög nálægt hjartanu.”

Og áttu kannski sjálf börn í leikskólanum? ,,Nei því miður. Ég á þrjá stráka. Sá yngsti er að klára leikskólann núna í vor, en hann er í Urriðaholtsleikskóla svo hann kemur ekki til með að prufa þennan leikskóla. Hefði verið gaman að hafa barn í skólanum, en ég stefni ekki á fleiri börn svo ég verð bara að fá að koma og skoða leikskólann þegar búið er að fylla hann af lífi,” segir hún brosandi.

Fjölskyldunni líður vel í Urriðaholti

Og hvernig líður svo Huldu í Urriðaholtinu, er þar gott að búa? ,,Já, við fluttum í hverfið 2019, þá vorum við fjölskyldan að flytja heim frá Kaupmannahöfn. Ég bjó úti í 12 ár og það var mjög gott að koma heim. Við féllum strax fyrir hverfinu. Skólinn tók vel á móti okkur fjölskyldunni og strákarnir mínir voru svo heppnir að eignast strax góða vini. Svo núna erum við föst hér og bara ánægð með það,” segi hún og brosir: ,,Þegar við höfum verið að stækka við okkur þá hefur radíusinn bara verið innan hverfisins. Svo ég get ekki sagt annað en að við séum ánægð, hlakka til að fá enn betri tengingu yfir í Ásgarð og Miðgarð svo börnin geti hjólað án þess að foreldrarnir séu með hjartað í buxunum yfir stórum gatnamótum. En annað er mjög gott.”

Er með stórt hótel á teikniborðinu

Hvað er svo framundan hjá Huldu, einhver spennandi verkefni? ,,Já, við erum búin að vera mjög heppin. Við erum með stór sem og minni verkefni í gangi svo allir dagar eru mismunandi hjá okkur. Við erum með verkefni úti á landi þar sem við erum að byggja stórt sumarhús fyrir einkaaðila, þetta verkefni hefur verið í gangi í um þrjú ár. Einnig erum við með á teikniborðinu stórt hótel sem er mjög spennandi, einbýlishús og eitt þeirra er í Urriðaholtinu sem fer vonandi í byggingu í vor. Þá erum við með gamalt einbýli í miðbæ Reykjavíkur sem og í Hafnarfirði, einnig erum við að vinna í raðhúsaverkefni og fleira. Við höfum einnig verið mjög dugleg að taka þátt í hönnunarsamkeppnum, en okkur finnst það einstaklega spennandi og góða leið til að vaxa sem stofa.”

Mikill heiður að komast í úrslit

Þú talar um hönnunarsamkeppni. Hafið þið unnið fleiri samkeppnir undanfarið og unnuð þið ekki einnig verðlaun erlendis í fyrra? ,,Jú mikið rétt, fyrir utan leikskólann Urriðaból þá unnum við, HJARK + sastudio stuttu seinna, í samstarfi við Landmótun, hönnunarsamkeppni á Höfn í Hornafirði. Það er menningarhús og útivistarsvæði á Leiðarhöfða, sem er komið af stað og vonandi fáum við að keyra bygginguna af stað fljótlega. Einnig var HJARK + sastudio í 4. sæti með hönnun á öðrum leikskóla og við vorum í 2. sæti með nýlega samkeppni um skólagarða á Akureyri svo eitthvað sé nefnt. Og já, við fórum með leikskólann Urriðaból og Leiðarhöfða í arkitektasamkeppnina, World Architecture Festival, sem var í Lissabon í desember 2022. Við komumst í úrslit með bæði verkefnin hvort í sínum flokki, en 5 verk komust í úrslit í hverjum flokk. Við kynntum verkin fyrir dómurum og unnum með Leiðarhöfðann. Það var mjög mikill heiður að komast í úrslit þar sem við erum að keppa á móti stærstu arkitektastofum í heimi og hvað þá að vinna okkar flokk. Þetta var ótrúlegur áfangi fyrir HJARK og við erum ákaflega stolt af honum.”

Höfum þróað sérstöðu í umhvefisvænu húsnæði

Hver eru svo framtíðarplön HJARK? ,,Við sem stofa stefnum á að halda áfram að vaxa og dafna. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og það er ekkert skemmtilegra en að takast á við ný verkefni. Stofan er frekar ung, en ég stofnaði hana ein við tölvuna 2019 þegar ég var nýflutt heim frá Danmörku. Í masternámi mínu í Strasbourg, Barcelona og í Kaupmannahöfn lagði ég áherslu á nýsköpun í arkitektúr og ég á ennþá fullt inni sem mig langar að nýta enn betur í verki. Eftir leikskólaverkefnið í Urriðaholti höfum við þróað sérstöðu í umhverfisvænu húsnæði. Svo við eigum því líka mikið inni þar og hlökkum til framtíðarinnar,” segir Garðbæingurinn og arkitektinn, Hulda brosandi að lokum.

Eftirtaldir aðilar komu að hönnun og uppbyggingu leikskólans Urriðabóls:

Hönnunarteymi og fagstjórnun
Arkitektar og hönnunarstjórnun, Hulda Jónsdóttir hjá HJARK. Burðarþol og verkfræðiráðgjöf, Arnar Björn Björnsson hjá exa nordic.
Lagnir og loftræstingar verkfræðiráðgjöf, Brynjar Örn Árnason og Almar Gunnarsson hjá Teknik. Raflagnir verkfræðiráðgjöf, Kristín Ósk Þórðardóttir og Kjartan Rúnarsson hjá Lotu. Landslagshönnun, Arnar Birgir Ólafsson og Anna Kristín Guðmundsdóttir hjá Teiknistofa Norðurlands. Brunahönnun, Sigurður Bjarni Gíslason hjá Lotu. Hljóðsvistarhönnun, Kristrún Gunnarsdóttir hjá Myrru. Svansvottun, Hulda Jónsdóttir hjá Hjark.

Aðalverktaki Þarfaþing
Framkvæmdastjóri Þarfaþings: Eggert Jónsson.
Verkstjóri: Birgir Haraldsson. Verkstjóri: Einar Hafsteinsson. Gæðastjóri: Ævar Sveinn Sveinsson. Yfirsmiður: Árni Kristján Gissurason.

Verkefnastjórn: Baldur Sigurðsson (JT Verk).

Verktakar
Jarðvinna: Loftorka.
Burðarvirki KLT: Woodcon. Pípulagnir: Kraftlagnir.
Loftræsting: Blikksmiðurinn. Raflagnir: Raflausnir.
Smíðavinna: Þarfaþing, Al og Sér og M7 verktakar.
Gólf og loftadúkur: Pons.
Ísetning glugga og hurða: Auro verktakar.
Innréttingar: Pro Export.
Málun: OG Verk.
Múrari: Múrborg.
Klæðning: OSSN.
Þakfrágangur: Tambi.
Gróðurhús: Fagval.
Lóð: Garðyrkjuþjónustan. Svansvottunarfulltrúi: COWI

Birgjar
Ál/tré gluggar: Idealcombi.
Ál hurðar og gluggar: Gluggatækni. Innihurðar og gluggar: Axis.
Lyfta: Kone.
Blöndunartæki,vaskar og klósett: Byko.
Búnaður á salerni: Vélar og verkfæri. Speglar: Íspan.
Felliveggir og kerfisloft: Áltak. Lýsing: Rafkaup, Reykjafell og S.Guðjónsson.
Gólfdúkur: Marmoleum decibil. Loftadúkur: Clipso.
Hljóðplötur: Ebson og Áltak. Klæðning: Málmtækni.
Handrið: Stál og suða.
Flísar: Álfaborg.
Mottur í anddyrum: Kjaran. Leiktæki: KRUMMA.
Urriði á lóð: Monstrum.
Frystir og kælir: Fastus.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar