Leikskólinn Urriðaból var formlega vígður sl. mánaðarmót og við það tækifæri lýsti Margrét Bjarnadóttir, formaður leikskólanefndar Garðabæjar mikilli ánægju með leikskólann í stuttu ávarpi.
Það hefur tekist ótrúlega vel
Þú ert væntanlega ánægð með þessu nýju leikskólaviðbót í Garðabæ? ,,Já, heldur betur. Urriðaból er frábær viðbót í leikskólastarfið okkar í Garðabæ. Það hefur tekist ótrúlega vel til enda ber hönnunin þess merki að hugað var að þörfum barna og starfsfólks í öllu ferlinu. Húsnæði og leiksvæði barna eiga að vera örugg og skapandi um leið og þau eru skemmtileg. Síðan er ekki síður mikilvægt að leikskólinn taki vel utan um starfsfólk. Starfsumhverfi fyrir börn og fullorðna er því eins og best verður á kosið og ég hlakka til að fylgjast með starfinu sem þar byggist upp,“ segir hún og bætið við: ,,Leiksvæði skólans er líka kærkomin viðbót sem nýtist fjölskyldunum í hverfinu vel utan opnunartímans.“
Margrét og Almar Guðmundsson, bæjarstjóri klipptu á borðann ásamt leikskólabörnun þegar leikskólinn Urriðaból var formlega vígður.
Hafa bætt umgjörð leikskólastarfsins
Og það hefur margt verið að gerast í leikskólaumhverfinu í Garðabæ að undanförnu, nýr leikskóli svo ekki vantar aðstöðu fyrir börn á leikskólaaldri í Garðabæ, en það vantar starfsfólk og þið eruð nú í miðri auglýsingaherferð til að laða starfsfólk inn í leikskólana í Garðabæ þar sem boðið eru upp á ýmis hlunnindi? ,,Við erum að fást við sama mönnunarvanda í leikskólunum í Garðabæ og víða annars staðar – og það er snúin staða. Við höfum einmitt sett af stað herferð þar sem við bendum á fjölmarga kosti þess að starfa í leikskóla í Garðabæ,“ segir Margrét. ,,Við höfum unnið að því í vetur að bæta umgjörð leikskólastarfsins þannig að vinnustaðirnir verði ennþá meira aðlaðandi. Nýtt fyrirkomulag, sem felur í sér bætt starfsumhverfi leikskólana, tók gildi 1.mars Við finnum að breytingarnar munu hjálpa í að fullmanna skólana en eins gera þjónustuna öruggari. Hvað varðar hlunnindi þá eru þau heilsuræktarstyrkur fyrir starfsmenn, sundlaugarkort, bókasafnskort og menningarkort fyrir starfsfólk eftir ákveðinn tíma í starfi. Starfsmenn leikskóla sem búa í Garðabæ fá einnig forgang á leikskóla og afslátt af leikskólagjöldum,“ segi hún og bætir við að lokum: ,,Það er öflugur og góður hópur fólks sem starfar í leikskólum Garðabæjar, en hann þurfum við að stækka. Auglýsingaherferðin fer vel af stað og við finnum að það er að glæðast, fólk sýnir henni áhuga og hún fer víða. Enda eru þetta frábær störf og ein þau mikilvægustu. Það er því ástæða til hóflegrar bjartsýni.“
Forsíðumynd: Margrét flutti ávarp þegar leikskólinn var vígður