Á fundi bæjarráðs sl. þriðjudag var lögð fram eftirfarandi samþykkt bæjarstjórnar um útfærslu á fráviki á reglum um innritun í leikskóla.
„Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarráði að útfæra frávik frá reglum sem tryggir að börn sem hafa verið sex mánuði eða lengur á biðlista fari ekki aftur fyrir umsóknir eldri barna sem eru nýskráð með lögheimili í Garðabæ.“
Sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs kynnti og fór nánar yfir stöðu innritunar og biðlista hjá leikskólum Garðabæjar.
„Bæjarráð samþykkir að þau börn sem eru á biðlista og hafa verið lengur en 6 mánuði á listanum gangi tímabundið fyrir við úthlutun leikskólaplássa í mars. Miðað er við stöðuna á biðlista þann 8. mars 2024.“ (Um er að ræða 25 börn)
Bæjarráð samþykkti að frá og með 1. apríl verður ekki unnið úr nýjum umsóknum og flutningsumsóknum í allt að 30 daga. Þetta er gert til að þau börn sem komin eru á biðlista þann 1. apríl haldi sínum stað í listanum samkvæmt kennitölu. Vert er að taka fram að reglur um úthlutun gilda.“