Þessar hækkanir eru fordæmalausar og mikilvægt að við bregðumst við

Fasteignamat fyrir árið 2023 hefur ekki hækkað meira á milli ára frá því fyrir hrun í það minnsta og Garðbæingar hafa ekki farið varhluta af því frekar en aðrir landsmenn. Samkvæmt mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar sem gefin var út í júní hækkar fasteignamat sérbýla í Garðabæ að meðaltali um 29,5% og fjölbýla um 22,5%, sem er meiri hækkun en á sér stað að meðaltali á öllu höfuðborgarsvæðinu þar sem sérbýli hækkar um 26% og fjölbýli um 21,7%.

Þessar miklu hækkanir á fasteignamati fyrir árið 2023 munu að öllu óbreyttu kosta fasteignaeigendur í Garðabæ hundruð milljóna, en margir, og þar á meðal fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, segja að núver-andi fyrirkomulag á innheimtu fasteignagjalda vera meingallaða og ósanngjarna fyrir heimili og fyrirtæki.

Fordæmalausar hækkanir og brugðist verður við

Garðapósturinn spurði Almar Guðmundsson bæjarstjóra í Garðabæ hvort og hvernig bærinn ætli að bregðast við þessum miklum hækkunum á fasteignagjöldum í Garðabæ? ,,Þessar hækkanir eru fordæma-lausar og mikilvægt að við bregðumst við. Það er alveg skýrt í okkar stefnu að við viljum halda álögum lágum og þess vegna höfum við þegar lýst því yfir að við munum lækka álagningarprósentu til að vega á móti mikilli hækkun gjaldstofnsins,” segir Almar.

Ein álagningaprósenta sem gengur jafnt yfir bæinn

En hvernig verður útfærslan á lækkun fasteignagjaldanna í Garðabæ, munu gjöldin lækka í samræmi við meðaltals-hækkun í Garðabæ eða verður lækkunin í samræmi við hækkun hvers hverfis fyrir sig þar sem hækkunin er misjöfn á milli hverfa í Garðabæ og í raun fasteigna innan sama hverfis, en sem dæmi þá hækka fasteignagjöld sérbýla á Álftanesi að meðaltali um 20,5% á meðan þau hækka um 41,6% í Urriðaholti? ,,Nánari útfærsla á lækkuninni mun fara fram við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 núna í haust. Við erum þó því miður í þeirri stöðu að Garðabæ er skipt upp í nokkur matssvæði og breytingarnar eru mismiklar eftir svæðum. Við höfum hins vegar bara eina álagningarprósentu sem gengur jafnt yfir bæinn. Á undanförnum árum höfum við því horft til meðaltalsins, þannig að tekjur bæjarins af álagningu fasteignagjalda vaxi ekki nema þá í mesta lagi í takt við verðlag eða einhver slík viðmið. Það getur verið ósanngjarnt gagnvart einhverjum svæðum en slíkt er líklegt til að jafnast út yfir nokkur ár. Ég tel samt mjög mikilvægt að við skoðum sérstaklega hvernig þetta útfærist sem best í þágu allra bæjarbúa. Umræðan núna sýnir vel að það er þörf á breytingum á fyrirkomulagi álagningar fasteignagjalda. Gjöldin eru mikilvæg fyrir sveitarfélögin en það er mjög óheilbrigt að það þurfi sífellt að vera að breyta álagningarprósentu þegar gjaldstofninn er á fleygiferð. Ég er talsmaður þess að þessu verði breytt.”

Í töflunni má m.a. sjá hver hækkun fasteignamats eru fyrir árið 2023 og hvert meðalverð á fermetra er í þúsundum króna fyrir sérbýli og fjölbýli.

Gott fólk í bæjarstjórninni og öflugt starfsfólk

Og svona aðeina að öðru, það eru um tæpar fjórar vikur síðan þú hófst störf sem bæj-arstjóri í Garðabæ, ertu búin að koma þér vel fyrir og hvernig líst þér annars á? ,,Mér líst mjög vel á. Það er gott fólk í bæjarstjórninni og við erum lánsöm að eiga mjög öflugt starsfólk hjá bæjarfélaginu. Ég nýti tímann til að byrja til að koma mér inn í þau mál sem ég þekki minna og eins auðvitað að hitta og kynnast fólkinu sem starfar hjá bænum.”

Byrjum kjörtímabilið af krafti

Ásamt því að vinna að tillögu um lækkun fasteignagjalda í Garðabæ fyrir árið 2023 hvað brýnu málefni bíða þín svona á upphafsdögum í starfi bæjarsjóra? ,,Við erum þegar búin að afgreiða reglur um greiðslur til foreldra sem eru með börn 12 mánaða eða eldri á biðlista eftir leikskólaplássi. Staðan er reyndar góð hvað varðar biðlistana en við viljum tryggja að börn 12 mánaða og eldri hafi alltaf einhver úrræði og þá þessar greiðslur ef leikskólavist hefur ekki verið tryggð. Svo höfum við sett af stað undirbúningshóp um breytingar á Garðatorgi og miðbænum og eins verður farið í að fegra hringtorg og gefa þeim nafn. Þannig að við byrjum kjörtímabilið af krafti,” segir Almar.

Þjónusta, samtal og upplýsingagjöf til íbúa

Og þú er spenntur fyrir því að kynnast bæjarbúum enn betur og vinna að góðum málefnum fyrir bæjarfélagið á næstu mánuðum og árum? ,,Já ég er spenntur fyrir því að þjónusta íbúana eins vel og kostur er. Starfið felst fyrst og fremst í þjónustu, samtali og upplýsingagjöf til íbúa. Ég sé tækifæri í því að efla þessa þætti. Garðabær er mjög gott samfélag og við þurfum að sameinast um að efla það og styrkja,” segir Almar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar