Knattspyrnudeild Stjörnunnar og FC Midtjylland hafa komist að samkomulagi um sölu á Daníel Frey Kristjánssyni, en Daníel er ungur efnilegur leikmaður félagsins sem hefur staðið sig ákaflega vel bæði með Stjörnunni og yngri landsliðum Ísland. Daníel Freyr er sextán ára og spilar sem sóknarmaður. Hann hefur spilað með öðrum flokki Stjörnunnar í sumar og kom einnig við sögu í Mjólkurbikarnum með meistaraflokki.
„Danni er einn af þessum ungu leikmönnum sem fengu fyrst tækifæri í fyrra og voru partur af nýrri stefnu félagsins og þó svo að hann hafi ekki komið mikið við sögu í leikjum meistaraflokks hingað til þá hefur þróun hans sem leikmanns verið hröð og er afar ánægjulegur vitnisburður um það sem við erum að gera í Garðabænum varðandi vinnu með unga leikmenn. Ég vil nota tækifærið og óska Danna til hamingju með þetta skref á hans ferli og við hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni enda frábær drengur sem á sannarlega framtíðina fyrir sér,“ segir Helgi Hrannarr Jónsson formaður mfl ráðs Stjörnunnar á fésbókarsíðu Stjörnunnar
Á myndinni eru Flemming Broe hjá unglingaakademíu Midtjylland og Daníel Freyr þegar samningurinn var undirritaður. Mynd: Midtjylland