Það er orðið sérstaklega aðkallandi að bæta heilsugæsluþjónustu í bænum samhliða fjölgun íbúa

Málefni heilsugæslunnar í Garðabæ voru rædd á fundi bæjarráðs Garðabæjar á dögunum þar sem Almar Guðmundsson, bæjarstjóri, skýrði frá fundum og samtölum við ráðherra, ráðuneyti og forsvarsaðila Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu varðandi starfsemi heilsugæslustöðvarinnar á Garðatorgi.

Á fundinum skoraði bæjarráð á heilbrigðisráðherra að hefjast þegar handa við að leita tilboða í hentugt húsnæði fyrir heilsugæsluna í Garðabæ þannig að mæta megi uppsafnaðri þörf fyrir þjónustu hratt og örugglega.

Áform um að leita tilboða í nýtt og betra húsnæði til að geta stóreflt þjónustu við Garðbæinga

Garðapósturinn heyrði í Almari og spurði hann meðal annars nánar um samtalið við heilbriðgisráðherra? ,,Þetta samtal á sér langan aðdraganda og hefur í raun verið í gangi í langan tíma. Það er orðið sérstaklega aðkallandi að bæta heilsugæsluþjónustu í bænum samhliða fjölgun íbúa. Við vitum að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur áform um að leita tilboða í nýtt og betra húsnæði til að geta stóreflt þjónustu við Garðbæinga og við viljum styðja þau í því verkefni. Þarfagreining fyrir nýja stöð er í vinnslu og okkur er sagt að verkefninu verði hraðað eins og kostur er. Við höfum átt fundi með ráðherra og ráðuneyti og skynjum jákvæð viðbrögð. Nú þurfa verkin að tala og við höldum þeim við efnið,” segir hann.

Við höfum ekki eyrnamerkt þeim tiltekið svæði

Á hvaða er verið að horfa? Er Garðabær með annað húsnæði í huga fyrir heilsugæsluna í eða er verið að horfa til uppbyggingar í Vetrarmýri, að þar geti heilsugsælan verið til framtíðar? ,,Uppbyggingin í Garðabæ styður auðvitað við þetta verkefni heilsugæslunnar því það eru ýmis svæði sem gætu komið til greina. Við höf- um ekki eyrnamerkt þeim tiltekið svæði enda verða húsnæðismál heilsugæslu að vera boðin út með gagnsæum hætti. En við erum að sjálfsögðu tilbúin til að vinna þetta með þeim. Núverandi heilsugæsla annar eingöngu hluta bæjarins og bara helmingi bæjarbúa eða svo. Það er því tímabært og verður kærkomið þegar önnur stöð verður tekin í gagnið,” segir Almar

Það færi vel á því að ný heilsugæslustöð í Garðabæ verði einkarekin

Kæmi til greina að fá inn einkarekna heilsugæslu í Garðabæ eins og er t.d. í Urðarhvarfi og Salahverfi í Kópavogi – þar eru tvær einkareknar heilsugæslur ásamt Heilsugæslu Kópavogs? ,,Samanburðurinn við Kópavog er áhugaverður, þar sem eru bæði einka- og ríkisreknar stöðvar. Við höfum hvatt ráðherra til þess að skoða rekstrarformið því það færi vel á því að ný stöð í Garðabæ verði einkarekin. Ég vil samt taka fram að við eigum í mjög góðu samstarfi við forráðafólk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og finnum að þau vilja fyrir sitt leyti efla þjónustuna og húsakost fyrir Garðbæinga,” segir Almar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar