Það er ekki verið að fjölga flóttafólki í þjónustu hjá Garðabæ

Þann 24. apríl í fyrra undirrituðu Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra undir samning að Garðbær tæki á móti 180 flóttamönnum, en stór hluti hópsins sem féll undir samning Garðabæjar og ráðuneytisins var þá þegar búsettur í Garðabæ.

Á fundi bæjarráðs í síðustu viku gerði Svanhildur Þengilsdóttir, sviðstjóra velferðarsviðs Garðabæjar grein fyrir drögum að samningi um sæmræmda móttöku flóttafólks og lagði til að miða fjöldann við 140 og framlengingu til sex mánaða eða til loka júnímánaðar.

Verið að tryggja áframhaldandi þjónustu við hópinn sem nú þegar dvelur í Garðabæ

Garðapósturinn spurði Svanhildi hvort það væri verið að fjölga flóttafólki um 140 til viðbótar við samninginn sem var gerður í fyrra um móttöku á 180 flóttafólki og hvað þetta þýddi, að framlengja samninginn til sex mánaða? ,,Ekki er verið að fjölga flóttafólki í þjónustu hjá Garðabæ, heldur er verið að tryggja áframhaldandi þjónustu við hópinn sem nú dvelur í sveitarfélaginu ásamt því að vinna með þeim einstaklingum sem flytja til sveitarfélagsins. Þess má geta að samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að,” segir hún.

Fylltu ekki öll 180 plássin

,,Í apríl 2023 skrifaði Garðabær undir samning um samræmda móttöku flóttafólks og tók að sér að veita allt að 180 einstaklingum þjónustu á gildistímanum 1. október 2022 til 31. desember 2023. Á gildistíma samningsins fylltum við ekki öll 180 plássin,” segir hún. ,,Nú í mars 2024 hyggst Garðabær skrifa undir samning um móttöku 140 einstaklinga, sem er fækkun frá því síðast og er ekki hrein viðbót, heldur tekur til skjólstæðinga sem þegar eru í Garðabæ og framtíðaríbúa. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2024 til 30. júní 2024 með heimild til framlengingar um sex mánuði til viðbótar, þ.e. til 31. desember 2024. Garðabær og önnur sveitarfélög sem eru aðilar að samningnum hafa gert kröfu um að starfræktur verði starfshópur um endurskoðun samnings um samræmda móttöku flóttafólks, annars komi ekki til framlengingar samningsins.”

Svanhildur Þengilsdóttir

Mikið álag á starfsfólki Garðabæjar

Á fundinum var einnig farið yfir reynslu af framkvæmd núverandi samnings. Hvernig hefur þetta gengið, bæði fyrir flóttafólkið að aðlagast samfélaginu í Garðabæ, hvað hefur Garðabær gert til að hjálpa því, hvernig hefur gengið að útvega því húsnæði í Garðabæ og er því útveguð vinna? ,,Verkefnið hefur gengið vonum framar, en því fylgir mikið álag á starfsmenn innan velferðarsviðs, þjónustuvers, skóla, leikskóla og heilsugæslu þar sem móttöku hinna nýju íbúa er oft á tíðum flókin og umfangsmikil. Á heildina litið hefur einstaklingunum gengið nokkuð vel að aðlagast samfélaginu í Garðabæ. Þó nokkuð margir vinna í stofn- unum Garðabæjar og er það sérlega ánægjulegt,” segir hún.

Gengið erfiðlega að útvega húsnæði

,,Erfiðlega hefur gengið að útvega einstaklingunum húsnæði í Garðabæ, en það er einnig vandasamt verkefni í öðrum sveitarfélögum,” segir Svanhildur og heldur áfram: ,,Starfsmenn á velferðarsviði Garðabæjar starfa náið með Vinnumálastofnun, sem einnig er aðili að samningnum um samræmda móttöku. Vinnumálastofnun sér einstaklingunum fyrir íslenskukennslu og samfélagsfræðslu. Einstaklingunum stendur jafnframt til boða náms- og starfsráðgjöf, aðstoð við atvinnuleit og aðra virkni tengda atvinnuþátttöku.”

Um 60 börn í þjónustu hjá Garðabæ

Eru mörg börn á meðal flóttafólksins sem Garðabær hefur tekið á móti og eru þau komin inn á leik-, grunnskóla í Garðabæ og eru þau í íslensku kennslu? ,,Í lok febrúar voru um 60 börn í þjónustu samkvæmt samningnum um samræmda móttöku í Garðabæ. Nokkur börn eru á bið eftir leikskólaplássi vegna aldurs en önnur eru komin inn í grunnskóla og leikskóla. Þar læra þau íslensku sem og önnur fög.”

Þjónustan í boði svo lengi sem hennar er þörf

Hvernig virkar þjónustan sem Garðabær veitir flóttafólkinu og til hve langs tíma er hún fyrir hvern einstakling? ,,Starfsmenn á velferðarsviði Garðabæjar veita einstaklingunum félagslega ráðgjöf og umfangsmikinn stuðning sem felur m.a. í sér reglubundin viðtöl, aðstoð við húsnæðisleit, aðstoða við skráningu inn í þjónustukerfi ríkis og sveitarfélaga, aðstoð við að sækja um þjónustu, fræða einstaklingana um réttindi og skyldur, tengja einstaklingana við Vinnumálastofnun o.s.frv. Stuðningurinn felst einnig í því að greiða götu þeirra innan heilbrigðiskerfis og annarra þjónustuaðila. Þjónustan er í boði svo lengi sem hennar er þörf, en samningurinn gerir ráð fyrir að þjónustan sé veitt í allt að 3 ár. Vitað er að sumir þurfa þjónustuna mun lengur en aðrir skemur,” segir Svanhildur.

Er allt flóttafólkið sem Garðabær hefur tekið á móti enn búsett í Garðabæ eða hafa einhverjir flutt annað? ,,Það hafa nokkuð margir flutt sig um set vegna erfiðrar stöðu á leigumarkaði.”

Garðabær áfram þátttakandi í samræmdri móttöku flóttafólks

Hyggst Garðabær taka á móti fleira flóttafólki á næstu misserum? ,,Ef sanngjarnir samningar nást á milli ríkis og sveitarfélaga er horft til þess að Garðabær verði áfram þátttakandi í samræmdri móttöku flóttafólks. Um er að ræða samfélagslega mikilvægt verkefni og það er allra hagur að vel takist til við að samræma móttöku og þjónustu til flóttafólks og þar með stuðla að sterkri og stöðugri inngildingu flóttafólks hér á landi,” segir hún að lokum.

Forsíðumynd: Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar þegar samningur var undirritaður um móttöku Garðabæjar á 180 flóttafólki í lok apríl í fyrra

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar