Taktu þátt

14.maí næstkomandi verða sveitarstjórnarkosningar og framundan eru skemmtilegir mánuðir þar sem flokkar í framboði munu vekja athygli á sinni stefnu og á þeim málefnum sem hver stjórnmálaflokkur mun leggja höfuðáherslu á.

Garðabæjarlistinn varð til árið 2018 þegar Samfylkingin, Vinstri Græn, Björt Framtíð, Viðreisn og óháðir einstaklingar í Garðabæ ákváðu að bjóða fram undir nafni listans. Starfið hefur gengið vel og fólk samstíga í því að koma fram breytingum á ýmsum málaflokkum í bænum. Þó að breytingar urðu á baklandi Garðabæjarlistans á síðasta aðalfundi listans, þegar Viðreisn ákvað að bjóða fram undir eigin nafni, þá munu þau sem eftir standa að Garðabæjarlistanum, bjóða fram fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Auðvitað er leiðinlegt að missa gott fólk af listanum en breytingar geta líka verið jákvæðar og nú fer í hönd spennandi tímar í sögu Garðabæjarlistans.

Við sem stöndum að Garðabæjarlistanum komum úr ólíkum áttum, með ólíkar áherslur í stjórnmálum, i en eigum það þó sameiginlegt að vilja gera Garðabæ að enn betri bæ og aðlaðandi búsetukost fyrir alla, þá sérstaklega ungt fólk og barnafjölskyldur.

Garðabæjarlistinn heldur opna verkefnafundi annan hvern þriðjudag. Þar er farið yfir nefndarstörf, bæjarstjórnarfundi og almennt spjall um bæjarmálin. Fundir eru haldnir í Sveinatungu og einnig á Zoom svo að sem flestir geta mætt og tekið þátt. Verkefnafundir eru auglýstir á facebook síðu Garðabæjarlistans.

Á félagsfundi í byrjun febrúar var ákveðið að fara í uppstillingu á lista og var kjörin þriggja manna kjörnefnd sem fær það vandasama verkefni að raða í efstu sæti listans. Eitt af gildum listans er að stefnumótun og samtal við bæjarbúa sé opið og nú er einmitt tækifærið fyrir áhugasama að koma og taka þátt í samræðum og ákvörðunum fyrir kosningar í maí. Ef þú hefur áhuga eða langar að benda okkur á áhugasama einstaklinga sem hafa áhuga á að gera Garðabæ af betri bæ, þá hvet ég ykkur eindregið til þess að senda ábendingar á [email protected]

Valborg Ösp Á. Warén
Formaður Garðabæjarlistans og Varabæjarfulltrúi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar