Sýningin Aftur til Hofsstaða á Garðatorgi 7

Margmiðlunarfyrirtækið Gagarín hefur um nokkurt skeið unnið að sýningunni Aftur til Hofsstaða sem verður opnuð á Safnanótt, 3. febrúar klukkan 17. Sýningin spannar sögu Garðabæjar frá upphafi landnáms til okkar daga. Stór skjár, bekkir fyrir gesti að tilla sér á og millusteinn sem inniheldur stýripinna sem leiðir gesti í gegnum sýninguna, er staðsett í rýminu undir rampinum á Garðatorgi 7.

Að sögn Ólafar Breiðfjörð menningarfulltrúa var þetta rými nýtt undir ruslatunnur og drasl en nú verður þessi magnaða sýning staðsett í rýminu. Hugmyndin var að skólahópar, sem eru til dæmis að læra um landnámið, komi í skipulagðar heimsóknir og þess vegna var einnig ráðist í að uppfæra vefsíðu með ýmsum fróðleik og skemmtiefni sem áður var aðeins aðgengilegt í Minjagarðinum á Hofsstöðum. „Núna geta skólahópar jafnt sem almenningur nýtt sér þetta efni hvort sem er á sýningunni í gegnum snjalltæki eða bara heima í gegnum tölvu. Í vor opnum við svo næsta hluta sem er endurgerð sýning í Minjagarðinum en þar munu gestir geta skyggnst inn í fortíðina í gegnum kíkja og séð konu vefa, járnsmið að störfum, börn að leik og fleira sem átti sér stað í hversdagslífinu þegar landnámsskálinn stóð á Hofsstöðum“ segir Ólöf. Þá verður einnig ratleikur í formi upplýsingaskilta sem munu liggja á milli Garðatorgs og Minjagarðsins.

Það er Hringur Hafsteinsson hönnuður hjá Gagarín sem á veg og vanda að hönnun sýninganna en Hringur mun segja frá hönnuninni og virkni sýningarinnar Aftur til Hofsstaða á opnunardaginn 3. febrúar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar