Störf umhverfisnefndar, stiklað á stóru.

Það má segja að umhverfisnefnd hafi verið nokkuð samstíga s.l. fjögur ár. Ég hef þá pólitísku sýn að þegar kosningum er lokið og fólk fer að vinna saman í ráðum og nefndum eigi að leggja flokkapólitík til hliðar og ráðamenn eigi að vinna saman að velferð samfélagsins en ekki rakka allt niður sem andstæðingur í pólitík leggur til. Þannig hef ég reynt að vinna þau ár sem ég hef starfað í nefndum fyrir Garðabæ og hef átt ágætis samstarf við samstarfsfólk mitt. Að mörgum úrbótum hefur verið unnið á kjörtímabilinu. Hér er talið upp það helsta.

Loftslagsmálin og heimsmarkmiðin hafa vegið þungt á þessu kjörtímabili. Loftslagsstefna hefur litið dagsins ljós og verður hún rýnd á hverju ári og bætt inn í beinagrindina, ef svo má að orði komast. Garðabær mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs um samtals 33% fram til ársins 2030. Við í Garðabæjarlistanum hefðum kosið metnaðarfyllra markmið, eða um 50% eins og vísindin ráðleggja, en fáum þau svör að það sé ekki raunhæft.

Flokkun á sorpi skipar stóran sess í loftslagsmálum en þar eigum við verk að vinna, en t.d. hefur flokkun á lífrænum úrgangi ekki enn verið tekin upp í Garðabæ. Það horfir þó til betri vegar með samræmdri meðhöndlun úrgangs á suðvesturhorninu sem er löngu tímabær. Stefnt er að innleiðingu ekki síðar en um næstu áramót. Þessu ber að fagna og kemur vonandi til með að skila enn hærra hlutfalli af sorpi sem fer í endurnýtingu.

Garðabær gegn sóun, innkaupa- og úrgangsstefna Garðabæjar, var samþykkt í september 2019. Virkjuð voru græn teymi innan stofnana til að þróa og fylgja eftir markmiðum stefnunnar. Þetta ætti bæði að minnka sóun og kostnað stofnana. Miklar væntingar eru bundnar við þetta góða framtak. Smám saman erum við að fikra okkur inn í framtíðina hvað orkuskipti varðar. Nítján hleðslustöðvar fyrir rafbíla hafa verið settar upp á víð og dreif um bæinn og rafhlaupahjólaleiga tekin í notkun.

Fylgst er vel með mengun í vötnum, lækjum og við strandir Garðabæjar og mælingar teknar vor og haust. Í þessum mælingum eru nokkrir staðir sem koma alltaf fremur illa út og það þarf að ráðast í átak til að koma í veg fyrir að skólp komist í læki. Hér komum við almenningur sterkt inn, en borið hefur á að fólk hafi losað ýmsa mengandi vökva í niðurföll við hús sín. Við verðum öll að vera meðvituð um að það gengur ekki. Einnig er alltaf eitthvað um það að saurgerlar mælist í sjó við strandir. Rannsóknir á lífríki Vífilstaðavatns og Urriðavatns eru til skoðunar.

Garðabær hefur verið duglegur að friðlýsa mikilvæg verndarsvæði. Á þessu kjörtímabili hafa Hlið á Álftanesi og Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár bæst í þann flokk. Í undirbúningi hjá Umhverfisstofnun er Garðahraun efra, neðra Vífilstaðahraun og Maríuhellar ásamt Urriðakotshrauni.

Tillögur Garðabæjarlistans sem hlotið hafa brautargengi hjá meirihlutanum eru; að veita fyrirtækjum og einstaklingum viðurkenningu sem ná góðum árangri í að minnka plastsóun, að flokka, endurnýta og sporna við matarsóun og að flýta LED-væðingu lýsingar í Garðabæ um fjögur ár, en það sparar mikinn kostnað. Tekið var vel í tillögu okkar um upphækkun og lagningu göngustígs við Suðurstrandarveg en í dag er þar eingöngu reiðstígur. Málið virðist hafa dagað uppi hjá umhverfis- og tæknisviði. 

Fræðslu og sögugöngur hafa því miður lagst af í bili vegna aðstæðna í samfélaginu en vonandi verður þráðurinn tekinn upp að nýju þegar aðstæður leyfa. 

Umhverfismál hafa alltaf skipt miklu máli en líklega aldrei meira máli en í dag vegna þeirrar loftslagsvár sem steðjar að heiminum. Það þarf stöðugt að stoppa þá af sem engu eira þegar gróði er annars vegar. Landið okkar er dýrmætt og þarf sinn málsvara. Við í Garðabæjarlistanum höfum staðið vaktina í umhverfisnefnd og bæjarstjórn á kjörtímabilinu og munum svo sannarlega halda áfram að leggja okkar af mörkum í þágu náttúrunnar á því næsta.

Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir fulltrúi Garðabæjarlistans í umhverfisnefnd.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar