Stjarnan um áramót

UMF Stjarnan var stofnað árið 1960 og hefur í 63 ár þroskast, stækkað og þróast með samfélaginu í Garðabæ. Það er mikilvægt að Stjarnan þróist með samfélaginu og gangi í takt við þær samfélagsbreytingar sem verða í áranna rás. Það er því nauðsynlegt að stórt og fjölmennt félag eins og Stjarnan hafi sýn á þá framtíð sem æskilegt er að stefna að og útlisti þær áherslur sem félagið vill starfa eftir og tilgreini þau markmið sem á að ná. Þá er mikilvægt að allir sem starfa innan Stjörnunnar með einum eða öðrum hætti, þekki þá sýn og stefni í sömu átt.

Grunnurinn er það hlutverk sem félagið vill hafa í okkar góða samfélagi og á hvern hátt stefna og framtíðarsýn eiga að vera trú því hlutverki.

Fyrstu 63 árin hafa skilað félaginu afar góðum árangri
Fyrstu 63 árin í sögu Stjörnunnar hafa skilað félaginu afar góðum árangri ef litið er til ýmissa þátta, ekki síst árangurs á íþróttasviðinu. En á sama tíma er brýnt að skilgreina „hvað er árangur“ og hvað það þýðir fyrir framtíðarstefnu félagsins. Samfélagið tekur breytingum á hverjum tíma og má þar nefna aukna umræðu um samfélagsábyrgð, umhverfismál, hreyfingu, heilbrigðan lífsstíl, mataræði, sóun, jafnrétti og möguleika tækninnar. Allt þetta hefur áhrif á áherslur félags eins og Stjörnunnar sem hefur verið áberandi og að einhverju leyti í áhrifamikilli stöðu innan samfélagsins í Garðabæ enda snertir starfsemi Stjörnunnar flest heimili í Garðabæ með einum eða öðrum hætti.

Í október 2022 var ákveðið að fá ráðgjafafyrirtækið Stratagem með þau Þórð Sverrisson og Ásu Karen Hólm til liðs við félagið til að vinna með félaginu að mótun stefnu og framtíðarsýnar Stjörnunnar og skipaði aðalstjórn stýrihóp til að vinna að þessu verkefni. Tekin voru viðtöl við fjölda einstaklinga, hópfundir voru haldnir með aðilum frá öllum deildum félagsins, netkönnun og opin spurningakönnun á heimasíðu félagsins. Auk þess var farið yfir sögu félagsins, skoðuð gögn tengdu félaginu og íþróttasamfélaginu á Íslandi.

Í september 2023 var síðan stefna félagsins samþykkt og hana þarf að innleiða á komandi misserum með samstilltu átaki okkar allra sem störfum innan Stjörnunnar, ýmist sem starfsmenn, sjálfboðaliðar, þjálfarar eða stjórnarmenn.

Hlutverk Stjörnunnar
Hlutverk Stjörnunnar er að þjónusta Garðbæinga á öllum aldri í keppnis- og almenningsíþróttum og efla samkennd bæjarbúa með virkri þátttöku þeirra í íþrótta- og félagsstarfi.

Framtíðarsýn
Okkar framtíðarsýn er að Stjarnan sé leiðandi á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfa þar sem starf félagsins einkennist af fag-mennsku, samstöðu og gleði, sem snertir iðkendur, sjálfboðaliða, áhorfendur og aðra hópa samfélagsins.

Gildi Stjörnunnar eru:

Fagmennska. Við vöndum til allra verka og sýnum ætíð fagleg vinnubrögð á öllum sviðum hvort sem það snýr að starfsfólki félagsins, iðkendum, þjálfurum, sjálfboðaliðum eða áhorfendum. Við erum áreiðanleg og heiðarleg í samskiptum.

Samstaða. Við stöndum saman í blíðu og stríðu og erum eitt lið þó áherslur geti verið á einhvern hátt ólíkar á milli deilda félagsins. Við hjálpumst að í verkefnum og saman stöndum við undir því að Stjarnan sé það fyrirmyndarfélag sem horft er til og sé eftirsótt.

Gleði. Það er gaman að vinna innan félagsins og mikil áhersla er lögð á að nálgast verkefni og samvinnu með gleði að leiðarljósi. Gleðin endurspeglast ekki síður í viðmóti við hópa utan félagsins eins og foreldra og áhorfendur.

Árangur. Við erum íþróttafélag og keppumst við að ná árangri á því sviði. En við mælum ekki aðeins árangur í afrekum á íþróttasviðinu heldur einnig hversu vel félagið stendur sig í rekstri, skapar heilbrigða umgjörð um starfsemina, býr til skemmtilega upplifun á íþróttaviðburðum og hefur hæfa þjálfara.

Fjórar megináherslur Stjörnunnar til framtíðar eru:

Heyfing og heilbrigði. Við ætlum að styðja við þörf Garðbæinga fyrir hreyfingu og heilbrigði allra íbúa. Vð ætlum sérstaklega að huga að heildstæðri þjónustu við æskuna, vinna út frá þeirri áherslu að engir tveir eru eins og í starfi okkar leggjum við áherslu á að byggja upp og styðja við heilbrigða sál í hraustum líkama.

• Stjarnan er í forystu sem ungmennafélagfélag og starfar í takt við þarfir samfélagsins og sem sýnir árangur innan vallar sem utan.
Við viljum gæta eðlilegs jafnvægis á milli afreka og árangurs í keppni. Við sinnum þeim sem skara fram úr, tryggjum að fyrsta móttaka sé góð og gætum meðalhófs og sanngirni í hvívetna. Við ætlum að vinna að jafnrétti á öllum sviðum. Við kappkostum við að tryggja að að ætið séu hæfir þjálfarar til staðar og leggjum áherslu á jákvæða upplifun áhorfenda.

• Við ætlum að rækta garðinn okkar og hlúa að því sem er til staðar. Við leggjum áherslu samstöðu okkar allra og á nærumverfið og hlúum að þeim sem tengjast félaginu.
Það gerum við með því að hafa skýra sýn á okkar stefnu, leggja áherslu að ala upp félagsmenn og fagna nýjum. Við viljum sýna þakklæti í verki gagnvart okkar félagsmönnum og stuðningsaðilum. Við þurfum að huga að hlutverki sjálfboðaliðana sem eru hjartað í félaginu og við viljum að okkar stuðningsfólk sé til fyrirmyndar.

• Við erum traust stoð í samfélaginu og erum stolt af því að vera mikilvægur hluti af samfélaginu í Garðabæ og bera áherslur og starf félagsins því skýr merki.
Við viljum vera samfélagslega ábyrg í öllum okkar verkum, í góðu samstarfið við bæjaryfirvöld og skólana í sveitarfélaginu. Við ætlum að tryggja jafnrétti á öllum sviðum og efla auk þess enn frekar tengsl okkar við viðskiptatalífið.

Það er okkur öllum sem starfa með og fyrir Stjörnuna kappsmál að vinna vel með öllum hagaðilum, hafa skýra stefnu og markmið, sem allir sem vinna með okkur þekkja, þannig að sameiginlega stefnum við í sömu átt.
Frekari upplýsingar um starf félagsins og ítarlegri upplýsingar um stefnumótun félagsins má finna á heimasíðu okkar www.stjarnan.is

Gleðilegt nýtt ár. F.h. aðalstjórnar Stjörnunnar

Sigurður Guðmundsson formaður og Heiðrún Jónsdóttir varaformaður

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar