Stjarnan er sameiningartákn Garðabæjar

Sigurður Guðmundsson tók við sem formaður Stjörnunnar af Sigurgeiri Guðlaugssyni á aðalfundi Stjörnunnar 25. apríl sl.

Sigurður er flestum hnútum kunnugur hjá Stjörnunni, en hann byrjaði að æfa knattspyrnu með félaginu 1976 þá nýfluttur í Garðabæ. ,,Ég æfði síðan knattspyrnu, handbolta, blak og borðtennis á barna- og unglingsárunum,” segir hann en Sigurður spilaði knattspyrnu með meistaraflokki karla í 10 ár. Eftir það að þjálfaði hann yngri flokka Stjörnunnar í 10 ár og samhliða því hefur hann ávallt verið í bakvarðarsveit knattspyrnudeildarinnar, með mismikla ábyrgð þó. Sigurður hefur undanfarin átta ár verið bæjarfulltrúi í Garðabæ, en ákvað fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí sl. að segja skilið við bæjarpólitíkina.

Getur seint sagt nei við því að sinna félagsstörfum fyrir Stjörnuna

Nú eru liðið tæpt hálft ár síðan Sigurður tók við og Garðapósturinn spurði hann m.a. hvernig það hafi komið til að hann ákvað að gefa kosta á sér í formannkjör hjá Stjörnunni, stuttu eftir að hann ákvað að láta staðar numið sem bæjarfulltrúi? ,,Það er nú þannig að ákveðnir félagsmenn höfðu samband við mig þar á meðal gamlir formenn félagsins og ámálguðu þetta við mig og maður getur nú seint sagt nei við því að sinna félagsstöfum fyrir Stjörnuna. Eftir talsverða umhugsun þar sem ég heyrði í flestum formönnum deilda félagsins og síðan eftir hvatningu frá eiginkonunni að láta slag standa, ákvað ég að bjóða fram krafta mína. Ég er ákaflega stoltur af því trausti sem mér er sýnt til að sinna þessu viðamikla embætti og vonast til að láta gott af mér leiða og efla Stjörnuna enn frekar í öllum greinum til ánægju og hagsbóta fyrir bæjarbúa.”

Stjarnan er langstærsti einstaki þjónustuveitandi í Garðabæ

Þú þekkir vel til þegar kemur að málefnum Stjörnunnar, sérstaklega knattspyrnudeildar, en einnig annarra deilda vegna áhuga þíns á félaginu og setu þinnar í bæjarstjórn undanfarin átta ár og þar á undan sem formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar? Hvernig líst þér á þetta?
,,Já, ég hef tvisvar verið formaður íþrótta- og tómstundaráðs, fyrst þegar ég var 24 ára og síðan fyrir einhverjum 12 árum síðan. Ungmennafélagið Stjarnan er langstærsti einstaki þjónustuveitandi í sveitarfélaginu og snertir langflest heimili Garðbæinga með einum eða öðrum hætti. Það er því mikilvægt að þar fari fram faglegt starf sem almenn ánægja er með og að fólk vinni saman að því að tryggja afbragðsþjónustu þar sem að allir eru samtaka. Stjarnan er sameiningartákn Garðabæjar að mörgu leyti og mikilvægt að félagið hafi sterkan fjárhagsgrundvöll og félagið á að hafa það að markmiði að ná að sinna vonandi sem flestum bæjarbúum. Þar getur félagið bætt en betur í almenninsíþróttahlutanum og ekki síður í starfsemi fyrir eldri bæjarbúa. Garðabær hefur komið myndarlega að stuðningi við félagið til áratuga en bæjarbúar hafa í staðinn fengið vonandi fengið góða og ánægjulega þjónustu félagsins.”

Hver voru þín fyrstu verk hjá félaginu? ,,Mín fyrstu verk voru að funda með einstökum deildum og fá yfirlit yfir verkefni þeirra, fjárhagsstöðu, mönnun þjálfara fyrir komandi keppnistímabil, áskoranir sem deildirnar standa frammi fyrir og þá hef ég reynt að átta mig á framtíðarsýn einstaka greina á bæði barna- og unglingastarfið og ekki síður afreksstefnuna. Þá hef ég lagt áherslu á þessum fundum að félagið þurfi að horfa mjög til stækkandi sveitarfélags og hvernig við ætlum að tryggja áfram afbragðsþjónustu til Garðbæinga sem vilja stunda íþróttir hjá félaginu. Það er ljóst að framundan er krefjandi verkefni sem kalla á enn frekari fjárfestingu sveitarfélagsins í mannvirkjum þannig að einstakar deildir geti annað eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem íbúar eru að sækjast eftir.”

Það verða ekki allir afreksmenn í íþróttum

Þú ert vissulega nýtekinn við sem formaður félagsins en hvernig metur þú stöðuna á yngriflokka starfi félagsins og afreksstarfi – er alltaf hægt að gera betur? ,,Ég fullyrði það að stjórnir einstakra deilda eru vel mannaðar og með tilkomu fagmenntaðra rekstrarstjóra í einstaka deildum á skrifstofu félagsins, þá hefur orðið mikil framför í allri fagmennsku hvað varðar þjálfun barna- og unglinga í öllum deildum eins og tölur um iðkendafjölda bera líka með sér. Þarna skiptir gríðarlega miklu máli að ná inn góðum þjálfurum sem hafa áhuga og metnað fyrir hönd sinna iðkenda og tryggi að allir fái verkefni við hæfi. Þá þarf félagið alltaf að vera vakandi fyrir því að það verða ekki allir afreksmenn í íþróttum en að þjálfa þá iðkendur upp í að verða þjálfara, dómara, stuðningsmenn og stjórnarmenn, þessi mikilvægu hlutverk mega ekki gleymast. Þá þarf að tryggja að ástundun iðkenda innan félagsins sé ánægjulegt ferðalag,” segir hann og heldur áfram: ,,Hvað varðar afreksstarfið þá vitum við að einstök lið kunna að vera á mismunandi stað um stundarsakir t.d. vegna þess að verið er að yngja upp lið og endurbyggja, en markmið félagsins á að mínu mati að stefna ávallt á Íslands- og bikarmeistaratitla í meistaraflokkunum, helst með harðkjarna heimamanna og svo utanaðkomandi stuðningi, þarna er ekki sýst mikilvægt að kappið beri þó ekki fjár- haginn ofurliði.”

Aðstaða kraftlyfingadeildar er orðin glæsileg í Miðgarði, en aðrar deildir félagsins hafa einnig aðgang að líkamsræktarsalnum

Stjarnan hefur mikinn metnað að sinna iðkendum í Urriðaholti eins vel og kostur er

Nú er nýtt fjölmennt hverfi að rísa í Urriðaholti – hefur félagið gert einhverjar ráðstafanir hvað var íþróttaiðkun barna í hverfinu – með einhverja framtíðarsýn? ,,Já félagið mun hefja knattspyrnuæfingar fyrir yngstu iðkendurnar á gervigrasvelli við Urriðaholtsskóla og félagið hefur óskað eftir því að koma sínum ábendingum að við Garðabæ, nú þegar að hönnun íþrótta- hús- og sundlaugar er að rísa við skól- ann. Félagið hefur mikinn metnað til að sinna þeim mikla barnafjölda sem er í Urriðaholti eins vel og kostur er, bæði í þeirri íþróttaaðstöðu sem við höfum aðgang að í dag og ekki síður í Urriðaholtinu þegar aðstaðan byggist upp þar.”

Heldur að framtíðarkeppnissvæði afrekssíþróttahlutans muni færast upp í Vetrarmýri

En hver er annars framtíðarmúsík Stjörnunnar hvað varðar aðstöðu, umgjörð og staðsetningu sérstaklega þegar mið er tekið af glæsilegu fjölnota íþróttahúsi sem er risið í Vetrarmýri? ,,Stjarnan er að vinna að stefnumörkun félagsins og er stefnt að því að reyna að klára þá vinnu í vetur. Þeirri vinnu seinkaði hjá fyrri stjórn vegna Covid. Það er alveg ljóst í mínum huga að félagið mun sinna íþróttastarfsemi í öllum þeim íþróttamannvirkjum sem bjóðast í Garðabæ, hvort að meginstarfsemi félagsins verði áfram við Ásgarð eða í Vetrarmýri á eftir að koma í ljós og skiptir þar álit félagsmanna miklu. Persónulega held ég að framtíðarkeppnissvæði afrekssíþróttahlutans muni færast upp í Vetrarmýri þegar öll sú aðstaða sem þar er fyrirhuguð verður komin.”

Ótrúlega margir sjálfboðaliðar sem koma að starfi Stjörnunnar

En hvernig er annars að reka eitt af stærstu íþróttafélögum landsins, hvað varðar fjármagn og sjálfboðaliða og fleira. Orðið erfitt eða alltaf fólk tilbúið að koma og vinna fyrir félagið? ,,Það eru ótrúlega margir sjálfboðaliðar sem koma að starfi Stjörnunnar og án þeirra væri þetta starf ekki með þeim hætti sem það er í dag. Ef að sú þjónusta sem Stjarnan sinnir væri á vegum sveitarfélagsins væri kostnaðurinn fyrir Garðabæ ekki minni en af rekstri skólanna í sveitarfélaginu,” segir hann og bætir við: ,,Við þurfum að leggja mikla áherslu á það á næstu misserum að draga sjálfboðaliðana til okkar eftir covid og fjölga í þeim hópi til að létta á álagi sjálfboðaliðanna og ekki síður að draga áhorfendur aftur á leiki afreksliðanna okkar. En við finnum alltaf mikinn vilja meðal foreldra og Garðabæinga við að koma að sjálfsboðaliða starfinu og ekki síður þegar við leitum til þeirra með fjárhagslegan stuðning. Án þessa væri þessi starfsemi hvorki fugl né fiskur. Það er mikilvægt að bæjarfulltrúar átti sig á mikilvægi félagsins fyrir sveitarfélagið og að fjármagni sé ráðstafað líka úr þeirri átt í þann mikla fjölda sem æfir hjá félaginu.”

Ertu bjartsýnn á framtíða félagsins til næstu ára? ,,Ég er mjög bjartsýnn á að Stjarnan verði áfram í fremstu röð bæði í barna- og unglingastarfi og síðan í afreksstarfinu, en til þess að svo megi verða vonast maður til þess að félagið njóti áfram þess velvilja meðal bæjarbúa eins og verið hefur,” segir Sigurður að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar