Sterk fjárhagsstaða er forsenda góðrar þjónustu

Sveitarfélög verða að sníða sér stakk eftir vexti. Fjárhagsstaðan í Garðabæ er sterk, álögur lágar og skuldir hóflegar. Þetta skiptir máli enda er sterk fjárhagsstaða forsenda góðrar þjónustu. Og oftast er fylgni milli góðrar þjónustu og ánægju íbúa. Útsvarshlutfallið í Garðabæ verður áfram það lægsta sem þekkist meðal stærri sveitarfélaga og verður óbreytt, 13,7%. Álögum verður haldið lágum og skuldahlutfallið verður svipað og undanfarin ár. Á kjörtímabilinu höfum við lækkað álagningarprósentu fasteignaskatts en fasteignamat hefur hækkað mikið og mikilvægt að horfa til frekari lækkana á álagningarprósentu fasteignaskatts.

Uppbygging heldur áfram

Uppbygging í Garðabæ mun halda áfram en íbúafjöldi fór yfir 18.000 á þessu ári. Áfram verður framboð af lóðum fyrir íbúðir og atvinnushúsnæði en mikil uppbygging er fyrirhuguð í Vífilsstaðalandi, Hnoðraholti, Urriðaholti og á Álftanesi. Uppbyggingu fylgja fjárfestingar. Stærstu framkvæmdirnar á árinu 2022 verða í Urriðaholti við næsta áfanga í Urriðaholtsskóla auk nýs leikskóla. Fjölnota íþróttahúsið í Vetrarmýri verður tekið í notkun 2022. Byggður verður nýr búsetukjarni fyrir fatlað fólk og þá verða endurbætur við skólalóðir, íþróttavelli og opin svæði. Viðhald gatna og stíga, aukin hljóðvist og fleira.

Í Garðabæ verða áfram lágar álögur á bæjarbúa á sama tíma og fjárfest er myndarlega í uppbyggingu á ýmsum sviðum. Þjónustan verður áfram góð og ekki verður dregið úr grunnþjónustu. Þetta er hægt vegna þess að sterk fjárhagsstaða er grunnurinn að góðri þjónustu.

Leiðrétta þarf tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga

Traust og ábyrg fjármálastjórn er hverju sveitarfélagi mikilvæg, vönduð áætlunargerð og skilvirkt eftirlit. Þetta á sjaldan jafn vel við og þegar það ríkir óvissa í efnahagsmálum. Sveitarfélögin eiga allt sitt undir því hvernig gengur í þjóðarbúskapnum. Það ríkir ákveðin óvissa varðandi tekjuöflun sveitarfélaga á sama tíma og það eru uppi kröfur um aukin útgjöld. Það er mikilvægt að forgangsraða og tryggja jafnvægi milli tekna og gjalda. Eins verður að skoða tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga með tilliti til þeirra fjárfreku verkefna sem sveitarfélögin nú sinna. Þar er vitlaust gefið.

Hver á að leiða launaþróun í landinu?

Afkoma sveitarfélaga á landsvísu hefur versnað. Frá árinu 2019 til 2020 hækkuðu skatttekjur sveitarfélaga um 3,7% en að sama tíma hækkuðu launaútgjöld um 11.5%. Launahækkanir hafa verið mestar hjá sveitarfélögunum, meiri en á almenna markaðnum og hjá ríkinu. Laun og launatengd gjöld tóku 96% af útsvarstekjum sveitarfélaga 2020. Með þessari þróun minnkar svigrúm sveitarfélaga enn frekar. Þetta er áhyggjuefni.
Hið opinbera á ekki að leiða launaþróun í landinu. Þar á hinn almenni markaður að draga vagninn og þá sérstaklega hinar gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar. Hið opinbera á svo að fylgja í kjölfarið. Það eru takmörk fyrir því hvað launakostnaður getur vaxið án þess að eitthvað gefi eftir. Þetta verður að hafa í huga í komandi kjaraviðræðum.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar