Málefni hjóna og frásagnir af ofbeldi af þeirra hálfu, meðan þau ráku barnaheimili á Hjalteyri á áttunda áratugnum, voru til umfjöllunar í fjölmiðlum í síðustu viku. Eins og fram hefur komið starfræktu umrædd hjón leikskóla og voru dagforeldrar í Garðabæ um tíma á árunum 1998-2015.
Úttekt á starfseminni í Garðabæ
Garðabær lítur málið afar alvarlegum augum og hefur fengið utanaðkomandi aðila, EAÞ ráðgjöf, til að gera úttekt á starfsemi sem fram fór innan leikskóla og í daggæslu sem umrædd hjón störfuðu við. Í samráði við úttektaraðila er vinna þegar hafin hjá Garðabæ við að afla nánari upplýsinga um störf þeirra sem dagforeldra og um leikskólareksturinn sem fram fór í Garðabæ, svo sem gögn um verklag, lög og reglur, gögn um börn og starfsmenn. Á þessum tímapunkti er erfitt að gefa nákvæma tímalínu á vinnu við úttektina það mun ráðast af umfangi þeirra gagna sem til eru og upplýsinga sem berast til sveitarfélagsins og ráðgjafa.
Farið verður gaumgæfilega yfir hvernig verklagið var, hvort farið var eftir því, hvort vinnulag sé með öðrum hætti í dag og lærdómur dreginn af því um hvernig má gera betur.
Hlutaðeigandi hvattir til að hafa samband
Garðabær vill gjarnan heyra frá hlutaðeigandi aðilum, s.s. foreldrum eða börnum sem voru í leikskóla eða í daggæslu hjá þeim hjónum í Garðabæ, og nú þegar hafa einhverjir hlutaðeigandi haft samband við bæjarskrifstofur Garðabæjar. Hægt er að hringja í þjónustuver Garðabæjar vegna málsins í s. 525 8500 eða senda tölvupóst á netfangið[email protected] með fyrirspurnum, ábendingum eða óskum um samtal og/eða ráðgjöf. Einnig er hægt að hafa beint samband við Anný Rós Ævarsdóttur félagsráðgjafa á fjölskyldusviði Garðabæjar í netfangi [email protected] Haft verður samband eins fljótt og auðið er við alla þá sem hringja eða senda t-póst.