Steinar og Ragnheiður hlutu heiðursviðurkenningar

Íþróttafólk í Garðabæ fékk viðurkenningar fyrir árangur ársins 2022 á íþróttahátíð bæjarins sem fram fór í Miðgarði á dögunum. Þá voru einnig veittar heiðursviðurkenningar vegna starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum en það voru þau Steinar J. Lúðvíksson í Stjörnunni og Ragnheiður Stephensen í Stjörnunni og GKG sem þær hlutu.

Steinar J. Lúðvíksson, Stjörnunni 

Steinar flutti í Garðahrepp árið 1969. Árið 1974 að gerðist hann umsjónarmaður yngsta flokks karla (6 ára) hjá Stjörnunni. Þar var aðalstarfið í fyrstu að reima skó, snýta keppnismönnum og þurrka tár af kinn. Afskiptum af þessum flokki lauk ekki fyrr en árið 1987 en þá hampaði þessi flokkur Íslandsmeistaratitli í 2. flokki. Á þessum árum og raunar síðar snerist starf sjálfboðaliða mest um fjáröflun sem var endalaust verkefni þar sem hafa þurfti öll spjót úti, svo og barátta fyrir bættum aðstæðum íþróttafólks í sveitarfélaginu. Árið 1983 var Steinari falið af stjórn Stjörnunnar með atbeina bæjaryfirvalda að móta og koma á nýrri stjórnskipun hjá félaginu. Átti hann sæti í stjórn félagsins í nokkur ár og einnig í knattspyrnudeildinni. Kom hann þar að ýmsum verkefnum eins og t.d. í nefnd sem undirbjó byggingu gamla Ásgarðs, þökulagningu á fyrsta grasvöllinn, naglhreinsun við Stjörnuheimilið og útgáfu blaða og efnis fyrir félagið. Steinari var síðar falið það verkefni að skrifa 60 ára sögu félagsins.

Ragnheiður Stephensen, Stjörnunni og GKG

Ragnheiður hefur sinnt sjálfboðastarfi fyrir íþróttafélög í bænum frá því árið 2011 og í raun fyrir þann tíma á meðan hún var leikmaður frá 1981-2002. Hún stundaði á sínum tíma 3 íþróttagreinar innan Stjörnunnar handbolta, fótbolta og borðtennis og núna síðast golf hjá GKG. Að auki var hún í skátum og spilaði á hljóðfæri. Hún var alltaf tilbúin að vinna í sjoppum eða á klukku, bera út o.s.frv. og svo seinna að dæma á fullu í turneringum í handbolta og einnig í fótbolta, en hún æfði fótbolta frá 1983-1987, var fyrsti Íslandsmeistari Stjörnunnar í knattspyrnu. Það má segja að þetta hafi verið þannig að ef hún var ekki sjálf að spila þá var hún alltaf tilbúin að hjálpa – Orðið NEI var ekki til í orðabókinni og fannst sjálfsagt að eyða heilu helgunum í íþróttahúsinu að styðja við starfið.

En svo fór hlutverk sem íþróttamaður að stækka og taka meiri tíma en hún var samt alltaf til staðar ef eftir því var leitað og var dugleg að dæma hjá yngri flokkum í gegnum öll árin í m.fl. og svo aftur seinna meir. Hennar mottó er „Hvað get ég gert fyrir félagið? Hún ásamt tveimur vinkonum sínum kom inn í meistaraflokksráð kvenna 2011 og tóku sæti í stjórn handknattleiksdeild Stjörnunnar. Ragnheiður valdi síðan að snúa sér meira að uppbyggingunni innan félagsins hjá yngri flokkunum og þess háttar, vissi að þörfin var ekki síður mikil þar. Þar nýtti hún menntun sína og áhugasvið sem kennari. Hún snéri mótahaldi hjá Stjörnunni og þátttöku yngri flokkanna í mótum á þann veg að eftir því var tekið. Í framhaldi af þessu starfi sat hún í mótanefnd HSÍ í fjögur ár.

Frá árinu 2013 sinnt hún einnig sjálfboðastarfi hjá GKG. Hún hefur setið í stjórn GKG og sinnt sjálfboðaliðastörfum innan klúbbsins frá þeim tíma. Var t.d. í bygginganefnd þegar nýi skálinn var byggður og hef starfað fyrir mótanefnd í fjölda ára og er virkur aðili í aganefnd, mótanefnd og vallarnefnd klúbbsins ásamt því að vera ritari í aðalstjórn. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar