Markmiðið mitt hefur verið, síðan ég byrjaði í þessu 14 ára, að nappa heimsmeistaratitlinum

Íþróttakona Kópavogs árið 2022 er Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingakona úr Breiðabliki, en kjörið fór fram aðra vikuna í janúar.

Þrátt fyrir að vera enn í unglingaflokki U23 ára þá sýndi Sóley Margrét að hún er ein besta kraftlyftingakona sem Ísland hefur alið. Sóley vann til silfurverðlauna í samanlögðu í +84 kg flokki kvenna á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum í Tékklandi. Á mótinu vann hún jafnframt til gullverðlauna í hné-beygju, brons í bekkpressu og silfur í réttstöðulyftu. Hún endaði í 11. sæti á stigum þvert á alla þyngdarflokka. Sóley Margrét setti nýtt Norðurlandamet U23 ára í hnébeygju, 280 kg og í bekkpressu með 185 kg, sem jafnframt er Íslandsmet í opnum flokki og U23 ára flokki. Á Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í nóvember vann Sóley silfur í +84 kg flokki kvenna í samanlögðu, gullverðlaun í hnébeygju og bronsverðlaun í bekkpressu. Sóley hefur sýnt og sannað á palli og utan hans að hún er afburðaíþróttakona í heimsklassa.

Þetta hlýtur að vera ánægjuleg og góð viðurkenning á þín afrek að vera valin Íþróttakona Kópavogs 2022? ,,Já, þetta kom mér mikið á óvart ef ég á að segja eins og er, þar sem þetta er íbúakosning og ég er bara einhver Akureyringur og þekki voðalega fáa í Kópavoginum. En þetta er mikil viðurkenning og ég er virkilega ánægð með þetta,” segir Sóley Margrét brosandi.

Íþróttakona Kópavogs, Sóley Margrét ásamt Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra og Sverri Kára Karlssyni formanni íþróttaráðs, en Íþróttakarl Kópavogs, Höskuldur var í keppnisferð með landsliði Íslands í knattspyrnu þegar hátíðin fór fram

Og talandi um afrek á árinu 2022, þá voru þau mörg og glæsileg eða bara hreint mögnuð, en þú vannst til ótal verðlauna á Evrópumeistara- og Heimsmeistaramótinu árið 2022 í +84 kg flokki. En eru einhver ein verðlaun sem standa upp úr hjá þér hvað þessa mót varðar? ,,Ég var ánægðust með hvað hnébeygjan fékk að blómstra hjá mér. Ég er búin að vinna mikið í tækninni með hjálp Auðuns (Auðunn Jónsson, yfirþjálfari Kraftlyftingasambands Íslands) seinustu 2 ár svo það var gaman hvað beygjan var kröftug og mér leið öruggri undir stönginni. Þetta var ágætt skólabókardæmi fyrir því að tæknin er í raun algjört lykilatriði.
Einnig var góð viðurkenning að ná 2. sæti á EM og HM og gullinu í hnébeygjunni á móti konum sem eru mikið eldri og reyndari í sportinu en ég. Markmið mitt hefur verið, síðan ég byrjaði í þessu 14 ára, að nappa heimsmeistaratitlinum svo það er spennandi að sjá það nálgast.”

Hafði ekki hugmynd um að hafa slegið metin

Og svo settir þú nýtt Norðurlandamet í U23 ára flokki í hnébeygju, 280 kg og í bekkpressu, 185 kg, sem er jafnframt Íslandsmet í opnum flokki og í U23 að sjálfsögðu. Var það markmið að bæta þessi met þitt áður en þú fórst á mótið? ,,Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hafði ég ekki hugmynd um að ég hefði tekið þessi met fyrr en löngu eftir á. Hafið liggur einhvern vegin lengra fyrir mér og áherslan mín á þess-um mótum var í raun að ná sem hæstum samanlögðum árangri (hnébeygja + bekkpressa + réttstöðulyfta) til að ná góðu sæti. En auðvitað var ég með heimsmetin u23 í hnébeygjunni og bekkpressunni á bak við eyrað ef tækifæri myndi gefast þar sem markmiðið mitt, áður en ég klára u23, er að hækka þau sem mest.”

Það er nóg af bætingum inni

Þú ert enn gjaldgeng í U23 ára flokki, enda 21 árs. Miðað við ungan aldur, telurðu þig eiga enn fullt af bætingum inni, getur þú enn bætt lóðum á stöngina og hversu mikið telur þú þig geta bætt þig á árinu? ,,Já, ekki spurning. Það er nóg af bætingum inni. Í þessu sporti er miðað við að maður sé að toppa um 24-25 ára aldur svo ég er bara rétt að byrja! Ég er samt sem áður með bakmeiðsli til 7 ára sem ég þarf að huga að og leyfa að gróa og það var einmitt stefnan eftir HM í nóvember sl. að taka nokkra mánuði í hvíld. En það hefur verið virkilega erfitt og manni finnst í raun vanta hluta af lífi sínu þegar maður hættir tímabundið í því sem maður virkilega brennur fyrir. En þá þarf maður bara að hlusta á skynsemina og vinna í litlu hlutunum af því þetta er sport sem ég ætla að vera í til langs tíma.”

Eru einhver met sem þú stefnir á að slá á árinu? ,,Heimsmetin í bæði hnébeygju (290kg) og bekkpressu (195kg). Ef ekki í ár þá hef ég næsta ár til að ná þeim því þá klára ég u23.”

Að einhverju leyti meðfætt

En hvaðan kemur allur þessi styrkur sem þú býrð yfir? Þú ert að lyfta ótrúlegum þyngdum. Er þetta að hluta til meðfætt eða eru þetta bara þrotlausar æfingar? ,,Ég hef verið stór og sterkbyggð frá því ég man eftir mér svo já ætli þetta sé ekki að einhverju leyti meðfætt. Annars hef ég lagt mikla vinnu og sett kraftlyftingarnar í algjöran forgang seinustu 6 árin bæði af því mér finnst það skemmtilegt og ég ætla mér á toppinn.”

Hvernig kom það annars til að þú ákvaðst að grípa í lóðin og fara að æfa kraftlyftingar? ,,Ég var í handbolta í 10 ár og var farin að missa áhugann seinustu árin og datt á þeim tíma blessunarlega séð inn á kraftlyftingaæfingu og hef ekki litið um öxl síðan. Ég hafði líka alltaf mikinn áhuga á styrktarþjálfun þegar ég var yngri.”

Og hvernig er aðstaðan hjá Breiðabliki til að stunda kraftlyftingar og er þessi íþrótt á uppleið? ,,Við vorum að flytja aðstöðuna okkar í HK húsið í Digranesi. Aðstaðan er mun betri og rýmri en hún var og endalaust að bætast við hópinn. Ég sé mig ekki fara neitt annað þar sem æfingafélagarnir eru orðnir eins og partur af fjölskyldunni og þau gera æfingarnar skemmtilegri með hvatningu og vinskap.”

Íþróttakona Kópavogs vinnur í heilbrigðisgeiranum og leggur stund á sjúkraliðanám meðfram vinnu og miklum æfingum.

Áhuginn þarf að vera mikill

Hvað þarf til að vera góður í kraftlyftingum? ,,Fyrst og fremst að þú hafir mikinn áhuga. Maður er aldrei að fara að ná árangri í einhverju sem manni finnst ekki skemmtilegt.
Ég æfi vanalega 4x í viku, en það er breytilegt eftir tímabilum. Venjulegur æfingatími er 2-3 klst., en getur farið upp í 5-6 klst. þegar fer að nálgast stórmót. Það er svo margt annað sem þarf að æfa heldur en bara þessar 3 greinar. Ásamt þessu þarf góða upphitun, aukaæfingar, styrktaræfingar, rúll og teygjur svo eitthvað sé nefnt á móti góðri hvíld, svefni og mataræði.”

En hvað gerir svo Íþróttakona Kópavogs annað en að stunda kraftlyftingar? ,,Ég vinn í heilbrigðisgeiranum og er í sjúkraliðanámi.”

Og hefur þú tíma fyrir þetta allt saman, að vera í námi, vinna og vera í fremstu röð í kraftlyftingum í heimi – bara ekkert mál eða hvað? ,,Það getur verið mjög strembið að samræma 90% starf og sinna náminu, samhliða æfingum. Sérstaklega þegar æfingarnar eru í lengri kantinum. En húsnæði og allt sem kemur að manni borgar sig ekki sjálft. Það er því miður lítið fjármagn í þessu sporti, en ég er mjög þakklát fyrir þann hlut sem ég fæ. Þetta kallar bara á gott skipulag, en ég vona einn daginn að ég geti lagt allan fókus og orku í kraftlyftingarnar.”

Og hvað er svo framundan hjá þér á árinu og hver eru markmiðin fyrir árið? ,,Fyrri hluti árs er svolítið óljós hjá mér eins og er, það er annaðhvort EM í þrílyftu eða HM í bekkpressu í vor, en stefnan er allavega 110% sett á HM í nóvember. Síðan gætu önnur minni mót bæst við,” segir Íþróttakona Kópavogs.

Og fyrir áhugasama þá eru bestu tölur Sóleyjar Margrétar 280 kg í hnébeygju 190 kg bekkpressu og 220 kg réttstöðulyftu. Úff, geri aðrir betur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar