Eigendur húsgagnaverslunarinnar ILVU stefna á að opna verslun við Kauptún 1 í Garðabæ, en þeir hafa óskað eftir leyfi hjá skipulagsyfirvöldum í Garðabæ til að stækka byggingarreit lóðar við Kauptún 1 um 760 fm.
Mjög spennt að opna í Garðabæ
ILVA þarf að loka verslun sinn í Korputorgi á næsta ári, en þar hefur verslunin verið í 7000 þúsund fermetrum allt frá árinu 2008, og hyggjast eigendur ILVU flytja verslunina í Garðabæinn.
,,Við erum mjög spennt fyrir því að opna í Kauptúni og stefnum á að opna í vor. Það er óhætt að segja að ILVA verði opnuð í breyttri mynd enda hefur verslunin þróast tölvert síðan fyrst var opnað á Íslandi,” segir Kristján Geir Gunnarsson framkvæmdastjóri húsgagnaverslunarinnar Ilvu. ,,Eins og áður segir þá stefnum við á að opna verslunina sjálfa í vor, en erum að óska eftir stækkun á byggingarreit vegna vöruhúss sem við áætlum að byggja fyrir aftan verslunina sjálfa. Ef allt gengur að óskum munum við síðan opna vöruhúsið haustið 2022,” segir hann.
Eigendur ILVU hafa óskað eftir því að byggingarreitur á lóð 1 verði stækkaður um 760 m2, þar af 150 m2 til vesturs vegna fyrirhugaðs anddyris en um 600 m2 til austurs. Hámarksbyggingarmagn er aukið úr 8.100 m2 í 8.400 m2.
Skipulagsnefnd Garðabæjar leggur til að útfærsla byggingar og lóðar á lóðarmörkum að ofanverðu verði sýnd með skýringamyndum og samráð verði haft víð eigendur og rekstraraðila í Urriðaholtsstræti 2. Nefndin minnir á gildandi deiliskipulags þar sem m.a. er kveðið er á um að þak á nýjum hluta hússins skuli þakið náttúrulegum efnum svo sem grasi, mosa eða lyngmóa.
Tillögunni hefur verið vísað til skoðunar og úrvinnslu hjá tækni- og umhverfissviði og skipulags-ráðgjafa Garðabæjar.