Sigrún Antonsdóttir

Garðar Grásteinn – kynning á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ 5. mars nk.

Hver ert þú og hvaða sæti sækist þú eftir? Ég heiti Sigrún Antonsdóttir og er þrjátíu og þriggja ára uppalin Álftnesingur og sækist eftir 4-6 sæti í prófkjörinu. Ég er gift Jóhannesi Gauta Sigurðssyni, rannsóknarlögreglu-manni og við eigum þrjú börn. Mín reynsla af samfélaginu er mjög víðtæk enda alin upp í Garðabæ, er foreldri og hef í störfum mínum komið víða við innan sveitarfélagsins. Á mínum bernskuárum stundaði ég nám í Álftanesskóla, Garðaskóla og FG. Ég starfaði um tíma sem dagmóðir, vann í leikskólanum Krakkakoti, Álftanesskóla, hjúkrunarheimilinu í Holtsbúð, sá um foreldramorgna í Vídalínskirkju og var yfirmaður kirkjugarðanna í Garðabæ.

Ég er menntuð hjúkrunarfræðingur en á undanförnum árum hefur áhugi minn á bættu skólasamfélagi í Garðabæ leitt mig til starfa sem umsjónar- og sérkennari í Álftanesskóla og mun ég útskrifast með meistara-gráðu í kennslufræðum í vor. Ég hef gríðarlegan áhuga öllu sem viðkemur menntun unga fólksins okkar, íþróttum og tómstundastarfi ásamt því að vinna að heilsueflandi samfélagi.

Af hverju býður þú þig fram? Ástæðan fyrir því að ég gef kost á mér er vegna þess að ég hef alltaf haft áhuga á því sem er að gerast í bæjarfélaginu og er með sterkar skoðanir hvað mætti betur fara. Ég heiti því að í störfum mínum sem bæjarfulltrúi muni ég láta gott af mér leið og gera Garðabæ, bæinn okkar að eftirsóknarverðum stað til að búa á. Reynslan mín á störfum innan Garðabæjar mun koma til með að nýtast mér vel sem bæjarfulltrúi. Ég hef mikinn áhuga að vinna með fólki, heyra hvað fólk hefur fram á að færa með það markmiði að gera samfélagið okkar betra fyrir fólk á öllum lífsskeiðum

Hverjar eru þínar helstu áherslur? Mínar helstu áherslur eru að tryggja góðar samgöngur á milli bæjarhluta, bregðast strax við fjölgun innbrota og auknu ofbeldi og stuðla að bættu öryggi í umhverfinu okkar auk þess að tryggja hæfilegt magn lóða til úthlutunar á hverjum tíma. Öll uppbygging þarf að vera í takt við sérkenni hvers bæjarhluta fyrir sig. Við þurfum að bjóða upp á samkeppnishæfa heilbrigðisþjónustu, tryggja að börnin okkar fái góða menntun, auka heilsueflingu fyrir unga jafnt sem aldraða og stuðla að streituminna samfélagi.
Höfundur er hjúkrunarfræðingur og kennari og býður sig fram í 4-6 sæti í prófkjöri sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar