Óvíst hvenær verður hægt að opna golfvöll GKG – nokkuð illa farinn eftir kaldan vetur

GKG kylfingar hafa verið að velta fyrir sér hvenær völlurinn muni opna og í fréttabréfi frá GKG sem kom út í dag segir Guðmundur vallarstjóri að völlurinn sé kom ekki nægilega vel undan vetri. ,,Sumar flatir nokkuð illa farnar eftir þennan kalda vetur. Ekki hefur enn verið ákveðin dagsettning á opnun þar sem völlurinn á nokkuð í land með að ná sér og vera tilbúinn að taka við umferð kylfinga. Við metum stöðuna daglega og reynum allt hvað við getum til að hjálpa grasinu að komast í sitt besta form. Mýrin er opin inn á vetrarflatir og vetrarteiga og biðjum við kylfinga um að fara ekki inn á sumarteiga og flatir.

Það er ágæt regla að hugsa þetta svona: ef það eru ekki teigmerki á teig þá er teigurinn ekki í notkun og ef það er ekki flagg á flötinni þá er flötin ekki í notkun.

Veturinn var einstaklega kaldur og einnig einkennilegur í marga staði. Við fengum snjó yfir völlinn seinnipartinn í desember sem var að verja hann nokkuð vel fyrir ágangi kuldans og engin klaki var undir þeim snjó sem er gott. Um mánaðarmót febrúar/mars kom það sem ég vill kalla svikavor og fór allur snjór með góðum hlýindum í um tvær vikur, völlurinn kom nokkuð grænn og fínn undan þessum snjó og allt lofaði nokkuð góðu. En svo kom frostið aftur með vind með sér og tel ég að þá höfum við orðið fyrir vind kali á mörgum stöðum. Þetta er ekkert einsdæmi hjá okkur heldur nær þetta nokkuð heilt yfir höfuðborgarsvæðið,“ segir Guðmundur, en hann segir að vallarstjórar á svæðinu séu í góðu sambandi og bera saman bækur sínar daglega með samtölum.

,,Vonandi getum við opnað sem fyrst en við verðum að hafa völlinn tilbúinn í það,“ segir hann að lokum.

Mynd: GKG á sumartida

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar