Ómetanlegt framlag til menningar og lista

Á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar, sem var haldin í Sveinatungu á Garðatorgi sl. miðvikudag var tilkynnt um útnefningu bæjarlistamanna Garðabæjar 2021 og í ár voru það hjónin Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors sem hlutu  þann heiður.

Joseph Ognibene fékk heiðursviðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag til menningar og lista

Við sama tilefni var Joseph Ognibene hornleikari (sjá forsíðumynd) heiðraður fyrir ómetanlegt framlag til menningar og lista en hann hefur í áratugi búið í Garðabænum en kom til Íslands fyrir 40 árum til að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands en hann er fæddur og uppalinn í Los Angeles. Joseph hefur verið einleikari með Sinfóníuhljómsveitinni og leitt horndeild hennar, kennt og stjórnað nemendum og gefið þannig af sér í áratugi. Við athöfnina hélt Joseph hjartnæma ræðu þar sem hann minntist Hallfríðar Ólafsdóttur flautuleikara sem heiðruð var fyrir ári síðan en lést síðsumars. Þá léku Joseph og félagar hans úr Sinfóníuhljómsveit Íslands tvö lög á fjögur horn, Heyr himnasmiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Ó, blessuð vertu sumarsól eftir Inga T. Lárusson.

Josehp og félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands léku tvö lög á fjögur horn, Heyr himnasmiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Ó, blessuð vertu sumarsól eftir Inga T. Lárusson.

Úthlutað úr Hvatningarsjóði ungra listamanna

Ungir listamenn í Garðabæ fengu úthlutað úr Hvatningarsjóði og í ár voru það 14 ára fiðlunemandinn Austin Ng, Hljómsveitin Pólýfónía og Jóhannes Damian Patreksson myndlistar- og tónlistarmaður sem hlutu styrk. Austin lék einleiksverk á fiðlu við athöfnina við mikla hrifningu viðstaddra en hann er nemandi Auðar Hafsteinsdóttur í Menntaskóla í tónlist.

Gunnar Valur Gíslason formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar fór yfir menningarárið á hátíðinni og hann var spurður um hvað stæði upp úr.  „Það er einstaklega ánægjulegt að við gátum boðið næstum 3000 skólabörnum úr grunnskóla og leikskóla á innihaldsríka dagskrá í vetur en það skiptir sérlega miklu máli fyrir börn á tímum sem þessum. Þá létum við ekki deigan síga og héldum Jazzhátíð þó ekki væri mögulegt að hafa gesti í salnum. Nýveittur styrkur úr Barnamenningarsjóði  sem gerir okkur kleift að bjóða upp á dagskrá fyrir börn og fjölskyldur og varpa ljósi á hvað er líkt og ólíkt með lífi fjölskyldna í dag og á landnámsöld gerir okkur svo sannarlega kleift að horfa bjartsýn á menningarárið 2021/22.“

Gunnar Valur Gíslason formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar fór yfir menningarárið á hátíðinni

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar