23 verkefni eru á rafrænum kjörseðli í kosningunum

Kjóstu þitt uppáhaldsverkefni!

Rafrænar kosningar í lýðræðisverkefninu Betri Garðabæ eru hafnar og standa til og með 7. júní nk. Alls eru 23 hugmyndir á rafrænum kjörseðli og 15 ára og eldri með lögheimili í Garðabæ geta kosið. Betri Garðabær er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Garðabæ.

Kosningavefur aðgengilegur á gardabaer.is

23 verkefni eru á rafrænum kjörseðli í kosningunum sem hófust 26. maí sl. og standa til 7. júní. Íbúar sem verða 15 ára á kosningaárinu (fæddir 2006) og eldri, með skráð lögheimili í Garðabæ fá þar tækifæri til að ráðstafa allt að 100 milljónum í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í sveitarfélaginu næstu tvö árin. Kjósendum er boðið upp á að hjartamerkja eitt verkefni sem gefur því aukaatkvæði. Þá er mögulegt að greiða atkvæði oftar en einu sinni, en það er nýjasta atkvæðið sem gildir.

Kosningarvefurinn er aðgengilegur frá vef Garðabæjar, gardabaer.is. Allir geta skoðað kosningavefinn en til að kjósa í lokin þegar búið er að velja hugmyndir og ráðstafa fjármagninu þarf að skrá sig inn með öruggum hætti, þ.e. með Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Atkvæðið er dulkóðað og aldrei hægt að tengja atkvæði við einstaklinga.

Hægt er að kjósa í eigin tölvum eða snjalltækjum en einnig er hægt að koma og nota tölvur í þjónustuveri Garðabæjar og í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og Álftanesútibúi.

Hugmyndir íbúa nýtast áfram

Fjölmargar góðar hugmyndir bárust í hugmyndasöfnun verkefnisins sem stóð yfir fyrr í vor og þó þær falli ekki allar undir skilyrði Betri Garðabæjar lifa þær áfram og nýtast í önnur verkefni á vegum bæjarins eða fara beint í framkvæmd. Þannig verður hverju sviði og forstöðumönnum sendar þær hugmyndir sem tilheyra þeim til frekari skoðunar og einhverjum hugmyndum verður vísað beint til umfjöllunar í fastanefndum bæjarins.

Listi yfir hugmyndir sem bárust má sjá á vef Garðabæjar, gardabaer.is, og þar má sjá nánari upplýsingar um lýðræðisverkefnið Betri Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar