Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 27. apríl, níræður að aldri. Ólafur var gerður að heiðursborgara Garðabæjar árið 2010, en með því vildi bæjarstjórn Garðabæjar sýna Ólafi þakklæti fyrir störf hans í þágu bæjarins og bæjarbúa og undirstrika að verk hans í Garðabæ verða í minnum höfð.
Bæjarráð Garðabæjar ákvað á fundi sínum í gær að Garðabær, í samvinnu við aðstandendur Ólafs, annist undirbúning útfarar hans og taki að sér greiðslu kostnaðar við útförina.
Ólafur fæddist á Siglufirði 7. júlí 1932. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands vorið 1960. Þá um sumarið hóf hann störf sem sveitarstjóri í Garðahreppi og gegndi því til ársins 1972. Hann var kjörinn í hreppsnefnd Garðahrepps árið 1966 og átti sæti í nefndinni og síðar í bæjarstjórn til ársins 1978. Hann var oddviti hreppsnefndar á árunum 1972–1975 og forseti bæjarstjórnar 1976–1978. Ólafur var kjörinn á Alþingi árið 1971 og átti þar sæti til ársins 1999 er hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Hann var menntamálaráðherra á árunum 1991–1995 og forseti Alþingis 1995–1999. Ólafur G. Einarsson var búsettur í Garðabæ frá árinu 1961. Eiginkona Ólafs var Ragna Bjarnadóttir, fædd 21. nóvember 1931, látin 20. janúar 2015. Dóttir þeirra var Ásta Ragnhildur, f. 17. janúar 1968 en hún lést 15. Janúar 2021. Eftirlifandi eiginmaður Ástu er Þröstur Sigurðsson, f. 7.mars 1966. Þau eignuðust þrjá syni: Ólaf Þór, Fannar Stein og Viktor Inga.
Í greinargerð sem fylgdi tillögu þegar Ólafur var valinn heiðursborgari Garðabæjar hinn 7. janúar 2010 kom fram að Ólafur hafði mótandi áhrif á uppbyggingu bæjarsamfélagsins í Garðabæ og var frumkvöðull á mörgum sviðum. Hugmyndir Ólafs á sviði skipulagsmála voru að mörgu leyti ólíkar því sem þá gerðist í bæjum á Íslandi og einkenndust m.a. af áherslu á lágreista byggð og stórar lóðir.