Hjólað í vinnuna er skemmtilegt heilsu- og hvatningarverkefni – Vertu með!

Frá árinu 2003 hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðið myndarlega að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarverkefninu „Hjólað í vinnuna“. Verkefnið sem hófst fyrir tuttugu og einu ári síðan hefur verið vel tekið á meðal landsmanna allt frá upphafi og fjöldi einstaklinga og fyrirtækja tekið þátt.

Í ár stendur átakið yfir frá 3. maí nk. til og með 23. maí og er landsmenn hvattir til að vera með í þessu skemmtilega átaki. Í fyrra tóku alls 5319 einstaklingar þátt og hjóluðu þeir samtals 371.260 km, eða 277 sinnum hringinn í kringum landið.

Hrönn Guðmundsdóttir, sérfræðingur fræðslu og almenningsíþrótta hjá ÍSÍ stýrir verkefninu og hún var spurð að því hvort það væri ekki alltaf ákveðin tilhlökkun fyrir þessu skemmtilega verkefni á meðal landsmanna? ,,Það er svo sannarlega tilhlökkun yfir að við séum að fara að hefja þetta frábæra verkefni, Hjólað í vinnuna í tuttugasta og fyrsta sinn. Þegar hjólin byrja að flykkjast út á stígana þá fer að koma sumar og allt lifnar við,” segir Hrönn.

,,Fyrst og fremst er verið að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta með verkefninu Hjólað í vinnuna,” segir Hrönn, en með henni

En hver er svo tilgangurinn með verkefninu? ,,Fyrst og fremst að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. En þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu í þessar þrjár vikur í maí á hverju ári. Og svo gerir þetta eins og áður hefur komið fram mjög mikið fyrir starfsandann á vinnustöðum landsins.”

Þannig að þátttakendur þurfa ekkert sérstaklega að græja sig upp með góðum hjólabúnaði til að taka þátt, það geta allir verið með og jafnvel gengið eða hlaupið ef það vill? ,,Mikið rétt, allir geta tekið þátt og það er alltaf mjög mikilvægt að vekja athygli á því. Það má einmitt hlaupa, ganga, nota strætó og fara aðeins fyrr úr og labba restina t.d og skrá þá vegalengdina sem gengið var.”

En við Íslendingar erum keppnisfólk, svo þeir sem vilja geta líka skráð sig í kílómetrakeppni. Hvernig virkar það og eykur það á stemminguna og metnaðinn? ,,Þetta er fyrst og fremst vinnustaðakeppni, vinnustaðir að keppa við vinnustaði af sömu stærð (fjöldi starfsmanna). Vinnustaðakeppninn gengur út á það að sem flestir starfsmenn nýti virkan ferðamáta til og frá vinnu sem flesta daga á meðan á átakinu stedur,” segir hún og bætir við: ,,Margir vinnustaðir eru með innanhússkeppni þar sem keppt er milli liða um flesta þátttökudaga og þá skapast virkilega góð stemning í kringum verk- efnið. En já svo er það þessi aukakeppni sem er kílómetrakeppnin. Lið sem skrá sig samhliða vinnustaðakeppninni í kílómetrakeppnina keppa þá saman um að hjóla/hlaupa/ganga sem flesta kílómetra á meðan á keppninni stendur.”

Og geta áhugasamir þá búið til lið sjálfir? ,,Áhugasamir skrá einfaldlega vinnustaðinn sinn til leiks, þ.e.a.s. ef ein-hver starfsmaður er ekki búin að því nú þegar og svo skráir viðkomandi lið til leiks og fær samstarfsmenn til að skrá sig í liðið og vera með.”

Setningarhátíð Hjólað í vinnuna í fyrra

Svo er Úlfar Linnet búinn að vera með létta fyrirlestra í gangi frá því í byrjun apríl varðandi þátttöku í Hjólað í vinnuna? ,,Já, hann Úlfar Linnet, fyrrum fyndnasti maður Íslands hafði samband við okkur fyrir Covid og viðraði þessa hugmynd sína að þessum fyrirlestrum í aðrdraganda Hjólað í vinnuna, sem hann hyggðist bjóða fyrirtækjum upp á. Þannig að núna gat hann loksins látið þetta verða að veruleika og ég veit ekki betur en að það séu allmörg fyrirtæki búin að fá hann til sín. Hann ætlar líka að vera með okkur á setningu átaksins sem verður þann 3. maí kl. 8:30 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum að vanda. Væri gaman að sjá sem flesta þar.”

Og þú hvetur alla að vera með enda frábær umhverfisvænn ferðamáti? ,,Bara engin spurning og í ljósi þess að loftslagsmálin eru mikilvægari sem aldrei fyrr er kannski auðvelt fyrir fólk að stíga skrefið að nýjum ferðamáta í framhaldi þessa átaks,” segir Hrönn að lokum, en opnað hefur verið fyrir skráningu í Hjólað í vinnuna 2023 á hjoladivinnuna.is. Liðsmenn og liðsstjórar geta því hafið skráningar á sér og sínum liðum núna! Þess ber að geta að hægt er að skrá sig allan tímann á meðan verkefnið stendur yfir. Keppnin hefst 3. maí nk. og stendur yfir til 23. maí eins og áður kemur fram.

Forsíðumynd: Gyða Sól mun vonandi vera með í átakinu í ár eins og undanfarin ár

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar