Hreinsitækni ehf hefur hafið vorhreinsun og þrif á götum og gangstígum m.a. í Kópavogi og Garðabæ. Á þriðja tug vélsópa og vatnsbíla eru nú þegar að störfum.
Í fyrstu umferð eru sópaðar og þrifnar stofnbrautir og göngustígar. Síðar verða húsagötur teknar og mun Hreinsitækni auglýsa með áberandi merkingum og skiltum áður en farið verður inn í hvert hverfi fyrir sig. Merkingarnar eru ekki síst til að óska eftir því að ökutæki verði sem minnst í vegi fyrir sópum og vatnsbílum. Með því gengur verkið hraðar og árangurinn verður betri.
Björgvin Jón Bjarnason, framkvæmdastjóri Hreinsitækni ehf. „Við erum á fullu í Breiðholtinu núna í Reykjavík og einnig byrjaðir í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ. Þetta er mikill annatími hjá okkur og við stefnum á að klára þessi sveitarfélög í lok maí. Frostakaflinn í byrjun mánaðar setti smá strik í reikninginn en við erum fljótir að vinna það upp.“
Hreinsitækni hefur áratuga reynslu í sópi og þrifum á götum og gangstígum. Mörg hundruð tonn af lausu efni eru fjarlægð af götum og gangstígum með þessu móti. Dæmi eru um að á einni af fjölförnustu götum höfuðborgarsvæðisins hafi 34 tonn af ryki, möl og sandi verið fjarlægð í einni hreinsun.
„Við vitum að sópun og þrif er árangursrík aðferð til að auka loftgæði og minnka svifryk. Það er okkar trú að þegar við verðum búin að þrífa muni það ekki bara sjást heldur einnig finnast á betra lofti og betri loftgæðum,“ segir Björgvin Jón.