Sumarið er tíminn! Í vikunni er sumardagurinn fyrsti, hátíðisdagur sem þó mörgum finnst einkennilega snemma á ferð miðað við veðurfar hér á landi. En um þetta leyti fögnum við þó birtunni, það er gleðilegt þegar dagurinn er orðinn langur og sumarið er í sjónmáli.
Fastur liður á þessum árstíma er skil ársreiknings Kópavogsbæjar. Það verður að segjast að á sama tíma fyrir ári síðan töldum við að afar erfitt ár væri framundan í rekstri bæjarins, í ljósi heimsfaraldurs kórónaveiru sem þá var frekar nýskollinn á.
Niðurstaðan er miklu betri en á horfðist fyrir ári síðan
Það verður að segjast a niðurstaðan er miklu betri en á horfðist fyrir ári síðan. Skýringin er tvíþætti. Annars vegar er rekstrargrundvöllur Kópavogs afar traustur. Undanfarin ár höfum við lagt áherslu á það hjá bæjarfélaginu að draga úr skuldum, greiða upp óhagstæð lán og sýna skynsemi í rekstri án þess þó að það komi niður á þjónustu við íbúa.
Hins vegar þá hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar haft sitt að segja. Stuðningur ríkisins í gegnum atvinnuleysistryggingarsjóð tryggði það að afkoma sveitarfélaga, þar með talið Kópavogsbæjar, varð miklu betri 2020 en ella hefði orðið.
Þessi tíðindi eru hin ánægjulegustu og gefa byr í seglin fyrir árið 2021. Áfram munum við gæta aðhalds í rekstri en um leið sýna metnað í verki í starfi bæjarfélagsins.
Af ýmsu að taka
Af ýmsu eru að taka þegar við skoðum hvað er framundan. Það styttist til dæmis í að hafist verði handa við byggingu nýs Kársnesskóla við Skólagerði en tilboð í framkvæmd var samþykkt nýverið.
Þá eru unnið að nýju skipulagi Glaðheimahverfið sem þýðir fjölgun íbúða miðað við það sem áætlað hafði verið, ánægjulegt í ljósi eftirspurnar eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.
Þá er verið að fara yfir athugasemdir vegna skipulags á Hamraborgarsvæðinu, það verður spennandi þegar það kemst lengra á veg, enda kominn tími til þess að miðbærinn öðlist þann sess sem honum var ætlað í Kópavogi, með mannlífi, verslun og ýmis konar þjónustu.
Loks langar mig að fagna góðum tíðindum í samgöngum, annars vegar samþykkt Arnarnesvegar sem mun verða til mikilla bóta fyrir þá sem búa og eiga leið um efri byggðir Kópavogs, og hins vegar brú yfir Fossvog sem komin er í hönnunarútboð.
Með ósk um gott sumar
Ármann Kr. Ólafsson