Útilistaverk, ganga og sögustund

– gefum okkur tíma í að njóta nærumhverfisins

Nú þegar sólin er að hækka á lofti og sumardagurinn fyrsti að renna upp er tilvalið að njóta menningar utandyra eins og hljóðgöngunnar sem Flanerí hópurinn hefur sett saman sem kallast Flanerí Kóp #1: Útilistaverk í Kópavogi.

Það er í senn skemmtilegt og fræðandi að taka þátt í hljóðgöngunni, heyra hvernig lærðir og leiknir lýsa útilistaverkum í nágrenni Menningarhúsanna eins og Útilistaverkinu Sólarslóð á Hálsatorgi við Hamraborg og götulistinni sem er í undirgöngunum sem liggja undir Borgarholtsbrautina. Við heyrum Theresu Himmer listakonu lýsa verkinu sínu Sólarslóð, hvernig það breytist eftir því hvar maður stendur við það, hvernig málningin virkar og hvernig áhrif hreyfing sólarinnar hefur á verkið.

Götulist er önnur tegund listforms sem kemur við sögu í Flanerí Kóp en hana er að finna í undirgöngunum við Menningarhúsin. Hvatt er til að staldra við, gefa sér tíma til að skoða og lesa þau skilaboð sem koma til okkar úr verkunum. Við hlaupum eða göngum alltof oft framhjá listaverkum í dagsins önn og því tilvalið að stoppa augnablik og njóta.

Síðasti hluti göngunnar er i kringum Kópavogskirkju þar sem rýnt er í steindu gluggana hennar Gerðar Helgadóttur. Þar fær Flanerí hópurinn til liðs við sig Kópavogsbúa sem segja frá minningum um kirkjuna og gluggana. Þá ræðir séra Sigurður Arnarson gluggana og túlkun þeirra, hvað litirnir tákna og táknin sem eru að finna í gluggunu en hann segir þá lifna við í mismunandi ljósi tilverunnar.

Gluggarnir hennar Gerðar eru sannkölluð listaverk og ótal sögur eru rifjaðar upp, bæði munnmælasögur sem og fréttir frá tímum kirkjubyggingarinnar.

Holtið við Menningarhúsin er ævintýraheimur og Flanerí Kóp ganga Flanerí hópsins auðgar og upplýsir okkur á skemmtilegan og líflegan máta um nágrennið og fólkið.

Það er auðvelt að njóta hljóðgöngunnar, það eina sem þarf er sími og heyrnartól. Gangan byrjar við efri inngang bókasafnsins, við enda regnbogans og leiðir hlustendur þaðan áfram um listrænar lendur umhverfisins.

Næsta Flanerí Kóp verður frumflutt í byrjun maí og fer það nánar um Kársnesið.

Það er Lista- og menningarráð Kópavogs sem styrkir Flanerí hópinn til framleiðslu á hljóðgöngum um Kópavog.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar