Nýtt flokkunarkerfi og söfnun á matarleifum

Í ár verður innleitt nýtt flokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum þar sem fjórum úrgangsflokkum verður safnað við hvert heimili. Þetta verður stórt framfaraskref í umhverfis- og loftslagsmálum en meðal annars munu öll heimili fá tunnu fyrir matarleifar. Með lögum um hringrásarhagkerfi, sem tóku í gildi um áramótin, er skylt að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili: pappír, plastumbúðir, lífrænan úrgang (matarleifar) og blandaðan úrgang.

Íbúar munu finna lítið fyrir breytingunum og þurfa ekki að aðhafast neitt annað en að tileinka sér nýja flokkunarsiði. Tunnum verður skipt út þegar innleiðing hefst og íbúar þurfa ekki að grípa til neinna aðgerða hvað það varðar.

Eftir breytingu í sérbýli

Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er og í flestum tilfellum verður leitast við að koma tunnum fyrir í því rými sem er þegar til staðar við íbúðarhús. Tunnum fyrir þessa fjóra flokka verður komið fyrir við íbúðarhús eftir þörfum en í einhverjum tilvikum verður núverandi tunnum skipt út fyrir tvær tvískiptar tunnur. Þetta kæmi til framkvæmda í haust eða að lokinni innleiðingu. Í hinu nýja kerfi verða því að jafnaði tvær til þrjár tunnur við sérbýli en í fjölbýlishúsum fer útfærsla eftir aðstæðum á hverjum stað. Mismunandi útfærslur verða á fjölda tunna en hægt er að sjá mögulegar útfærslur á meðfylgjandi mynd og á vefnum www.flokkum.is.
Nú þegar flokka flest heimili plast og pappír. Stærsta breytingin felst því í að öll heimili munu fá tunnu fyrir matarleifar en framkvæmd þess verður kynnt betur síðar.Til að auðvelda flokkun á matarleifum fá öll heimili á höfuðborgarsvæðinu gefins sérstaka körfu undir matarleifar og pappírspoka sem fara í hana. Með því að flokka matarleifar frá blönduðum heimilisúrgangi er hægt að endurvinna þær í metangas og moltu. Hið samræmda flokkunarkerfi sveitarfélaganna mun því draga stórlega úr urðun og síðar brennslu á úrgangi og styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfisins.

Samhliða þessum breytingum verður grenndargámum gefið nýtt hlutverk við að taka á móti málmi, gleri, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum, sem samkvæmt lögum ber að flokka sérstaklega og safna í nágrenni við íbúa.
Í dag eru sorphirðugjöld innheimt með fasteignagjöldum en í skoðun er fyrirkomulag sem í tímanum breytist í „borgað þegar hent er“ þannig að sorphirðugjöld yrðu innheimt eftir rúmmáli íláta og gerð úrgangs við heimili. Rekstur grenndar-, söfnunar- og móttökustöðva yrði áfram fast gjald.
Tunnur fyrir nýja flokka byrja að berast heimilum í sumar. Útfærslur verða kynntar vel þegar nær dregur, en nánari upplýsingar og útfærslur má einnig finna á vefnum www.flokkum.is.

Stella Stefánsdóttir
Formaður umhverfisnefndar

Eftir breytingu í fjölbýli

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar