Vilja skoða hækkun á hvatapeningum og jafnvel að tekjutengja þá

Harpa Þorsteinsdóttir og Þorbjörg Þorvaldsdóttir lögðu fram tillögu, fyrir hönd Garðabæjarlistans, um skipun starfshóps um íþrótta- og tómstundamál í Garðabæ á fundi bæjarstjórnar í mars, en Garðabæjarlistinn vill m.a. að starfshópurinn skoði þann möguleika að hækka hvatapeningana og jafnvel að tekjutengja þá.

Harpa gerði grein fyrir eftirfarandi tillögu á fundinum.
„Bæjarstjórn samþykkir að skipa starfshóp tveggja til þriggja kjörinna fulltrúa, sem fái aðstoð starfsfólks fræðslu- og menningarsviðs. Dæmi um kosti sem hægt væri að meta:
a.) Hækkun hvatapeninga
b.) Systkina- og eða fjölgreinaafsláttur í gegnum hvatapeningakerfið
c.) Tekjutenging hvatapeninga
d.) Greiðsluþak

Harpa vill að starfshópurinn skili skýrslu til bæjarstjórnar með útfærðum möguleikum áður en vinna við fjárhagsáætlunargerð ársins 2024 hefst, eða í ágúst 2023.

Harpa segir í greinagerð með tillögunni að í umræðu bæjarstjórnar hafa ýmsar leiðir til að koma frekar til móts við barnafjölskyldur í bænum vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna verið ræddar í gegnum árin. ,,Tillögur Garðabæjarlistans þess efnis undanfarin fimm ár hafa aldrei verið felldar, en hafa þó aðeins skilað fimm þúsund króna flatri hækkun hvatapeninga á árinu 2023. Ljóst er að gera þarf betur fyrir barnafjölskyldur í bænum, sem margar hverjar standa frammi fyrir sligandi kostnaði vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna. Þetta á sérstaklega við um barnmargar fjölskyldur og tekjulægri hópa, en millitekjuhópar eru þó ekki undanskildir. Með stofnun starfshóps sem metið getur þær leiðir sem hægt er að fara og gert grein fyrir þeim vonast Garðabæjarlistinn til þess að bæjarstjórn hafi skýra valkosti þegar kemur að fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár. Þannig tökum við betri og upplýstari ákvarðanir.”

Hlutverkum íþrótta- og tómstundaráðs m.a. að skoða og meta mögulegar ívilnanir vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna

Björg Fenger

Björg Fenger bæjarfulltrúi Sjálfsæðisflokksins lagði til að tillögunni yrði hafnað hvað varðar skipun starfshóps enda íþrótta- og tómstundaráð starfandi sem hætti að taka á þessum hlutum og lagði Björg fram eftirfarandi bókun: „Samkvæmt 56. gr. samþykkta um stjórn Garðabæjar skal bæjarstjórn að afloknum kosningum kjósa 5 einstaklinga í íþrótta- og tómstundaráð til fjögurra ára. Er hlutverk ráðsins m.a. að vinna að stefnumótun í íþrótta- og tómstundamálum og vera bæjarstjórn til ráðgjafar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að eitt af hlutverkum íþrótta- og tómstundaráðs sé að skoða og meta mögulegar ívilnanir vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna enda hefur ráðið m.a. ítrekað rætt útfærslu og nýtingu hvatapeninga. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja því ekki nauðsynlegt að skipa sérstakan starfshóp í þessum tilgangi.”

Hvatapeningar þróðir áfram með hærri greiðslum til tekjulágra fjölskyldna og til barnmargra fjölskyldna

Í bókun Bjargar kemur einnig fram að í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kjörtímabilið 2022-2026 sé að finna þann vilja bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hvatapeningar verði þróaðir áfram með þeim hætti að hærri greiðslur verði innleiddar fyrir tekjulágar fjölskyldur og þær sem hafa fleiri en eitt barn á framfæri. ,,Sú vinna er nú þegar hafin, hvatapeningar voru hækkaðir í 55.000 kr. fyrir árið 2023, og nú eru til skoðunar ýmsar leiðir og útfærslur á kerfinu með það fyrir augum að koma til móts við tekjulægri og barnmargar fjölskyldur í bænum. Afar mikilvægt er að vel takist til þannig að hvatapeningakerfið komi raunverulega til stuðnings þeim fjölskyldum sem mest þurfa á því að halda. Í því samhengi er mikilvægt að horfa til samstarfs við félögin í bænum hvað varðar samspil hvatapeninga og æfingagjalda, auk þess sem að vel ígrunduð kostnaðargreining þarf ætíð að liggja fyrir.“

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltúri Garðabæjarlistans lagði þá til breytingu á tillögu Garðabæjarlistans þannig að í stað þess að skipa starfshóp yrði íþrótta- og tómstundaráði falið við að meta kosti við ívilnanir vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna út frá fýsileika, áhrifum og kostnaði.

Tillagan með áorðinni breytingu var samþykkt samhljóða af öllum bæjarfulltrúum.

Forsíðumynd: Harpa Þorsteinsdóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar