Nú geta íbúar í Garðabæ sent upplýsingar um það sem betur má fara í umhverfinu í bænum í gegnum nýjan ábendingavef sem kominn er í loftið og er á heimasíðu bæjarins. Ábendingar sem sendar eru inn í gegnum ábendingavefinn fara beint til Þjónustumiðstöðvar Garðabæjar til úrvinnslu.
Staðsetning á korti og lýsing á því sem þarf að laga
Fyrst þarf að velja staðsetningu á ábendingunni, annað hvort með því að slá inn heimilisfang eða með því að velja staðsetningu á korti. Þá birtast nokkrir valmöguleikar með mismunandi flokkum um hvað ábendingin er og svo þarf að setja inn góða lýsingu á því sem þarf að gera. Einnig er á auðveldan hátt hægt að láta mynd fylgja með til nánari útskýringa.
Tilgangur ábendingavefsins er að auðvelda íbúum að koma ábendingum sínum til skila og einnig að auka upplýsingaflæði til þeirra sem koma með ábendingar þar sem þeir sem senda ábendingar fá upplýsingar í tölvupósti um stöðu þeirra og þegar búið er að vinna úr því sem bent var á.
Flýtileið í ábendingavefinn er aðgengileg af forsíðu vefs Garðabæjar.
Íbúar eru hvattir til að nota sér þessa leið til þess að koma ábendingum til bæjarins.