Ný bæjarstjórn tekin til starfa með konur í meirihluta annað kjörtímabilið í röð

Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar Garðabæjar var haldinn 2. júní sl., en af ellefu bæjarfulltrúum eru sex konur Það er sama hlutfall og var í bæjarstjórn á síðasta kjörtimabili. Kjörtímabilið 2014-2018 voru konurnar í minnihluta eða fimm af ellefu. Kjörtímabilið 2010-2014 voru eingöngu sjö bæjarfulltrúar og af þeim voru aðeins tvær konur.

En á þessum fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar var Sigríður Hulda Jónsdóttir (D) kosin forseti bæjarstjórnar, Guðfinnur Sigurvinsson (D) var kosinn fyrsti varaforseti bæjarstjórnar og Ingvar Arnarsson (G) var kosinn annar varaforseti bæjarstjórnar.

Gunnar Valur Gíslason, sem er aldursforseti þeirra sem eiga að baki lengsta setu í bæjarstjórn, setti fundinn og bauð bæjarfulltrúa velkomna til fyrsta fundar nýkjörinnar bæjarstjórnar Garðabæjar fyrir kjörtímabilið 2022 – 2026 og óskaði þeim til hamingju með kjör þeirra til bæjarstjórnar. Gunnar Valur færði jafnframt fyrrum bæjarfulltrúum þakkir fyrir þeirra störf í þágu samfélagsins og þakkaði þeim samstarfið.

Bæjarstjórn Garðabæjar 2022-2026 er skipuð 11 fulltrúum. Í kosningum í maí 2022 voru eftirtaldir fulltrúar kjörnir í bæjarstjórn:

Almar Guðmundsson (D)
Björg Fenger (D)
Sigríður Hulda Jónsdóttir (D)
Margrét Bjarnadóttir (D)
Hrannar Bragi Eyjólfsson (D)
Gunnar Valur Gíslason (D)
Guðfinnur Sigurvinsson (D)
Þorbjörg Þorvaldsdóttir (G)
Ingvar Arnarson (G)
Sara Dögg Svanhildardóttir (C)
Brynja Dan Gunnarsdóttir (B)

Meirihluti bæjarstjórnar 2022-2026. F.v. Margrét, Hrannar Bragi, Sigríður Hulda, Almar, Björg Fenger, Guðfinnur og Gunnar Valur.
Minnihluti bæjarstjórnar 2022-2026. F.v. Þorbjörg, Ingvar, Sara Dögg og Brynja Dan.

Bæjarstjórnarfundir opnir almenningi

Bæjarstjórn fer með stjórn bæjarins samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Hún fer með yfirstjórn stofnana og fyrirtækja á vegum bæjarins, að svo miklu leyti sem hún hefur ekki falið hana öðrum. Á meðal annarra verkefna er kosning í ráð og nefndir á vegum bæjarstjórnar, yfirstjórn á fjárreiðum bæjarins, gerð samþykkta og ákvörðun gjalda, eftir því sem lög mæla fyrir um og þörf krefur.

Fundir bæjarstjórnar Garðabæjar eru fyrsta og þriðja fimmtudag hvers mánaðar og hefjast kl. 17.
Fundir bæjarstjórnar eru haldnir í Sveinatungu, fundarsal bæjarstjórnar á Garðatorgi 7.

Fundir bæjarstjórnar eru öllum opnir og eru þeir jafnframt í beinni útsendingu á vef Garðabæjar. 

Forsíðumynd er af bæjarstjórn Garðabæjar 2022-2026 ásam Guðjóni Erlingi Friðrikssyni, bæjarritara sem er lengst til hægri á myndinni.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar