Bera ábyrgð á framkvæmd faglegs leikskólastarfs í leikskólanum Urriðabóli

Garðabær og Skólar ehf hafa gert með sér samning um rekstur leikskólans Urriðabóls við Kauptún í Garðabæ. Samningurinn er til þriggja ára og í honum er kveðið á um að Skólar ehf. bera ábyrgð á framkvæmd faglegs leikskólastarfs samkvæmt aðalnámskrá leikskóla, lögum og reglugerðum ásamt rekstrarþáttum tengdum leikskólastarfinu.

Leikskólinn Urriðaból tekur til starfa haustið 2022 og verður fyrst um sinn staðsettur við Kauptún í húseiningum sem er verið að reisa á staðnum. Urriðaból í Kauptúni verður 6 deilda leikskóli fyrir rúmlega 90 börn og er undanfari nýs leikskóla sem verður byggður við Holtsveg í Urriðaholti. Garðabær reisir húsnæði leikskólans við Kauptún og skóflustunga að nýja leikskólanum við Kauptún var tekin 5. maí sl. Stærð lóðarinnar í Kauptúni er um 5.000 m2 með bílastæðum, heildarstærð húsnæðis er um 931,1 m2.

Skólar ehf leggja áherslu á heilsueflandi skólastarf

Skólar ehf er liðlega 20 ára fyrirtæki sem er í dag að reka fjóra heilsuleikskóla, Heilsuleikskólann Krók í Grindavík, Heilsuleikskólann Kór í Kópavogi, Heilsuleikskólann Skógarás í Reykjanesbæ og Heilsu-ungbarnaskólann Ársól í Reykjavík. Allir leikskólar Skóla ehf starfa samkvæmt Heilsustefnu, sem kennd er við Unni Stefánsdóttur, og hafa auk þess tekið virkan þátt í þróun verkefnisins Heilsueflandi leikskóli í samvinnu við Embætti landlæknis. Skólar eru stærsti einstaki rekstraraðilinn innan Samtaka heilsuleikskóla og jafnframt einn af stofnaðilum Samtaka sjálfstæðra skóla (SSSK). Skólar ehf stefna að því að verða leiðandi í þekkingu og aðferðarfræði heilsueflandi leikskólastarfs með heilsu og lífsgæði nemenda, starfsfólks og nærsamfélagsins að leiðarljósi.

Íbúar í Urriðaholti verða um 4.500

Árið 2021 var haldin hönnunarsamkeppni um byggingu á nýjum leikskóla í Urriðaholti við Holtsveg og byggingarframkvæmdir við þann skóla hefjast á þessu ári. Vegna mikillar fjölgunar barna á leikskólaaldri í Urriðaholti var ákveðið að brúa bilið þar til leikskólinn rís við Holtsveg og hefja starf leikskólans í einingahúsum sem nú rísa við Kauptún fyrir neðan Urriðaholtið.

Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem íbúðabyggð er í örum vexti. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert er ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt. Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring.

Mynd: Undirritun samnings um rekstur leikskólans Urriðabóls. Frá vinstri: Kristín Margrét Baranowski rekstrarstjóri Skóla, Guðmundur Pétursson framkvæmdastjóri Skóla, Gunnar Einarsson þáverandi bæjarstjóri Garðabæjar og Kristjana F Sigursteinsdóttir formaður leikskólanefndar Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar