Mun skipta mig, konuna mína og börnin mín máli

Samstarfssamningur á milli Garðabæjar og Samtakanna ´78 um þjónustu Samtakanna ´78 við sveitarfélagið Garðabæ almanaksárin 2022-2024 var samþykktur á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku og í gær var skrifað undir samninginn. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans ræddi samstarfssamninginn á fundinum og lagði fram eftirfarandi bókun.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Aldrei verið eins mikilvægt að standa með hinsegin fólki

„Það hefur aldrei verið eins mikilvægt að standa með hinsegin fólki. Þessi samningur sem við samþykkjum hér í dag er stórmerkilegur áfangi og mun skipta svo margt fólk svo miklu máli í sveitarfélaginu okkar. Aukin fræðsla innan skólanna og sveitarfélagsins alls mun skipta mig, konuna mína og börnin mín máli. Það sama má segja um allt annað hinsegin fólk hér í bænum og ástvini þeirra.
Að Garðabær taki sér stöðu með mannréttindum hinsegin fólks á svona afgerandi hátt með þessum glæsilega samningi er jákvætt fyrir allt okkar samfélag. Við getum verið ótrúlega stolt af því að hafa lent þessu máli saman – þvert á flokka. Eftir því hefur verið tekið og það sendir skýr skilaboð um það hvar við stöndum sem bæjarfélag.“

Forsíðumynd. Skrifað var undir samstarfssamning á milli Garðabæjar og Samtakanna ´78 í gær. F:v. Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi, Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi, Almar Guðmundsson, bæjastjóri, Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78, BJörg Fenger, formaður bæjarráðs og Guðfinnur Sigurvinsson.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar