Óvissa um efnahags- og kjaramál hefur áhrif á fjárhagsáætlanagerð Garðabæjar

Frumvarp að fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023 var lagt fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Garðabæjar í lok síðustu viku. Samhliða áætlun næsta árs var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2024, 2025 og 2026. Síðari umræða um fjárhagsáætlun verður í bæjarstjórn Garðabæjar 1. desember 2022.

Við gerð fjárhagsáætlunar að þessu sinni ríkir meiri óvissa um framvindu efnahags- og kjaramála en staðið hefur verið frammi fyrir í áraraðir. Verðbólga á heimsvísu hefur verið hærri en þekkst hefur í langan tíma og Ísland er ekki nein undantekning þar á.

Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta verði neikvæður um 270 m.kr. en jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðureiknings (A og B hluta) um 498 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 2.354 m.kr. hjá A sjóði og 3.332 m.kr. í samstæðureikningi.

Skuldir hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum

Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk, skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum.

Áætlað að framkvæma fyrir 5.800 milljarða árið 2023

Framkvæmdir eru áætlaðar 5.800 millj. árið 2023. Stóraukin áhersla verður lögð á endurbætur húsnæðis og eins er gert ráð fyrir miklum nýframkvæmdum, m.a. við Urriðaholtsskóla, nýjan leikskóla í Urriðaholti og nýjan búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Brekkuás.

Ábendingar íbúa teknar til skoðunar milli umræðna

Leitað hefur verið til bæjarbúa með ábendingar um fjárhagsáætlunargerðina eins og undanfarin ár. Opið var fyrir íbúa að skila inn ábendingum í gegnum samráðsgátt á tímabilinu 23. september til og með 3. nóvember. Á fimmta tug ábendinga bárust og nálægt 500 íbúar skráðu sig inn á samráðsgáttina þar sem þeir gátu sett inn rök með ábendingum eða líkað við ábendingar og hugmyndir í tengslum við fjárhagsáætlunina. Allar ábendingar íbúa verða teknar til skoðunar á milli umræðna um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn Garðabæjar.

Skoða lækkun á fasteignaskatti

Meðal annarra mála sem eru til skoðunar og umfjöllunar milli umræðna eru staðgreiðsluáætlun útsvars með tilliti til íbúafjölgunar, gjaldskrárhækkanir, tekjur af byggingarrétti, lækkun fasteignaskatta vegna mikillar hækkunar fasteignamats, óskir sviðsstjóra um viðbætur og tillögur um hagræðingu, óskir um stöðugildaaukningu og mál sem vísað hefur verið til fjárhagsáætlunargerðar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar