Meðlimum fjölgað úr 241 í 2700 – 30 ár liðin frá stofnfundi GKG

Síðastliðinn sunnudag voru 30 ár liðin frá stofnfundi Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG), sem haldinn var í Garðalundi árið 1994, en formlegar viðræður um sameiningu Golfklúbbs Garðabæjar og Golfklúbbs Kópavogs hófust í desember 1993.

Það voru fulltrúar klúbbanna og fulltrúar í bæjarstjórnum Garðabæjar og Kópavogs sem tóku þátt í viðræðunum, sem leiddu fljótt til niðurstöðu, að hagkvæmt væri fyrir klúbbana að sameinast, enda höfðu verið fjárhagslegir erfiðleikar hjá báðum klúbbum, en Golklúbbur Garðabæjar var stofnaður árið 1986 og Golfklúbbur Kópavogs fjórum árum síðar, árið 1990. Í dag eru 2623 klúbbfélagar í GKG og þar af eru börn og unglingar 808.

Garðapósturinn/Kópavogspósturinn heyrði hljóðið í Agnari Má Jónssyni, framkvæmdastjóra GKG og spurði hann í stuttu máli um þennan merka 30 ára áfanga, en nánari umfjöllun verður um afmælisbarnið, GKG, þegar nær er sumri.

Agnar Már framkvæmdastjóri GKG

Agnar Már tók við sem framkvæmdastjóri GKG um mitt sumar 2012 og hann var spurður að því hvernig afmælisbarninu liði á sínu þrítugasta afmælisári? ,,Afmælisbarninu líður vel takk fyrir. Reksturinn gengur vel, við erum með hæfilegan fjölda meðlima í klúbbnum og GKG andinn svífur yfir völlum og Íþróttamiðstöð.” 

Vildu ekki stofna hefðbundinn golfklúbb

Var þetta stórt og heilvænlegt skref þegar klúbbarnir tveir voru sameinaðir í GKG fyrir 30 árum? ,,GKG var stofnaður fyrir 30 árum þegar Golfklúbbur Kópavogs og Golfklúbbur Garðabæjar sameinuðust undir merkjum GKG.  Ég held að það hafi tvennt skipt miklu máli varðandi þessa sameiningu. Annars vegar voru tveir klúbbar að sameinast sem voru með tvö sveitafélög á bakvið sig. Hitt sem var algjört lykilatriði var að þeir sem komu að stofnun klúbbsins vildu ekki stofna hefðbundinn golfklúbb heldur íþróttafélag með áherslu á barna-, unglinga og afreksstarf. Okkur hefur borið gæfa til að viðhalda þessari stefnu sem hefur leitt af sér að hér hefur myndast mikil fjölskyldustemning og ekkert óalgengt að sjá þrjá ættliði spila saman á vellinum,” segir Agnar.

Og það má segja að afmælisbarnið hafi dafnað og vaxið vel á þessum 30 árum? ,,Á þessum 30 árum hefur meðlimum fjölgað úr 241 upp í 2.700 og golfholurnar hefur verið fjölgað úr 9 í 27. Það var svo mikil bylting þegar byggðum Íþróttamiðstöðina árið 2016 og bjóðum nú félagsmönnum upp á þann möguleika að leika golfíþróttina vetur, sumar vor og haust. Við rekum samtals 22 golfherma allir af Trackman gerð.”

Enginn golfklúbbur í heimi með jafn fjölmennt barna- og unglingastarf

Og þið hafið undanfarin ár lagt mikið bæðu upp úr barna- og unglingastarfi, enda með fjölmennasta unglingastarf- ið á landinu er kemur að golfi og svo hefur félagið einnig staðið framarlega er kemur að afreksstarfi? ,,Þessi stefna okkar að horfa frekar á okkur sem íþróttafélag en hefðbundinn golfklúbb hefur leitt það af sér að barna- og unglingastarfið   hefur vaxið og dafnað í gegnum árin. Um 800 börn og unglingar nýta sér þjónustu GKG í dag og erum við með langstærsta barna- og unglingastarfið á Íslandi. Ef við horfum til hinna norðurlandanna þá er sá golfklúbbur sem er með mesta barnastarfið með um 230 aðila og þrátt fyrir töluverða eftirgrennslan höfum við ekki fundið neinn golfklúbb í heiminum sem er með sama fjölda og við,” segir hann.

Guðmundur Oddsson formaður GKG og Gunnlaugur Sigurðsson fyrrverandi formaður klúbbsins tóku fyrstu skóflustungu að Íþróttamiðstöð GKG. Þeim til halds og trausts voru bæjarstjórar Kópavogs og Garðabæjar þeir Ármann Kr. Ólafsson og Gunnar Einarsson. Fyrir miðju er framkvæmdastjóri GKG Agnar Jónsson.

En hvað með framtíð GKG, völlurinn er 27 holu völlur, en það stendur til að stækka hann og bæta aðstöðuna enn frekar? ,,Það er mikið framundan hjá okkur því Garðabær er að endurskipuleggja svæðið í kringum völlinn okkar. Það er ljóst að Mýrin mun á næstu árum breytast í æfingasvæði og við munum byggja nýj-an 9 holu golfvöll sem mun liggja sunnan megin við Íþróttamiðstöðina. Leikið verður meðfram Vífilsstaðavatni upp að Leirdalsopi og til baka. Þessi áform eru ennþá á teikniborðinu og munu hlutirnir skýrast þegar Garðabær líkur skipulagsferlinu sem vonandi verður á þessu ári. Eins þurfum við að byggja nýja þjónustumiðstöð fyrir golfvellina okkar og er sama upp á teningnum þar, verið er að skipuleggja og ljóst að sveitafélögin þurfa að koma myndarlega að þessum framkvæmdum og höfum við verið í þéttu sambandi við þau.”

Þetta er merkur áfangi, 30 ára afmæli, en partíið verður þó eitthvað lágstemmt  eða verður gert eitthvað af þessum tilefni á árinu? ,,Við stefnum að því að halda upp á afmælið okkar með ýmsum hætti í ár. Við erum með tvær ferðir erlendis núna í vor og haust þar sem félagsmenn flykkjast í golfferðir með okkur. Við verðum með kynningardag núna í vor sem verður með afmælisbrag. Svo munum við gera Meistaramótið okkar með veglegri hætti en áður og má segja að það verði hápunkturinn á þessu afmælisári okkar.”

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar