Markmiðið að sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings

Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur sent Garðabæ bréf þar sem athygli er vakin á Íþróttaviku Evrópu og því beint til sveitarfélagsins að taka þátt, með hvatningu til íbúa um að stunda hreyfingu við sitt hæfi. Í bréfinu kemur fram að hægt er að sækja um styrk vegna þátttöku í verkefninu, en Íþróttavika Evrópu
(European Week of Sport) er haldin á hverju ári frá 23. – 30. september í yfir 30 Evrópulöndum.

Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyf- ingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. Evrópubúar sameinast í vikunni undir slagorðinu #BeActive.

Mikilvægt að fá sem flest sveitarfélög með

,,Líkt og undanfarin ár mun Fræðslu- og almenningsíþróttasvið ÍSÍ í samstarfi við ýmsa aðila halda áfram að efla Íþrótta- viku Evrópu um allt land. Mikilvægt er að fá sem flest sveitarfélög með okkur í lið við það að hvetja landsmenn til að hreyfa sig og finna sér hreyfingu við hæfi sem er í senn skemmtileg. Okkar ósk er að þitt sveitarfélag sjái hag sinn í því að vera með okkur í ár í því að gera Íþróttaviku Evrópu sem glæsilegasta,” segir í bréfinu Markmiðið er m.a að sveitarfélög um allt land bjóði upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá í Íþróttavikunni. Til dæmis ýmis konar kynningar/kennslu/þjáfun, opnar æfinga, fyrirlestra eða annað. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur líkt og síðastliðin ár hlotið styrk í gegnum Erasmus+ styrkjakerfið vegna Íþróttaviku Evrópu og getur Garðabær sótt um 500.000 kr. fjárstyrk til ÍSÍ vegna úrfærslu á þátttöku í íþróttavikunni.

Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að taka þátt í “Íþróttaviku Evrópu” 23.-30. september og sækja um styrk í verkefnið til kynningar á því hvaða aðstaða er í boði fyrir almenning innan bæjarins til almennrar heilsuræktar. Félög og samtök verða einnig hvött til að taka þátt í hreyfivikunni með því að bjóða opna viðburði fyrir almenning og kynna sína starfsemi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar