Fótboltaland er einstakt á heimsvísu og klárlega eitthvað sem allir ættu að prófa

Knattspyrnuunnendur, sama á hvaða aldri þeir eru, geta heldur betur glaðst því í byrjun júní opnaði Fótboltaland í Vetrargarðinum í Smáralind, sem einn glæsilegasti skemmtigarður landsins með mikinn fjölda stafrænna tækja og þrauta sem tengjast fótbolta. Í Fótboltalandi reynir á knattspyrnuhæfni þátttakanda, en um 20 mismunandi þrautabrautir eru í boði og er þeim skipt í keppnisbrautir og skemmtibrautir, svo þetta þarf ekki endilega að vera keppni.

Reynir Gannt Joensen er fyrirliði Fótboltalands og Kópavogspósturinn spurði hann hvernig það hafi komið til að þeir ákváðu að opna Fótboltaland? ,,Það er mikill eftirspurn eftir skemmtun sem fjölskyldur og vinahópar geta komið saman. Jafnframt er þetta eitthvað sem vonandi fær kynslóðir til að koma saman og skemmta sér því hér skiptir ekki máli hvaða aldur þú ert, það geta allir keppt saman. Við þurfum fleiri stundir saman þar sem við getum hvílt símann, haft gaman saman og ekki verra að allir geta séð strax sín stig og hvernig þeim er að ganga innan síns hóp,” segir Reynir.

Reynir Gannt Joensen fyrirliði Fótboltalands

Og þið eruð með 20 mismunandi þrautabrautir í garðinum sem er skipt upp í bæði keppnisbrautir og þrautabrautir – hvernig brautir eru þetta, við hvað eru þátttakendur að takast á við? ,,Við erum m.a. með tæki frá ESA sem er fyrirtæki sem framleiðir æfingatæki fyrir marga af stærstu klúbbum heims. Sum tækin frá þeim voru sérframleidd fyrir okkur en önnur voru hönnuð sem æfingartæki. T.d. Hringurinn eða “Icon pass-ing” er tæki sem margir af stærstu klúbbunum nota og getur fólk borið sig saman við leikmenn eins og Zlatan Ibrahimovic og Ronaldo sem er einmitt á leiðinni hingað að keppa á móti Íslandi. Hann á toppskorið í því. Við erum með 7 tæknibrautir, þær eru, veggurinn, kassinn, karfan, hraðinn, markið og sláin ásamt hringnum en þetta eru allt tæki sem þú ferð einn inn í og reynir að fá sem hæst stig á 20-40 sekúndum. Svo erum við með skemmtibrautir en þar geta fleiri keppt saman eins og t.d. fótboltaborðtennis, fótboltatennis, 8 og 4 manna foosball, fótboltaborð, 2 mini vellir og eitt vinsælasta tækið er fótboltapool en í þeim telur þú stigin sjálfur ef þú vilt. Einnig erum við með playstation herbergi þar sem hægt er að spila Fifa.”

Og verða gestir að kunna eitthvað í fótbolta eða geta allir tekið þátt og jafnvel óháð aldri? ,,Það er einmitt málið að við viljum fá alla hérna. Tækin miðast við 7.ára og eldri en auðvitað geta yngri krakkar komið með fullorðnum og upplifað þessa skemmtun með foreldrum sínum. Það sem er svo skemmtilegt við Fótboltaland er að við erum með mörg mismunandi tæki og það hefur sýnt sig að þú þarft ekki einu sinni að stunda neina íþrótt til að fara í tækin og hafa gaman af þessari skemmtun. Þú þarft alls ekki að vera góður í fótbolta né æfa fótbolta til að hafa gaman. En tækin eru auðvitað sett upp þannig að ef þú ert með góða fótboltatækni þá eru meiri líkur á hærri stigum,” segir hann.

En gestir geta sem sagt valið um hvort tveggja, að koma með keppnisskapið í keppnisbrautirnar eða bara notið þess í þrautabrautunum? ,,Já, flestir fara í bæði en þú stjórnar ferðinni alveg sjálfur þegar inn er komið.”

En hvernig halda þátttakendur utan um stigin sín, allt skrifað niður? ,,Í skemmtibrautunum telur fólk stigin sín sjálf en í tæknibrautunum færðu stigin þín upp á skjá. Þar sérðu einnig toppskor dagsins á skjá hjá hverju tæki fyrir sig og svo erum við með samanlagt toppskor mánaðarins og toppskor frá upphafi á öðrum skjám. Svo erum við að þróa að að þú getir séð toppskorið þitt yfir daginn á skjá ásamt stigasöfnun innan þíns hóps og svo verður hægt að ná í forrit í símann þar sem þú getur séð alla stigasöfnun þína og hvernig þú ert búinn að bæta þig,” segir Reynir.

Og til að spila í Fótboltalandi þarf að stofna aðgang fyrir hvern spilara, er það gert á staðnum eða áður en gestir mæta? ,,Já þú stofnar sem sagt aðgang áður en þú mætir eða á staðnum áður en þú ferð inn en það tekur enga stundað gera. Þú færð þá nafn þitt upp á skjá þegar þú ert að spila og inn á topplista ef þú nærð mörgum stigum. Svo verður hægt að nálgast alla stigasöfnun þína í appi frá ESA og sjá bætingu.”

Og er ekki tilvalið fyrir unga og efnilega knattspyrnumenn að koma og æfa sig? ,,Ekki spurning! Þú sérð að nú þegar eru atvinnumenn að nýta sér þetta svo þetta er kjörið fyrir unga og efnilega knattspyrnumenn og konur. Eins og kom fram hér áðan þá verður hægt að ná sér í forrit þar sem það verður haldið utan um stigasöfnun þína og þú sérð hvernig þú ert búinn að bæta þig.”

Þetta er svo eðlilega skemmtilegt hópefli eða afþreying fyrir hópa og fyrirtæki að mæta í Fótboltaland eða fyrir afmælisveislu? ,,Nú þegar er Fótboltaland orðið gríðarlega vinsælt fyrir barnaafmæli, allra handa vinahópum í happy hour, hópefli frá fyrirtækjum og íþróttafélögum ofl. Þannig að svona aðstaða sem getur tekið á móti nánast hvernig hópum sem er hefur klárlega vantað á markaðinn. Við erum mjög spennt að taka móti fleirum sem vilja gera sér glaðan dag hér í Fótboltalandi. Við bjóðum upp á alls konar tilboð, afmælistilboð og hópatilboð með og án veitinga svo allir ættu að geta fundið eitthvað sér við hæfi. Eins höfum við frábæra aðstöðu í samstarfi við Smárabíó að bjóða upp á fleira eins og Lasertag, leiktækjasal, karaoke, sérsýningar í bíó og fleira og fleira.”

Og svo ætlið þið að bjóða upp á Fótboltalandsnámskeið í sumar, hvernig virkar það? ,,Fótboltalands námskeiðin eru frábær skemmtun fyrir alla krakka sem hafa áhuga á fótbolta. Þau byrja 17. júlí og verða eitthvað fram í ágúst. Hvert námskeið er vikulangt eða frá mánudegi til föstudags og frá 8:30-12:00. Þá verður einnig leikjanámskeið hjá Smárabíó eftir hádegi svo það er hægt að vera á námskeiði hjá okkur yfir allan dagin. En á námskeiðum Fótboltalands verður lögð áhersla á að efla færni og snerpu ásamt leik og skemmtun. Æft verður í hinum ýmsum tækjum Fótboltalands sem eru mörg hver hönnuð og notuð fyrir stærstu fótboltaklúbba Evrópu. Öll börn fá mælingu í upphaf námskeiðs og í lokin til að sjá sinn einstaklings miðaða árangur. Allir daga byrja á þjálfun og enda í hinum ýmsum leikjum. Sem dæmi má nefna lasertag, leiktækjasal, bíóferð og pizzuveisla í lokin.”

Og svo það er frábær stemmning í Fótboltalandi? ,,Fótboltaland er einstakt á heimsvísu og klárlega eitthvað sem allir ættu að prófa. Héðan fara allir með stórt bros á vör. Ungir sem aldnir, áhugamenn sem atvinnumenn. Hér er gaman að vera, njóta og leika,” segir Reynir fyrirliði að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar