Manfreð Vilhjálmsson ánafnar Hönnunarsafni Íslandsteikningar sínar til varðveislu

Í síðustu viku skrifaði Manfreð Vilhjálmsson, arkitekt, undir gjafabréf þar sem hann ánafnaði Hönnunarsafni Íslands teikningar sínar til varðveislu.

Viðstödd voru börn Manfreðs þau Sólveig, Vilhjálmur Már, Gunnhildur, Sigurjón Már og Valdís Fríða. Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður safnsins tók við gjafabréfinu.

Til gamans má geta þess að stóllinn á myndinni hér fyrir neðan er eftir Manfreð og er hluti af fastri sýningu safnsins, Hönnunarsafnið sem heimili. Hann hentaði til dæmis einstaklega vel þegar skrifað var undir gjafabréfið.

Hefur markað djúp spor í sögu arkitektúrs

Manfreð hlaut heiðurverðlaun Miðstöð hönnunar og arkitektúrs árið 2019. Þar segir í texta dómnefndar: ,,Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hefur markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi. Einstakur starfsferill sem spannar yfir 60 ár endurspeglar áræðni í fjölbreyttum verkefnum og metn- aðarfulla listræna og faglega sýn. Eftir Manfreð liggur fjöldi tímamótaverka sem bera vott um einstaka hæfni til að takast á við margvíslegar áskoranir staðhátta og uppbyggingar í ungu samfélagi.

Meðal tímamótaverka Manfreðs má nefna afgreiðslustöðvar Nestis við Elliðaár (1957, nú rifin) en val og meðhöndlun byggingarefnis var eitt helsta nýnæmið í hönnun þessara bygginga. Einnig eigið íbúðarhús á Álftanesi, Smiðshús sem Manfreð vann að í samstarfi við Guðmund Kr. Kristinsson, þar sem áhersla var lögð á léttleika í uppbyggingu og opna rýmisskipan. Við hönnun þjónustubygginga Tjaldstæðis í Laugardal var spunnið í kringum menningararfinn og hann útfærður með nýjum byggingafræðilegum lausnum á eftirtektarverðan hátt.
Skipulag Fossvogsbyggðar (1966), unnið í samstarfi við Guðmund Kr. Kristinsson og Gunnlaug Halldórsson, sem einkennist af lágreistri byggð í tengslum við grænt umhverfi dalsins er áhrifamikið fyrir borgarumhverfið. Þjóðarbókhlaðan sem hýsir lands- og háskólabókasafn, unnin í samstarfi við Þorvald S. Þorvaldsson er með glæsilegri opinberu byggingum í borgarlandslaginu.”

Forsíðumynd: Manfreð og Sigríður ásamt börnum Manfreðs á Hönnunarsafni Íslands

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar