Garðabær hélt fjölmennan foreldra- og forráðamannafund sl. mánudag þar sem farið var yfir leikskólamálin, en Garðabær mun úthluta 70 leikskólaplássum í marsmánuði og 250 leikskólaplássum í aprílmánuði. Þessi pláss byggja á þeirri mönnun sem þegar er til staðar í leikskólum bæjarins.
Alls er því um að ræða 320 leikskólapláss á tímabilinu mars og fram í ágúst.
Um biðlista
Biðlistinn raðast eftir fæðingardegi barns. 219 börn eru á biðlista eftir plássi, en listinn er mjög breytilegur og tekur mið af því hversu mörg börn verða 12 mánaða gömul í hverjum mánuði.
Á biðlista hversleikskóla eru börn sem eru að bíða eftir dvöl í Garðabæ og börn sem hafa sótt um flutning á milli leikskóla í Garðabæ.
Innritun í mars
Í marsmánuði munu 45 börn fá boð um leikskólapláss samkvæmt aldursröð. Þá verður 25 börnum sem beðið hafa í sex mánuði eða lengur boðið pláss í leikskóla (hefja leikskóladvöl í vor) samkvæmt sérstakri ákvörðun Bæjarráðs. Alls verður því 70 börnum boðin dvöl í laus leikskólapláss í marsmánuði og dvöl á leikskóla hefst á tímabilinu mars-maí. Foreldrar á þessum lista fá símtal í þessari viku (vikuna 18. mars) og eru beðnir um að staðfesta leikskólapláss innan fimm daga samkvæmt innritunarreglum. Ef fólk vill bíða eftir fyrsta vali, er næsta barni á lista boðið pláss.
Innritun í apríl
250 leikskólaplássum verður úthlutað í apríl. Dagana 4.-11. apríl bjóða leikskólar áfram börnum fæddum 2022 og fyrr leikskólapláss frá ágústmánuði.
Börn fædd á fyrri hluta 2023 fá einnig boð. Biðlisti verður frystur 1. apríl í allt að 30 daga til að hægt sé að vinna úr umsóknum.
Næstu dagsetningar
- Dagana 7.-14. maí bjóða leikskólar börnum fæddum í ágúst 2023 og fyrr leikskólapláss frá hausti.
- Í ágúst bjóða leikskólar börnum af virkum biðlista í þau pláss sem standa til boða t.d. börn fædd fyrir ágúst 2023 sem hafa komið síðar inn á biðlista. Farið verður neðar á biðlistann eftir því sem mönnun leyfir.
Leikskólar í Garðabæ
Töluverðar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum mánuðum til að styrkja umhverfi leikskólanna. Þar má helst nefna byggingu nýrra leikskóla, breytingar á lengd dvalar, á opnunartíma og nú er lengra páskafrí á döfinni. Með breyttu starfsumhverfi leikskólanna er mörkuð leiðin að fjölgun starfsfólks þannig að allir leikskólar verði fullmannaðir.
Garðabær býr að sterkum mannauði í leikskólum og þar er hátt hlutfall fagfólks. Garðabær er um þessar mundir í sérstakri ráðningarherferð, en vert er að hafa í huga að allar stöður í leikskólum hafa verið auglýstar án undantekningar.
Forsíðumynd: Leikskólabörn sungu fyrir gesti þegar leikskólinn Urriðaból í Urriðaholti var vígður á dögunum