Sigurður Reynir Gíslason er Eldhugi Kópavogs 2024

Á hverju ári útnefnir Rótarýklúbbur Kópavogs Eldhuga Kópavogs. Um er að ræða einstakling, sem hefur skarað fram úr á sínu sviði og þykir hafa haft mikil áhrif á samfélagið og á fundi félagsins þann 12. mars sl. var Sigurður Reynir Gíslason, rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands valinn Eldhugi Kópavogs 2024.

Sigurður Reynir er rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands. Hann er stúdent frá Menntaskólanum við Tjörnina 1977, jarðfræðingur frá Háskóla Ísland 1980, og varði doktorsritgerð sína í jarðefnafræði við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum árið 1985.

Yfir 200 vísindagreinar hafa verið birtar eftir Sigurð Reyni

Guðmundur Jens Þorvarðarson, formaður Viðurkenningarnefndar Rótarýklúbbs Kópavogs fór í stuttu máli yfir feril Sigurðar á fundinum: ,,Hann hefur starfað við Háskóla Íslands frá 1985. Hann er einn af stofnendum og stjórnendum Carbfix verkefnisins frá 2005-2020. Auk þess sem hann hefur stundað rannsóknir á árvatni og umhverfisáhrifum eldgosa. Hann hefur m.a. rannsakað eldfjallaösku og eiginleika hennar og kom Eyjafjallagosið þar sterkt inn. Birtar hafa verið yfir 200 vísindagreinar í alþjóðlegum vísindatímaritum eftir hann, ásamt samstarfsmönnum og gefnar hafa verið út tvær bækur. Sú fyrri, Kolefnishringrásin, var gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2012.

Hann var forseti Jarðefnafræðisamtaka Evrópu árin 2019-2020. Árið 2018 var hann kjörinn Geochemical Fellow bandarísku og evrópsku jarðefnafræðisamtakanna og á sama ári hlaut hann „The C.C Patterson Award“ frá Jarðefnafræðisamtökum Bandaríkjanna fyrir tímamótarannsóknir í jarðefnafræði, sem eru mikilvægar fyrir umhverfi og samfélag manna á jörðinni. Sigurður fékk verðlaunin fyrir rannsóknir og bindingu koltvíoxíðs í bergi og á áhri eldgosa á umhverfi.

Í ársbyrjun 2020 sæmdi forseti Íslands hann Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

Sigurður er hreinræktaður Skaftfellingur, föðurættin frá Þykkvabæjarklaustri, og móðurættin frá Reyni í Mýrdal. Hann er fæddur í Reykjavík, bjó þar á ýmsum stöðum til 1980. En þá fluttist hann til Bandaríkjanna, til frekara náms. Við heimkomuna haustið 1985 hóf hann búskap með konu sinni Málfríði Klöru Kristiansen arkitekt að Digranesvegi 66 í Kópavogi í húsi afa og ömmu Málfríðar, en þau voru Frímann Jónasson, skólastjóri Kópavogs- skóla og Málfríður Björnsdóttir kennari. Börn Sigurðar og Málfríðar eru Anna Diljá Sigurðardóttir upplýsingahönnuður og Birnir Jón Sigurðsson, rithöfundur og leikstjóri.

Nokkrir félagar í Rótarýklúbbi Kópavogs hlýða á erindi Sigurðar

Aðeins nánar um Carbfix verkefnið

Carbfix-verkefnið hófst formlega í lok september 2007 eftir tveggja ára undirbúning. Markmiðið var að þróa leiðir til þess að fanga koltvíoxíð úr útblæstri orkuvera eða beint úr andrúmslofti og binda það í bergi, svokölluðu basalti, en Ísland er að mestu úr basalti. Rannsóknir og tilraunir hafa sýnt að þær aðferðir sem notaðar eru í verkefninu virka og eru nú bæði koltvíoxíð og brennisteinsvetni fönguð og steingerð við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavalla- virkjun. Þessi binding kolefnis í bergi er nú kölluð Carbfix aðferðin. Nýsköpunarfyrir-tækið Carbfix var stofnað í lok árs 2019. Það er leitt af fyrrverandi Carbfix doktorsnemum og nýdoktorum og hefur tryggt fjármagn í fjölmörg Carbfix verkefni, það stærsta þeirra er í nú undirbúningi í Straumsvík.

Við vitum öll hversu þýðingar mikið það er fyrir mannkynið og umhverfi þess að binda koltvíoxið úr andrúmsloftinu.”

https://www.sigurdur-gislason.com/

Forsíðumynd: Sigurður Reynir Gíslason, Eldhugi Kópavogs 2024, fyrir miðju ásamt forseta Rótarýklúbbs Kópavogs, Hafsteini Skúlasyni til vinstri og Guðmundi Jens Þorvarðarsyni formanni Viðurkenningarnefndar rótarýklúbbsins

Sigurður Reynir ásamt eiginkonu sinni Málfríði Klöru Kristiansen

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar