Lilja Lind Pálsdóttir

Garðar Grásteinn – kynning á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ 5. mars nk.

Hver ert þú og hvaða sæti sækist þú eftir?

Ég heiti Lilja Lind Pálsdóttir og er 36 ára og óska eftir stuðningi í 6. sætið. Ég er uppalin í Garðabænum, á eina stelpu og saman búum við í Akrahverfinu. Ég gekk í grunn- og framhaldsskóla í Garðabæ, stundaði íþróttir með Stjörnunni og enn í dag tek ég virkan þátt í starfi félagsins.
Ég starfa sem sérfræðingur í lífeyrismálum hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ég er öflugur liðsfélagi, hörku dugleg og finnst mikilvægt að ungt fólk taki virkan þátt í mótun samfélagsins og skapi þannig farsælt samfélag fyrir alla bæjarbúa.

Af hverju býður þú þig fram?

Ég býð mig fram vegna þess að áhuginn á nærsamfélaginu hefur aukist eftir því sem ég varð eldri og ekki síst eftir að ég varð foreldri. Eins og ég nefndi hér að ofan þá tel ég mikilvægt að ungt fólk taki þátt í mótun samfélagsins. Fjölskylda mín hefur verið virk í sveitarstjórnarmálum og er ég alin upp við að taka virkan þátt í samfélagslegri umræðu. Sem lítið dæmi um hversu gaman er að geta gefið af sér má nefna þegar ég fékk tækifæri til að fylgja dóttur minni á handboltamót rétt fyrir jólin. Daginn fyrir mót kom upp sú staða að aðstoðarþjálfarinn forfallaðist og ég var því ekki lengi að segja já við aðstoð á mótinu. Það er akkúrat þess vegna sem ég býð mig fram, mig langar að vera meiri þátttakandi í að gera góðan bæ enn betri. Hér er ég uppalin og hér vil ég búa til framtíðar.

Hverjar eru þínar helstu áherslur?

Ég mun leggja áherslu á að Garðabær verði áfram í forystu fyrir fjölskyldur með framúrskarandi leik- og grunnskóla og að fjölskyldur geti gengið að leikskólaplássi vísu við 12 mánaða aldur barna. Einnig er mikilvægt að frístundabíllinn anni þeirri eftirspurn sem skapast með stækkandi bæjarfélagi. Við þurfum að leggja áherslu á að Garðabær verði framtíðarheimili fyrir ungt fólk, fjölskyldur, sem og eldri íbúa og þar þarf bærinn að tryggja fjölbreytta kosti í húsnæðismálum. Við þurfum að tryggja að ungum Garðbæingum gefist tækifæri til að búa áfram í bænum eftir að þeir flytjast úr foreldrahúsum. Eins er mikilvægt að tengja samgöngur við Álftanes og Urriðaholt betur við miðbæinn svo að börn og ungmenni komist á öruggan hátt leiða sinna innan bæjarins.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar