Kósístofur, litríkar kúlur og gæðajazz í Jazzþorpinu 3.-5. maí

Helgina 3. – 5. Maí er komið að því að opna Jazzþorpið í Garðabæ í annað sinn. Tildrög hátíðarinnar voru á þá leið að menningarfulltrúi bæjarins Ólöf Breiðfjörð kom að máli við Ómar Guðjónsson um að taka að sér að stýra jazzhátíð bæjarins á vormánuðum 2023 eins og menningar- og safnanefnd Garðabæjar hafði lagt til. Fljótlega vaknaði hugmynd um að breyta hátíðinni og reyna um leið að ná til sem flestra þannig að allir gætu notið, jafnt börn sem fullorðnir. Eftir vangaveltur um staðsetningu hátíðarinnar varð Garðatorg fyrir valinu og Jazzhátíð Garðabæjar varð að Jazzþorpinu í Garðabæ. Ómar og Ólöf unnu svo ötulega saman að því að þorpið yrði sem best heppnað út frá ýmsum sjónarhornum, gæði viðburða skyldu vera mikil en upplifun afslöppuð í því skyni að sem flestir gætu notið.

Ekki aðeins voru viðburðir Jazzþorpsins einstaklega áhugaverðir heldur vakti mikla athygli hvernig Garðatorgi hafði verið breytt í stað sem minnti á festival-svæði erlendis.

Kristín Guðjónsdóttir upplifunarhönnuður Jazzþorpsins

Sáu strax kostina við Garðatorg

Blaðamaður ákvað því að tala við upplifunarhönnuð Jazzþorpsins, Kristínu Guðjónsdóttur. „Ómar fékk mig til samstarfs við að hanna umgjörð fyrir hátíðina. Það voru hæg heimatökin þar sem ég er systir hans og við Garðbæingar í húð og hár. Jafnframt hef ég komið að rekstri á Garðatorgi síðan 1987 og fannst mér strax spennandi að fá að taka þátt í að breyta torginu í tónleikaþorp. Við sáum strax kostina við Garðatorgið. Torgið er yfirbyggt. Þar skín sólin og vermir upp húsakynnin og þar eru rigningin og rokið ekki að trufla.
Okkur langaði að reyna að búa til afslappaða og hlýlega stemningu þannig að rýmið og tónlistin gætu haldið utan um tónleikagesti. Við fórum á fund með yfirmönnum Góða Hirðisins þeim Rut Einarsdóttur, Sigrúnu Markúsdóttur og Frey Eyjólfssyni um að koma á samstarfi og fá að setja upp eins konar POP-UP markað í Jazzþorpinu. Þau tóku mjög vel í þessa hugmynd. Húsgögnin þeirra og smávaran yrðu hluti af umgjörðinni og myndu verða til sölu í Jazzþorpinu. Ágóðinn af sölunni myndi síðan renna allur til góðgerðamála.“segir Kristín.

Fleiri komu að gerð upplifunar á torginu en Hans Vera listasmiður og hluti af teymi Jazzþorpsins, hjálpaði til við uppsetningu á þorpinu og setti upp ljósmyndasýningu með eigin myndum af jazztónlistarmönnum s auk þess sem hann smíðaði og útbjó skilti og umgjörð veitingasölu þorpsins.
Veitingasalar sáu um að þorpsbúar gætu nært sig á ýmis konar góðgæti hvort heldur var í mat eða drykk. Þar stóðu eigendur þessara veitingasala vaktina sjálfir en þetta voru Mói ölgerðarfélag, Vínstúkan Tíu Sopar, Te og Kaffi og Keli jazzsúpugaur.
Ekki má heldur gleyma Lucky Records sem hélt úti plötusölu í Jazzþorpinu þessa helgi. Verslunareigendur á Garðatogi tóku þátt í hátíðinni með ýmsum hætti og það er sannarlega von okkar að þau taki jafn vel þátt í ár bætir Kristín við.

Það sem sérstaklega vakti gleði og athygli voru pappírskúlur í öllum litum og stærðum sem skreyttu loftin á Garðatorgi og gerðu mikið til að lífga upp á stemninguna. Einnig fékk aðalinngangur inn á torgið sérstaka upplyftingu svo ekki fór fram hjá neinum að það væri eitthvað mikið um að vera á Garðatorgi.

Það var skemmtileg og notaleg stemmning í Jazzþorpinu í fyrra

Fólk vildi kaupa sér minjagripi á hátíðinni í fyrra

Þegar Kristín var spurð um undirbúning næstu hátíðar segir hún: „Ég hef fengið til liðs við mig Höllu Kristjánsdóttur sem er mikill fagurkeri og algjör meistari þegar kemur að uppstillingum og hönnun. Við munum í sameiningu vekja Jazzþorpið af dvala og erum byrjaðar að safna munum úr Góða Hirðinum. Miðað við aðsókn á síðustu hátíð og mikla sölu húsmuna, langar okkur til auka við vöruúrvalið frá Góða Hirðinum. Við reynum að safna hlutum sem passa sem best inn í þessa umgjörð sem Jazzþorpið þarf á að halda til að lifna við. Við ætlum einnig að hafa meira af smávöru til sölu. Við urðum vör við að fólki langaði til að kaupa sér minjagripi á hátíðinni í fyrra og geta um leið látið gott af sér leiða. Yfirmenn Góða Hirðisins sögðu okkur frá því að mörg sveitarfélög og landsbyggðarhátíðir hefðu haft samband og óskað eftir samskonar samstarfi. Þau hafi ákveðið að vera einungis í samstarfi við Jazzþorpið í Garðabæ. Það eru góðar fréttir sem gefa okkur um leið færi á að bjóða þorpsgestum upp á einstaka upplifun sem jazztónlistin og þessir húsmunir ná að skapa saman. Hægt er að segja frá því að fleiri básar munu opna á þessari hátíð fyrir utan Góða Hirðirinn og Lucky Reckords. Gunnar Örn gítarsmiður hefur bæst í hópinn þar sem hann sýnir verk sín. Einnig verður sérstakur antik hljóðfærabás þar sem seld verða valin gömul hljóðfæri með mikla sögu svo eitthvað sé nefnt.

Garðabær er stórhuga þegar að kemur að menningarviðburðum sem þessum og bíður bæjarbúum og öðrum gestum til þessar tónlistar og upplifunarveislu í Jazzþorpinu helgina 3.-5. maí. Aðgangur er ókeypis og dagskráin miðar að því að gestir geti dvalið lengi í þorpinu og tekið alla fjölskylduna með.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar