Knipl, hvað er nú það? Fjölskyldusmiðja í Hönnunarsafninu

Smiðjur fyrir alla fjölskylduna hafa verið fastur liður fyrsta sunnudag í mánuði um nokkurt skeið á Hönnunarsafni Íslands. Fyrsta smiðja haustsins fór fram í byrjun september en þá gerðu þátttakendur sundlaugar undir leiðsögn Ránar Flygenring og var smiðjan mjög vel sótt. Sunnudaginn 2. október klukkan 13 verður allt annarskonar fjölskyldusmiðja á dagskrá en þá mun Kristín Vala Breiðfjörð, formaður Heimilisiðnaðarfélags Íslands, kenna knipl.

Hvað er knipl spyrja eflaust margir og þessu reynir Kristín Vala að svara blaðamanni.
„Knipl er gamalt handverk sem hefur verið stundað á Íslandi síðan á 17. öld en það er talið upprunnið á Ítalíu á 15. öld. Búin er til blúnda úr fínlegum þráðum sem vafðir eru upp á kniplipinna. Farið er eftir munstri sem fest er á kniplbretti, og pinnunum svo brugðið á sérstakan máta. Blúndan sem verður til er fest með títuprjónum á kniplbrettið sem síðan eru fjarlægðir þegar blúndan er tilbúin,“ útskýrir Kristín Vala.

Knipl lítur út fyrir að vera flókið handverk en grunnaðferðin er einföld og geta því allir lært að knipla, sérstaklega krakkar!

Á fjölskyldusmiðjunni í Hönnunarsafninu verður boðið upp á örnámskeið í knipli þar sem þátttakendur læra að knipla einfalda takka-blúndu eins og þekkist á íslenskum þjóðbúningum. Blúnduna má svo nota sem armband eða annað skraut. Kristín Vala mun leiðbeina 8-10 þátttakendum í einu en einnig sýna hvernig flóknari blúnda er búin til með forláta kniplbretti einsog myndin sýnir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar