Gerpla átti 19 fulltrúa í fjórum landsliðum

Góður árangur náðist á Evrópumótinu í hópfimleikum sem fram fór í Lúxemborg um þar síðustu helgi. Ísland sendi til þátttöku fimm lið í jafnmörgum flokkum og átti Gerpla fulltrúa í fjórum liðum.

Kvennalið Íslands

Hörðust var keppnin í kvenna-flokki þar sem fyrirfram var vitað að baráttan yrði á milli Sænska liðsins og þess Íslenska. Íslensku stelpurnar gerðu allt sitt besta til að ná gullinu og geta gengið sáttar frá borði en þær enduðu í 2.sæti með aðeins 1,15 stiga mun eftir mjög harða baráttu og nokkur áföll vegna meiðsla liðs-manna stuttu fyrir mót. Íslenska kvennalandsliðið var skipað iðkendum úr Stjörnunni, Selfoss og Gerplu. Fulltrúar Gerplu voru þær Bryndís Guðnadóttir, Guðrún Edda Sigurðardóttir og Klara Margrét Ívarsdóttir en þær voru allar að keppa í fullorðinsflokki í fyrsta skiptið og má með sanni segja að þær hafi staðist þá prófraun með glæsibrag. Guðrún Edda og Klara voru lykilkonur á trampólíni á meðan að Bryndís lét til sín taka á dýnunni en svo dönsuðu þær allar og geisluðu af glæsileika.

Bryndís í AllStar liði mótsins

Bryndís Guðnadóttir var svo valin í AllStar lið mótsins en valið eru úr öllum keppendum á mótinu. Bryndís var valin í AllStar liðið fyrir glæsilega frammistöðu í æfingum á gólfi. Valdir eru tveir iðkendur í kvennaflokki á hvert af áhöldunum þremur og tveir iðkendur í karlaflokki af áhöldunum þremur samtals tólf kepp-endur af öllum þeim sem tóku þátt á mótinu. Glæsilegur árangur hjá Bryndísi.

Stúlknalið Íslands

Stúlknaliðið var einnig í baráttunni um verðlaun en keppnin var mjög hörð á milli Íslands, Danmerkur og Svíþjóðar. Svo fór að stelpurnar urðu í 3. sæti en þær sýndu frábæra frammistöðu í magnaðri stemmningu. Danir urðu Evrópumeistarar verðskuldað en þær áttu sinn fullkomna dag og sænsku stelpurnar urðu í 2. sæti. Ungu stelpurnar eru reynslunni ríkari og verða hungraðar í eitthvað meira þegar þær mæta næst til leiks á stóra sviðið. Í unglingalið kvenna voru frá Gerplu þær Eva Halldórsdóttir, Guðrún Anna Ingvars-dóttir, Hrafnhildur Tinna Brynjólfsdóttir, Lilja Þórdís Guðjónsdóttir, Sara María Tandradóttir, Sóley Jóhannesdóttir og Sigríður Embla Jóhannsdóttir.

Blandað lið unglinga

Blandað lið unglinga keppti mjög vel í úrslitum en þau enduðu í 5. sæti þrátt fyrir frábærar æfingar. Þau áttu sinn besta dag í úrslitunum og bættu sig um 4,2 stig frá undanúrslitum sem verður að teljast mjög vel gert. Þau sýndu mikla leikgleði og liðsheild í gegnum allt mótið og var gaman að horfa á þau. Danmörk sigraði flokkinn og komu svo Svíar í 2. sæti og Bretar í því þriðja. Í blandaða liðinu voru fulltrúar Gerplu þau Guðrún Jónsdóttir, Tinna Dögg Sigurðardóttir, Ísabella Ósk Jónsdóttir, Hilmar Andri Lárusson og Nadía Hafþórsdóttir.
Drengjalið Íslands var skipað ungum og efnilegum fimleikamönnum sem voru allir að keppa á svona stóru móti í fyrsta skiptið. Þeir bættu sig um hvorki meira né minna en 5,45 stig frá undanúrslitum í úrslitin sem er risastökk. Þeir voru báða keppnisdagana fyrstir í gólfæfingum og stóðust þeir prófið með glæsibrag. Meirihluti keppenda í liðinu getur keppt aftur í unglingaflokki eftir tvö ár á næsta Evrópumóti og mun þessi reynsla nýtast þeim vel þegar þar að kemur. Í Drengjaliði Íslands átti Gerpla fjóra fulltrúa þá Andra Má Vilhelmsson, Atla Fannar Hlynsson, Birgi Hólm Þorsteinsson og Björn Helga Devine.

Fjöldi áhorfenda lögðu leið sína til Lúxemborgar til að styðja við bakið á sínu fólki og er óhætt að segja að andrúmsloftið og stemmningin hafi verið rafmögnuð alla keppnisdagana!

Gerpla átti einnig fjölda þjálfara sem voru með landsliðin á mótinu í Lúxemborg en það voru þau Björk Guðmundsdóttir, Eysteinn Máni Oddsson, Magnús Óli Sigurðsson, Yrsa Ívarsdóttir og Þorgeir Ívarsson.

Julie Woldseth að þjálfari hjá Gerplu

Fyrir tveimur árum byrjaði Julie Woldseth að þjálfa hjá Gerplu en hún er norskur ríkisborgari og keppti með norska landsliðinu í kvennaflokki. Norska liðið sýndi flotta takta og náðu fjórða sætinu á eftir Dönum. Julie var lykilkona í þeirra liði og er Gerpla heppin að hafa hana í kvennaliði Gerplu.

Forsíðumynd: Bryndís Guðnadóttir úr Gerplu var valin í AllStar lið mótsins

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar