Jólamarkaður í Stjörnuheimilinu

Stjörnukonur, yngsta deildin innan Stjörnunnar, var stofnuð að frumkvæði Hörpu Rósar Gísladóttur þann 5. september 2019.

Harpa Rós fékk til liðs við sig nokkrar konur sem allar brenna fyrir Stjörnunni og eiga það sameiginlegt að hafa fylgt eftir og stutt við félagið á einn eða annan hátt til fjölda ára.

Aðaltilgangur Stjörnukvenna er að efla þátttöku kvenna í barna- og unglingastarfi Stjörnunnar, með áherslu á að ná til kvenna í öllum deildum félagsins. Helstu hlutverk Stjörnukvenna er að stuðla að fræðslu- og uppbyggingarstarfi, standa fyrir viðburðum í fjáröflunarskyni og skapa tengsl milli félagsmanna. Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni og þeir fjármunir sem safnast renna óskiptir í að styrkja tiltekin verkefni eða málefni. Helstu viðburðir hafa meðal annars verið fræðslukvöld um svefnvenjur barna og unglinga, Stjörnukvennaganga um Garðabæ með Garðbæingum sem deildu skemmtilegum sögum af bæjarlífinu í gegnum tíðina, sala á Stjörnumerktum flísteppum, jólamarkaður í Stjörnuheimilinu og að ógleymdu jólaglöggi þar sem kvenfrumkvöðlar í Stjörnunni mættu og sögðu frá óeigingjörnu starfi sínu fyrir Stjörnuna á árum áður. Vegna samkomutakmarkana í samfélaginu þurfti að aflýsa eða fresta mörgum þeim viðburðum sem standa átti fyrir, en það er von Stjörnukvenna að félagið komi tvíeflt til baka í vetur og nái að halda áfram á sömu braut.

Fjöldi fyrirtækja með vörur sínar til sölu og léttar veitingar

Þann 26. nóvember næstkomandi mun jólamarkaðurinn vera endurtekinn í Stjörnuheimilinu, þar sem fjöldinn allur af fyrirtækjum verða með vörur sínar til sölu, léttar veitingar á boðstólnum og jólaleg stemning allsráðandi. Stjörnukonur vonast til að sjá sem flesta!

Stjörnukonur hafa m.a. staðið fyrir Stjörnukvennagöngu um Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar