Aðventuhátíð á Garðatorgi

Aðventuhátíð Garðabæjar verður haldin á Garðatorgi laugardaginn 26. nóvember frá 13-16. Dagskráin fer fram á Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar og á Garðatorgi og öll fjölskyldan ætti að geta notið saman.

„Hugmyndin er sú að gestir geti rölt á milli staða og notið þess sem er á dagskrá í rólegheitum en samtímis verða skapandi smiðjur á Hönnunarsafninu og á Bókasafninu. Þá verður handverksmarkaður einnig opinn allan tímann eða frá 1-4 en þar munu handóðir prjónarar selja ýmsar prjónavörur, handgerð kerti verða til sölu, fallegt keramik og fleira“ segir Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi Garðabæjar um dagskrána.

Verslunin Me&Mu mun teygja búðina út og selja gæðamatvöru en einnig heitt súkkulaði og kaffi sem gestir geta gætt sér á þegar myndlistarsýning Grósku á sýningarflekum er skoðuð eða tónlistar notið en lifandi tónlistarflutningur verður á litlu sviði í hinum enda göngugötunnar eða við apótekið.

„Garðasystur, þær Guðrún Ágústa Gunnarsdóttir, Bryndís Magnúsdóttir og Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir munu syngja yndisleg jólatríó en einnig koma fram Einar Örn Magnússon og Matthías Helgi Sigurðarsson sem flytja innlend og erlend jólalög. Dagskrána á sviði hefja hinsvegar krakkarnir í Barnakór Vídalínskirkju undir stjórn Davíðs Sigurgeirssonar en þau koma fram klukkan 13 og svo lýkur Blásarasveit Tónlistarskólans deginum með jólasyrpu sem hefst kl. 15:30,“ segir Ólöf menningarfulltrúi.

Ekki má svo gleyma að minnast á að jólaball með jólasveinum fer fram á Garðatorgi 7 klukkan 14:30 og í kjölfarið jólasöngleikur fluttur á Bókasafni Garðabæjar.

Það er ljóst að líf og fjör mun einkenna Aðventuhátíð Garðabæjar þann 26. nóvember en öll dagskráratriðin eru ókeypis. Daginn áður munu leikskólabörn fjölmenna á torgið til að tendra ljósin á jólatrénu.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar